Stærri og öflugri Hönnunarsjóður eflir verðmætasköpun og stuðlar að jákvæðum samfélagsbreytingum
Framtíðarsýn Hönnunarsjóðs hefur nú litið dagsins ljós þar sem lagt er til að sjóðurinn verði stækkaður verulega. Með því að stækka og efla Hönnunarsjóð veita stjórnvöld kröftugri grasrót og fyrirtækjum mikilvægt súrefni, og um leið tækifæri til að vaxa og eflast hraðar. Hönnunarsjóður getur orðið lykilverkfæri íslenskra stjórnvalda til að ná fram jákvæðum samfélagsbreytingum til framtíðar.
Stækkun sjóðsins hefði í för með sér aukna verðmætasköpun og bætt lífsgæði, líkt og nágrannar okkar á Norðurlöndunum hafa náð fram, m.a. á sviðum hins byggða umhverfis, í grænum lausnum, stafrænni umbreytingu og innan heilbrigðiskerfa. Þannig má tryggja að aðferðafræði hönnunar og arkitektúrs sé nýtt markvisst til fjölbreyttari nýsköpunar þar sem aukin lífsgæði, hagsæld og sjálfbærni eru í brennidepli.
Eftir tíu ára starfsemi Hönnunarsjóðs var tímabært að horfa til baka og meta hreyfiafl og áhrifamátt sjóðsins með könnun og rýni sem staðfestir að sjóðurinn hefur frá stofnun verið hvetjandi fyrir hönnuði og nýskapandi verkefni þeirra og mikilvægur fyrir faglega þróun. Hönnunarsjóður er einn sinnar tegundar á Íslandi en fyrir tíma hans voru lítil sem engin tækifæri fyrir hönnuði og arkitekta til að fjármagna nýskapandi verkefni. Sjóðurinn hefur tryggt að hönnuðum, arkitektum og fyrirtækjum á ólíkum sviðum gefst tækifæri til nýsköpunar, til að þróa hugmyndir, hrinda verkefnum í framkvæmd og mynda sterkari tengsl út fyrir landsteinana.
„Kostir hönnunar og aðferðafræðin sem í henni felst eru fjársjóður sem atvinnulífið á eftir að uppgötva til fulls. Hönnun er eitt öflugasta verkfærið sem við höfum til þess að tengja saman sköpunarkraft, tækni og vísindi í þágu fólks og umhverfis. Með því að nýta aðferðir hönnunar geta stjórnvöld og atvinnulíf aukið gæði, bætt heilsu og mannnlíf, skapað áhugaverð störf og hraðað verðmætasköpun á ólíkum sviðum. Hönnunarsjóður hefur sannað á undanförnum árum að hann getur verið megin tæki á þeirri vegferð fái hann til þess aukin styrk.“ - Guðrún Inga Ingólfsdóttir, formaður stjórnar Hönnunarsjóðs
Við mótun nýrrar framtíðarsýnar Hönnunarsjóðs lét stjórn sjóðsins gera könnun meðal hönnuða, arkitekta og fyrirtækja sem tengjast fjölbreyttum hönnunargreinum um viðhorf til sjóðsins og árangur af starfi hans. Hér má kynna sér framtíðarsýn stjórnar Hönnunarsjóðs og niðurstöður könnunarinnar.
Miðstöð hönnunar og arkitektúrs hafði umsjón með verkefninu í samstarfi við stjórn Hönnunarsjóðs og menningar- og viðskiptaráðuneytið, en það er liður í aðgerðum stjórnvalda byggðum á stefnu stjórnvalda í málefnum hönnunar og arkitektúrs, Útlínum framtíðar til 2030. Könnunin og samantektin var unnin af Steinunni Hauksdóttur, MS í stjórnun og stefnumótun frá viðskiptafræðideild Háskóla Íslands í samstarfi við ráðgjafafyrirtækið Arcur.