2024 fjölbreytt og frábært ár
Árið 2024 hefur verið árangursríkt í Miðstöð hönnunar og arkitektúrs með fjölbreyttum verkefnum og frábærum viðburðum
Miðstöðin hefur það markmið að vera hreyfiafl sjálfbærrar verðmætasköpunar sem byggir á hönnun og arkitektúr, að stuðla að auknu samstarfi milli hönnuða og fyrirtækja og vinna að því að efla hönnunardrifna nýsköpun sem mótandi afl í samfélagi og atvinnulífi framtíðar á Íslandi.
Hér er stiklað á stóru á því sem hæst bar:
Útlínur framtíðar
Stefna í málefnum hönnunar og arkitektúrs til 2030 heitir Útlínur framtíðar. Ráðuneyti menningar og viðskipta í samstarfi við Miðstöðina og aðra aðila hefur drifið áfram fjölbreyttar aðgerðir stefnunnar úr þingsályktun sem Alþingi samþykkt fyrir árin 2023–2026. Þar má nefna framtíðarsýn fyrir Hönnunarsjóð, þátttaka í Feneyjartvíæringi í arkitektúr, hækkun launasjóðs hönnuða og arkitekta og safnafræðsla í Hönnunarsafni Íslands. Einnig hefur verið unnið í skoðun og úttektum á hagrænum áhrifum; á verndun og miðlun menningararfs íslensks arkitektúrs; tækifærum innan sjóðakerfa nýsköpunar ofl.
Framtíðarsýn stefnunnar er að aðferðafræði hönnunar og arkitektúrs verði nýtt markvisst til að auka lífsgæði á Íslandi með áherslu á verðmætasköpun og sjálfbærni fyrir samfélagið í heild. Með því að nýta aðferðir hönnunar geta stjórnvöld aukið gæði, bætt heilsu og mannlíf, skapað áhugaverð störf og hraðað verðmætasköpun á ólíkum sviðum, hvor tveggja út frá hagrænum mælikvörðum en ekki síður mælikvörðum velsældar.
Í stefnunni eru fimm áherslusvið; verðmætasköpun, hagnýting hönnunar sem breytingarafls, sjálfbærr innviðauppbyggingu, menntun framsækinna kynslóða og kynning á íslenskri hönnun og arkitektúr hér á landi og alþjóðlega.
Þar sem kaos er norm og jafnvægi list!
Yfirskrift HönnunarMars 2024 var „Þar sem kaos er norm og jafnvægi list“ enda eru skapandi lausnir, gleði og hugmyndauðgi í bland við gagnrýna nálgun það sem einkennir hátíðina. Á HönnunarMars draga sýningar, viðburðir og þátttakendur fram í dagsljósið það sem efst er á baugi á sviði hönnunar og arkitektúrs og veita innsýn í nýjar lausnir og leiðir til að takast á við áskoranir samtímans til innblásturs fyrir þátttakendur og gesti. Hátíðin sameinar grasrót, lítil og stór fyrirtæki og stofnanir sem vekja athygli á þeim nýskapandi krafti sem býr í hönnun og arkitektúr og tækifærunum sem felast í því.
HönnunarMars fór fram í sextánda sinn 24. - 28. apríl með um 100 fjölbreyttum og forvitnilegum sýningum og 200 viðburðum sem fóru fram víða um höfuðborgarsvæðið. Hátíðin var mjög sýnileg og vakti mikla athygli og þátttaka mjög góð.
Sjáumst á HönnunarMars 2025 sem fer fram dagana 2 - 6. apríl.
Komdu í sirkus!
Þema DesignTalks 2024 var Sirkus: þar sem kaos er norm og jafnvægi list. Þannig var núið endurspeglað, með áherslu á tækifærin sem felast í ringulreiðinni og mikilvægi fegurðarinnar, gleðinnar og vonarinnar í skapandi línudansi. Dagskráin tókst á við öfgar og ójafnvægi ýmiskonar og jafnvægis var leitað „með viðhorfi skapandi ævintýrafólks og skvettu af æðruleysi línudansarans“. Í „tælandi töfraheimi er allt mögulegt, en undir yfirborðinu kraumar hið óvænta og stundum óþægilega” eins og sagði í lýsingu.
DesignTalks er alþjóðleg ráðstefna og lykilviðburður HönnunarMars sem fór enn og aftur fram fyrir fullu húsi í Norðurljósum í Hörpu, þann 24. apríl. Dagskrá dagsins var fjölbreytt þar sem sirkusandinn sveif yfir og fjallað var um tækifæri og áskoranir samtímans af framúrskarandi alþjóðlegum og íslenskum fyrirlesurum.
