Framúrskarandi fögnuður á Hönnunarverðlaunum Íslands
Það var mikið um dýrðir í Grósku síðastliðinn fimmtudag þar sem fjöldi gesta fræddust um og fögnuðu framúrskarandi hönnun og arkitektúr á Hönnunarverðlaunum Íslands.
Dagurinn hófst með innsýn inn í þau verkefni sem tilnefnd voru til verðlaunanna í ár og umræðum sem þau Rúna Thors, hönnuður og lektor við hönnunardeild Listaháskóla Íslands og Bergur Finnbogason, creative director hjá CCP stýrðu. Í kjölfarið fór svo fram verðlaunaafhending þar sem Plastplan hlaut Hönnunarverðlaun Íslands 2022, Reynir Vilhjálmsson, landslagsarkitekt var Heiðursverðlaunahafi Hönnunarverðlaunanna og Fólk Reykjavík hlaut viðurkenningu fyrir bestu fjárfestingu í hönnun.
Lilja D. Alfreðsdóttir, ráðherra menningar og viðskipta afhenti heiðursverðlaunin og aðalverðlaun kvöldsins og Árni Sigurjónsson, formaður stjórnar Samtaka iðnaðarins afhenti viðurkenninguna fyrir bestu fjárfestingu í hönnun. Bergur Finnbogason sá um að stýra verðlaunaafhendingunni sjálfri.
Kvikmyndað efni verðlaunanna var í höndunum á Einari Egilssyni og Auður Ösp sá um upplifunarhönnunina.
Það er Miðstöð hönnunar og arkitektúrs sem stendur að verðlaununum, í samstarfi við Hönnunarsafn Íslands, Listaháskóla Íslands, Íslandsstofu og Samtök iðnaðarins.
Hér má sjá myndir frá deginum. Ljósmyndari: Aldís Páls