Fyrirlestur um Vík Prjónsdóttur í Listasafni Sigurjóns í Laugarnesi

Árið 2025 eru 20 ár frá því að Vík Prjónsdóttir kynnti sína fyrstu vörulínu. Hönnuðurnir Brynhildur Pálsdóttir og Guðfinna Mjöll Magnúsdóttir munu halda fyrirlestur um verkefnið í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar þriðjudagskvöldið 11. mars næstkomandi klukkan 20:00.
Vík Prjónsdóttur var stofnuð árið 2005 af Hrafnkeli Birgissyni, Guðfinnu Mjöll Magnúsdóttur, Brynhildi Pálsdóttur, Þuríði Rós Sigurþórsdóttur og Agli Kalevi Karlssyni. Það sem gerði verkefnið einstakt var samstarf þeirra og Þóris Kjartanssonar framkvæmdastjóra Víkurprjóns og annarra starfsmanna verksmiðjunnar sem þá var elsta starfandi prjónaverksmiðja landsins. Á þessum árum var ull og prjónavörur ekki í tísku en vörur Vík Prjónsdóttur höfðu mikil og mótandi áhrif á þá hönnuði sem á eftir fylgdu. Sköpunarkrafturinn var eins og sprengja, nútímaleg hönnun, form og litaval komu eins og ferskur andblær inn í íslenskan hönnunarheim og skyndilega var íslensk prjónavara orðin spennandi og töff.
Fyrirlesturinn er hluti af Prjónavetri í Listasafni Sigurjóns en verkefnið er röð stuttra sýninga og viðburða veturinn 2024−25, þar sem ljósi er varpað á prjónahönnun og stöðu íslensks prjónaiðnaðar. Markmiðið er að kynna hluta af þeirri flóru prjónahönnunar sem hefur verið framleidd á Íslandi síðustu ár og opna umræðu um stöðu íslensks prjónaiðnaðar fyrr, nú, og til framtíðar.
Vík Prjónsdóttir náði fljótt athygli ekki aðeins hérlendis heldur út um heim allan. Hönnunarteymið ferðaðist heimsálfa á milli en eftirspurn eftir fyrirlestrum og kynningum um verkefnið var mikil, þá sérstaklega með tilliti til þess hvernig hönnuðurnir tengdu sögu og menningu landsins við hönnunarvöru. Vík Prjónsdóttir er í dag þekkt fyrir frumlega hönnuð teppi og fatnað úr íslenskri ull. Þjóðsögur, náttúran og töfrar hversdagsins voru helsti innblástur að verkunum. Mikið hefur gerst á þessum 20 árum. Víkurprjón var selt, verksmiðjan lögð niður á Vík og flutti Vík Prjónsdóttir framleiðslu sína til Glófa í Reykjavík, Hrafnkell og Egill sögðu skilið við verkefnið og eftirlíkingar af skegghúfunum vinsælu seljast enn úti í heimi. En eftir stendur Vík Prjónsdóttir, reynslubanki hönnuðanna og einstakar tímalausar vörur.



