Svífandi stígar og samstarf Þykjó og Gagarín hljóta hæstu styrki Hönnunarsjóðs

27 fjölbreytt verkefni á sviði hönnunar og arkitektúrs hlutu styrki Hönnunarsjóðs í fyrri úthlutun ársins sem fór fram í Miðstöð hönnunar og arkitektúrs í Grósku þann 4. mars þar sem 38 milljónir voru til úthlutunar.
Alls bárust 122 umsóknir um almenna styrki þar sem sótt var um tæpar 355 milljónir og 48 umsóknir bárums um ferðastyrki. 35,6 milljónum var úthlutað til 5 markaðs- og kynningarstyrkja, 15 verkefnastyrkja og 7 rannsóknar- og þróunarstyrkja. Einnig var 16 ferðastyrkjum úthlutað til 15 verkefna, 150.000 kr. hver.
Hæstu styrkina, 4 milljónir, hlutu annars vegar Hovering Trails, markaðs- og kynningarstyrk fyrir verkefnið Svífandi stíga. Verkefnið snýst um að markaðssetja erlendis sveigjanlegt og umhverfisvænt göngustígakerfi. Svífandi stígar lágmarka snertingu við jörðina og hlífir þannig viðkvæmum náttúrusvæðum. Stígakerfið er stílhreint, gert úr forsmíðuðum einingum sem sparar kostnað og kemur í veg fyrir rask á náttúru. Hins vegar hlutu Þykjó og Gagarín verkefnastyrk fyrir verkefnið Hlust sem eru ný hljóðfæri á sviði gagnvirkrar upplifunarhönnunar sem gerir öllum börnum kleift að skynja hljóð og tónlist. Verkefnið er unnið í samstarfi ÞYKJÓ og Gagarín sem tengja saman margmiðlunartækni og nýstárlega hönnun.
„Óvenjumikill fjöldi barst um styrki í fyrstu úthlutun úr Hönnunarsjóði 2025, eða 122 talsins sem ber merki um mikla grósku og nýsköpun sem á sér stað á sviði hönnunar og arkitektúrs á Íslandi í dag. Aukinn fjölbreytileiki og breidd birtist í verkefnum styrkþega, allt frá nýsköpun byggð á efnistilraunum, áherslur á umhverfið og hringrásarhagkerfi, rannsóknir á arfleifð, samfélagslegar áherslur, verðmætasköpun og erlend markaðssókn. Á síðasta ári var unnin metnaðarfull framtíðarsýn fyrir Hönnunarsjóð með það markmið að efla sjóðinn, enda brýnt að nýta betur þann sköpunarkraft sem býr í hönnun og arkitektúr á Íslandi til framtíðar.“
Guðrún Inga Ingólfsdóttir, formaður stjórnar.
Fjölmenni var á úthlutunina sem fór fram í Miðstöð hönnunar og arkitektúrs í Grósku þriðjudaginn 4. mars þar sem Logi Einarsson, menningar- nýsköpunar- og háskólaráðherra ávarpaði hópinn og úthlutaði styrkjum ásamt Guðrúnu Ingu Ingólfsdóttur, formanni stjórnar Hönnunarsjóðs.
Fulltrúar verkefnanna, Efnisheimar: Anna Karsdóttir, arkitekt og Hagvextir: Búi Bjarmar Aðalsteinsson, vöruhönnuður, sem áður hafa fengið styrki úr sjóðnum veittu gestum innsýn í verkefni sýn og héldu örerindi um mikilvægi styrkja Hönnunarsjóðs.
Stjórn sjóðsins skipa Guðrún Inga Ingólfsdóttir, formaður stjórnar, Steinunn Vala Sigfúsdóttir, vöruhönnuður, Þorleifur Gunnar Gíslason, grafískur hönnuður, Helgi Steinar Helgason arkitekt,
Guðrún Ragna Sigurjónsdóttir, fatahönnuður og Kristján Örn Kjartansson, arkitekt sem tók að hluta þátt í úthlutuninni.
Hér má lesa nánar um verkefnin sem hlutu styrk úr Hönnunarsjóði:
Markaðs- og kynningarstyrkir

Svífandi stígar - Erlend markaðssókn - Hovering Trails - 4.000.000 kr.
Erlend markaðssókn Svífandi stíga sem er sveigjanlegt og umhverfisvænt göngustígakerfi sem lágmarkar snertingu við jörðina og hlífir þannig viðkvæmum náttúrusvæðum. Stígakerfið er stílhreint úr forsmíðuðum einingum sem sparar kostnað og kemur í veg fyrir rask á náttúru.

