Fyrirlestur með Ýrúrarí í Listasafni Sigurjóns í Laugarnesi

Ýr Jóhannsdóttir - Ýrúrarí mun kynna verk sín og listsköpun í Listasafni Sigurjóns í Laugarnesi, þriðjudaginn 25. febrúar kl: 20:00.
Ýr mun meðal annars segja frá þróun verkefnisins PRÓTÓTÝPA sem hún vinnur á nýja gerð stafrænnar prjónavélar sem hún hefur flutt til landsins. Hún mun sýna vörur sem hún hefur prjónað á vélina ásamt nýjum prufum sem eru prjónaðar meðal annars úr íslenskri ull; einbandi og fjallalopa.
Hún hefur hlotið verðskuldaða athygli fyrir prjónahönnun sína um heim allan. Ýrúrarí ásamt stúdíó Fléttu hlaut Hönnunarverðlaun Íslands árið 2023 fyrir verkefnið Pítsustund. Ýrúrarí var einnig tilnefnd til Hönnunarverðlauna Íslands fyrir verkefnið Peysa með öllu sem hún vann í samstarfi við fatasöfnun Rauða krossins.
Nánar um Prjónavetur;
Prjónavetur í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar í Laugarnesi er röð stuttra sýninga og viðburða veturinn 2024−25, þar sem ljósi er varpað á prjónahönnun og stöðu íslensks prjónaiðnaðar. Markmiðið er að kynna hluta af þeirri flóru prjónahönnunar sem hefur verið framleidd á Íslandi síðustu ár. Verkefnið gengur einnig út á að opna umræðu um stöðu íslensks prjónaiðnaðar fyrr og nú, og líta til framtíðar.
Samspil sýninga, fyrirlestra og málþings mun gefa gestum einstaka innsýn inn í ferli frá hugmyndavinnu til fullbúnar prjónavöru. Miklar sviptingar hafa átt sér stað síðustu ár í íslenskum prjónaiðnaði. Þörf er á umræðu um varðveislugildi hans og möguleikum í nýsköpun. Íslenskir hönnuðir með sjálfbærni að leiðarljósi hafa í samstarfi við prjónaverksmiðjur hérlendis framleitt hluta af þekktustu hönnunarvörum landsins sem margar hafa náð heimsathygli.
Aðgangseyrir: 1000 kr.