Fræðsla og umræður um neikvæð áhrif ofneyslu og offramleiðslu
66°Norður í samstarfi við Miðstöð hönnunar og arkitektúrs og Festu - miðstöð um sjálfbærni stóðu í síðustu viku fyrir viðburðinum Erum við að kaupa til að henda? í Grósku. Markmiðið með viðburðinum var að fræða og ræða neikvæð áhrif ofneyslu og offramleiðislu þar sem sérfræðingar og hönnuðir stigu á stokk ásamt áhugaverðum pallborðsumræðum.
„Við Íslendingar erum með stærsta vistspor allra þjóða, ef allar þjóðir væru eins og við þá þyrftum við 14 jarðar til að standa undir þeirri neyslu.“ Þetta kom fram í erindi Kristínar Völu Ragnarsdóttur prófessor við HÍ þar sem hún sagði jafnframt að meðalhiti jarðar væri komin yfir 2°gráður „Það gerðist í síðustu viku. Ef við missum loftslagsmálin úr höndunum okkar þá er lítil framtíð fyrir barnabörnin okkar.“
Þrátt fyrir alvarleg áhrif loftslagsbreytinga þá er neysluhegðun fólks enn þá föst í kerfi sem viðheldur þessari þróun. Auk Kristínar Völu héldu Hrefna Sigurðardóttir, hönnuður hjá Studio Fléttu, Bjarney Harðardóttir eigandi 66°Norður, Elva Rakel Jónsdóttir framkvæmdastjóri Festu, Þorgerður María Þorbjarnardóttir og Vigdís Fríða Þorvaldsdóttir hjá Landvernd, Margrét Mist Tindsdóttir hjá Regn, ásamt hönnuðunum Valdísi Steinars og Arnari Inga erindi á málstofunni. Freyr Eyjólfsson stýrði fundi og pallborðsumræðum þar sem Rakel Garðarsdóttir, Logi Pedro Stefánsson, Sigríður Ágústa Finnbogadóttir og Hrefna Sigurðardóttir ræddu um leiðir til að innleiða hringrás í hönnun og fataframleiðslu.
„Ef framleiðsla á textíl helst óbreytt í heiminum þá mun losun vegna framleiðslu á tískufatnaði aukast um 50% árið 2030. Af þeim 100 milljörðum tonna sem framleitt er af textíl endar 92 milljónir í úrgangi, sem urðaður úrgangur eða brenndur,“ sagði Freyr Eyjólfssonar.
„Það skiptir okkur miklu máli að taka þátt í vitundarvakningu um mikilvægi hringrásar og hvetja til umhverfisvænni framleiðslu, hönnunar og neysluhegðunar. Það felst mikil ábyrgð í framleiðslu á fatnaði þar sem efnin þurfa að endast, þannig að hægt sé að gera við þau, það er hin sanna hringrás.“ sagði Bjarney Harðardóttir eigandi 66°Norður í erindi sínu.
„Hagsmunir fyrirtækja liggja í sjálfbærni og að fylgja eftir hringrásarmódeli. Við erum núna í línulegu hagkerfi en við viljum komast í hringrásarkerfi þar sem endurnotkun og endurframleiðsla er áherslan. Við þurfum að hanna inn breytingar í kerfin okkar bæði varðandi neyslu og framleiðslu. Við þurfum að koma þessari hugsun inn í menninguna okkar til að draga úr ofnýtingu auðlinda jarðar,“ Elva Rakel Jónsdóttir framkvæmdastjóri Festu.
„Það er í raun og veru ekki til rusl heldur bara hráefni í röngu samhengi,“ sagði Hrefna Sigurðardóttir, hönnuður hjá Fléttu sem sérhæfa sig í að skapa verðmæti úr hlutum sem annars yrði fargað. Samvinna milli vísindafólks, hönnuða, fyrirtækja og samfélagsins er lykillinn í að leysa þetta vandamál, að mati Hrefnu í panelumræðum.
Rakel Garðars sat einnig í panel og ítrekaði mikilvægi þess að hvort sem það væri til að sporna við matarsóun eða öðru fótspori, að við sem neytendur veljum rétt, kaupum minna og séum tilbúin að greiða fyrir sjálfbæra framleiðslu sem er einfaldlega dýrari. „Ef neytendur eru ekki tilbúnir, þá verður ekki breyting.“
Logi Pedro Stefánsson, vöruhönnuður, var einn af þeim sem tóku þátt í umræðum að erindum loknum og vakti athygli á því að það þyrfti að efla menntun og þekkingu inn í hringrásarkerfið á Íslandi. „Við þurfum að skilja það sem er verið að ræða um, annars er ekkert samtal.“ Hann sagði jafnframt að það væru fjöldi hönnuða að útskrifast á hverju ári, en það dugar skammt ef þekkingu vantar í framleiðsluhlutann. Logi kallaði eftir þátttöku og hvata frá stjórnvöldum til að skapa betra umhverfi fyrir innlenda framleiðslu.
Við þökkum gestum kærlega fyrir komuna og hér má skoða myndir frá viðburðinum.