KALDA - Erlend markaðssókn - Katrín Alda Rafnsdóttir - 2.000.000 kr.
KALDA mun ráðast í markaðssókn á erlenda markaði með þátttöku í sölusýningu á tískuvikunni í París. Verkefnið er unnið í samstarfi við söluskrifstofuna We are moso.

Varpið - Markaðssetning - Studio Erindrekar - 2.000.000 kr.
Stúdíó Erindrekar hafa unnið að þróun fatnaðar með íslenskum æðardún með það að leiðarljósi að skapa hágæða fatnað úr vistvænum efnum og að endurheimta staðbundna fataframleiðslu á Íslandi. Unnið verður að markaðssókn verkefnisins.

Morra - Mörkun og markaðsstefna - Signý Þórhallsdóttir - 1.000.000 kr.
Endurskoðun mörkunar, yfirbragðs og markaðssetningar Morra í kjölfar útgáfu nýrrar línu og markaðssetningar erlendis.

Jarðsetning - alþjóðleg útgáfa - Úrbanistan - 500.000 kr.
Alþjóðleg kynning bókarinnar Jarðsetning sem er einstakt og áhrifamikið verk sem hefur skapað áhugaverðar umræður og vakið fólk til umhugsunar um arkitektúr og hlutverk hans í nútímanum.
Verkefnastyrkir

Hlust - Gagnvirk hljóðfæri - Þykjó x Gagarín - 4.000.000 kr.
Við erum öll með hlust inni í eyranu, hvort sem við heyrum hljóð eða ekki. HLUST eru ný hljóðfæri á sviði gagnvirkrar upplifunarhönnunar sem gerir öllum börnum kleift að skynja hljóð og tónlist. Verkefnið er samstarf ÞYKJÓ og Gagarín sem leiða saman nýstárlega hönnun og margmiðlunartækni.

Smiðjumúr - Byggingarefni úr íslenskum leir - Sei Studio. - 2.000.000 kr.
Verkefnið gengur út á að skapa nýtt íslenskt byggingarefni úr íslenskum leir, sem hægt verður að nota á mörgum sviðum húsbygginga. Þakskífur, eldhúsflísar og berandi íslenskir múrsteinar eru dæmi um þær afurðir sem hægt verður að vinna úr leirnum.

Fræ til stærri afreka - Vöruþróun - Emilía Borgþórsdóttir - 1.300.000 kr.
Þróun þátttökuverðlauna úr lífrænum massa sem innihalda fræ þar sem notast er við afgangsafurðir í nýja framleiðslu. Þegar dáðst hefur verið að gripnum má gróðursetja hann svo upp spretti verðlaunagarður. Hefur lítið kolefnisspor og kennir börnum á öllum aldri umhverfis- og skógarvernd.

Vitrum - endurunnið gler - Johanna Seelemann - 1.000.000 kr.
Vitrum er hluti af stærra verkefni sem hefur það markmið að auka möguleika á endurvinnslu glers á Íslandi. Unnið er að því að þróa nokkrar staðbundnar vörulínur.

Askjan - Umbúðir fyrir búningasilfur - Helga Ósk Einarsdóttir - 1.000.000 kr.
Hönnun vandaðra og tímalausra umbúða sem er ætlað að varðveita og halda fallega utanum það listhandverk sem tilheyrir Íslenska þjóðbúningnum. Í öskjunni verða skráningarform til að halda utan um sögu silfursins fyrir komandi kynslóð.

Volcano & Friends - innriinnri - Raphaël Costes - 1.000.000 kr.
„Volcano and Friends“ er sýning á verkum 10 hönnuða sem vinna með Vulcan Clay sem er nýstárlegt efni úr hrauni þróað með rannsóknum á umbreytingu basalts. Verkefnið tengir efnisfræði og handverk og endurskilgreinir hraun sem sjálfbæran valkost fyrir keramik.

Stanslaust, þrjú stutt, eitt langt - Sýning - Helga Lilja Magnúsdóttir - 1.000.000 kr.
Fatamerkið BAHNS, sem vann hönnunarverðlaunin 2024 fyrir peysuna James Cook, sýnir nýjar útgáfur af peysunni á HönnunarMars 2025. Sýningin snýst um heim hafsins þar sem höfuðáttabaujurnar eru í hávegum hafðar.

HönnunarÞing / DesignThing - Hönnunarviðburður - Hraðið miðstöð nýsköpunar - 1.000.000 kr.
HönnunarÞing er hátíð hönnunar og nýsköpunar sem verður haldin í þriðja sinn á Húsavík, með áherslu á snertifleti hönnunar, nýsköpunar og matargerðar. Á viðburðinum koma saman hönnuðir, frumkvöðlar, matreiðslufólk, listnemar og fólk úr nærsamfélagi og atvinnulífinu.

Hagvextir - framleiðsla - Grallaragerðin - 1.000.000 kr.
Verkefnið er framleiðsla verka úr rannsóknarvinnu og þróun hönnuða og framhald af vinnu með þrívíða skúlptúra úr hagfræðigögnum. Markmiðið er að auka skilning á flóknum efnahagsgögnum og varðveita sögu þjóðar.

Klassísk íslensk húsgögn fá sitt rými í sögunni - FÓLK Reykjavík - 1.000.000 kr.
Íslensk húsgagnahönnun er rík þegar litið er á safn teikninga eftir Gunnar Magnússon, heiðursverðlaunahafa Hönnunarverðlauna Íslands. Með endurútgáfu á húsgögnum Gunnars leggur FÓLK sitt af mörkum til að viðhalda íslenskum hönnunararfi og auka sýnileika og virði íslenskrar hönnunar í nútímasamfélagi.

Duftker - Framleiðsla - Subba slf. - 1.000.000 kr.
Duftker, sköpuð með áherslu fegurð, einfaldleika og hratt niðurbrot í jörðu eru komin á framleiðslustig sem fer fram í Hollandi.

Til & frá - Ungir hönnuðir og bændur á Snæfellsnesi - Elín Margot Ármannsdóttir - 1.000.000 kr.
„Til og frá“ er verkefni sem tengir unga hönnuði og bændur á Snæfellsnesi í þróun matvara með sjálfbærum áherslum og unnar úr staðbundnum hráefnum. Á HönnunarMars verða kynntir fimm réttir og nytjahlutir úr kjöti, skinni og hári frá Hofsstöðum og Hrísakoti.

Hvert skal haldið? - Stúdía um Seyðisfjörð - Hlín Helga Guðlaugsdóttir - 800.000 kr.
Verkefnið er gerð myndrænt rannsóknar- og þróunarverkefni um framtíð menningarlífs á Seyðisfirði, þar sem aðferðum hönnunarhugsunar og framtíðarfræða er beitt.

Nodens, Sulis and Taranis - Three new masks - James Merry - 500.000 kr.
Gerð þriggja nýrra gríma sem sækja innblástur til rómversk-keltneskra fornleifa, eftir James Merry og unnar fyrir sýningu á Listasafni á Akureyri í ágúst 2025.

Myndasaga - Hvað er að vera trans? - Elías Rúni - 500.000 kr.
Gerð myndasögu sem fjallar um hvað það er að vera trans og byggir á persónulegri reynslu höfundar.
Rannsóknar- og þróunarstyrkir

Eclipse - sjálfbærari framleiðsla á húsgögnum - Guðmundur Lúðvík Grétarsson - 2.000.000 kr.
Guðmundur Lúðvík hefur þróað hugmynd sem er mögulega brautryðjandi lausn og stuðlar að sjálfbærari og hringrásarvænni framleiðslu á bólstruðum húsgögnum í alþjóðlegum húsgagnaiðnaði.

Glerun - Steining úr glerúrgangi - Guðrún Kolbeinsdóttir og Kári Arnarsson - 1.500.000 kr.
Glerun er hönnunar- & þróunarverkefni þar sem notast er við íslensku aðferðina „steiningu“ til húsaklæðningar. Í stað innfluttra bergtegunda er gerð tilraun með úrgangsgler sem annars væri urðað.

Týra - Ný nálgun í lýsingu - Theodóra Alfreðsdóttir - 1.000.000 kr.
Hönnun lampa þar sem birtustigi er stjórnað handvirkt með einföldum hreyfingum. Markmiðið er að skapa innsæja lýsingarupplifun með endingargóðum, vistvænum efnum, innblásið af hefðbundnum pappaskermum.

Lókal lykkjur - Staðbundin og sjálfbær framleiðsla - Andrea Fanney Jónsdóttir - 1.000.000 kr.
30 ára gömul Passap iðnaðarprjónavél verður uppfærð með aðstoð sérfræðinga í vélprjóni, hugbúnaði og forritun. Markmiðið er að bjarga gamalli prjónavél og finna henni nýjan tilgang, til þess að hanna og fullvinna prjónavörur með staðbundna og sjálfbæra framleiðslu í huga.

Ilmur - Ilmgjafi - Þórunn Árnadóttir - 1.000.000 kr.
Markmiðið er að hanna nýja tegund ilmgjafa sem sameinar virkni og áhugaverð skúlptúrískt form innblásin af pappírsbrotum.

Leit að postulíni - Framhald á rannsókn og ritrýnd grein í fagtímariti - Brynhildur Pálsdóttir - 1.000.000 kr.
Leit að postulíni er þverfagleg hönnunar rannsókn á íslenskum jarðefnum í víðu samhengi náttúrufræði, menningar og keramiks sem hefur staðið yfir með hléum frá 2016. Þekking og niðurstöður verða teknar saman og miðlað áfram í formi ritrýndar faggreinar.

Dundur - Guðmundur Kr. Guðmundsson persónan og arkitektinn - Dögg Guðmundsdóttir - 500.000 kr
Fræðandi og skemmtileg bók um Guðmund Kr. Guðmundsson, arkitekt, sem byggist á viðtölum sem tekin voru við Guðmund sjálfan, auk nýrra viðtala við samstarfsfólk hans. Farið verður yfir feril hans og áhrif á íslenska byggingarlist.
Ferðastyrkir að upphæð 150.000 kr.
- Leirlistafélag Íslands, samstarfsverkefni í Kalkspatz, Þýskalandi
- Sigríður Heimisdóttir, þátttaka í 3 Days of Design, Danmörk
- Álfrún Pálmadóttir, sýning Textílfélagsins á HönnunarMars, Ísland
- Thora Finnsdottir Søe, Reading Lava sýning á HönnunarMars, Ísland
- RoShamBo - RÓ, markaðssetning í Japan
- Steinunn Bjarnadóttir, Beyond the Inclusion, Ítalía
- Birta Fróðadóttir, rannsóknarverkefni, Listsköpunarvélar skipulagðs glundroða, Sviss
- Eva Árnadóttir, rannsóknarverkefni, Skógur, Noregur
- Hrafnhildur Guðrúnardóttir, Hidden Goods, sýning á HönnunarMars, Ísland
- Idunn Sveinsdottir, þátttaka í 3 Days of Design, Danmörk
- Sólveig Dóra Hansdóttir, Sól x Trippen samstarfsverkefni, Þýskaland
- Óskar Örn Arnórsson, Castello del Valentino Dialogues, Ítalía
- Erla Sólveig Óskarsdóttir, fundir með framleiðendum í Mílanó, Ítalía
- Hanna Dís Whitehead, námskeið í Haystack Mountain School of Crafts, Bandaríkin
- Hörður Lárusson, Tákn lands og þjóðar rannsóknarferð, Danmörk