Listrænn stjórnandi DesignTalks 2024 var Hlín Helga Guðlaugsdóttir og framleiðandi Þura Stína Kristleifsdóttir. DesignTalks var streymt í beinni hjá hönnunar miðlinum Dezeen þar sem þúsundir fylgdust með.
HA - hvað er að gerast?
Kynningarfundur Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs fór fram í Grósku í september. Markmiðið var að gefa fagfólki, samstarfsaðilum og áhugasömum innsýn í nýjungar, helstu áherslur og verkefni Miðstöðvarinnar veturinn 2023-2024 svo sem Framtíðarsýn Hönnunarsjóðs, Hönnunarverðlaunin, HönnunarMars, DesignTalks, fyrirlestra og námskeið og nýjasta verkefnið sem er þátttaka Íslands í Feneyjatvíæringi í arkitektúr 2025.
Mjög fjölmennt var á fundinum en þar var sýnt myndband sem sýnir brot af þeim fjölbreyttu verkefnum sem unnið er að í Miðstöðinni í vetur - og gefa góð fyrirheit um spennandi ár framundan!
Hraunmyndanir í Feneyjum
Verkefni Arnhildar Pálmadóttur, Hraunmyndanir (e.Lavaforming) var valið framlag Íslands á Feneyjatvíæringnum í arkitektúr 2025. Arnhildur, ásamt teymi s.ap arkitekta og hópi sérfræðinga og þverfaglegra samstarfsaðila mun sýna Hraunmyndanir í Feneyjum 2025 fyrir Íslands hönd.
Í verkefninu Hraunmyndanir er sögð saga framtíðarsamfélags sem þróar framsæknar lausnir í mannvirkjagerð. Hraunrennsli er beislað, nýtt sem byggingarefni og tekst með því að umbreyta staðbundinni ógn í auðlind.
Árið 2023 samþykkti alþingi aðgerðaráætlun í málefnum hönnnunar og arkitektúrs og hluti af henni var þátttaka Íslands í Feneyjartvíæringnum. Árið 2024 var í fyrsta sinn kallað eftir tillögu í opnu kalli að sýningu Íslands fyrir tvíæringinn í arkitektúr í Feneyjum sem stendur yfir frá 10. maí til 23. nóvember 2025. Mennta- og menningarmálaráðuneyti Íslands fól Miðstöð hönnunar og arkitektúrs umsjón með framkvæmd verkefnisins.
Framúrskarandi fögnuður
Það var mikið um dýrðir í Grósku þann 7. nóvember þegar Hönnunarverðlaun Íslands voru afhent. Dagurinn hófst á því að gestir hlýddu á kynningar og fengu innsýn inn í þau níu framúrskarandi og fjölbreyttu verkefni sem tilnefnd voru til verðlaunanna í ár í flokkunum, staður, vara og verk. Í kjölfarið fór verðlaunaafhendingin fram með tilheyrandi fögnuði.
Búi Bjarmar Aðalsteinsson, vöruhönnuður og Magnea Guðmundsdóttir, arkitekt voru kynnar og stýrðu samtali við tilnefnda og verðlaunaafhendingunni sem fór fram fyrir fullum sal.
Sigurvegarar verðlaunanna í ár voru Gísli B. Björnsson, grafískur hönnuður sem var valinn Heiðursverðlaunahafi ársins. Í flokknum staður hlaut Smiðja, skrifstofubygging Alþingis eftir Studio Granda verðlaun. Í flokknum vara hlaut verðlaun peysan James Cook sem hönnuð er af Helgu Lilju Magnúsdóttur fatahönnuði í samstarfi við Stephan Stephensen listamann og í flokknum verk hlaut verkefnið Börnin að borðinu eftir Þykjó verðlaun. Og að lokum hlaut verslunarkeðjan Krónan viðurkenningu fyrir Bestu fjárfestingu í hönnun.
Sýn til framtíðar
Vinna við úttekt, könnun og gerð framtíðarsýnar Hönnunarsjóðs var unnin á árinu og niðurstöður og áherslur þeirrar vinnu kynntar fyrir stjórnvöldum og á viðburðum m.a. "Samtal um verðmæti skapandi greina, nýsköpun og úthlutun Hönnunarsjóð" í október þar sem seinni úthlutun ársins fór líka fram og á kynningarfundi í september.
Hönnunarsjóður stækkaði upp í 80 milljónir 2023 sem skapaði tækifæri fyrir nauðsynlega hækkun styrkja til einstakra verkefna.
Alls bárust á árinu 210 umsóknir um almenna styrki þar sem sótt var um 670 milljónir og umsóknir um 54 ferðastyrki. Sjóðurinn úthlutaði alls 75,8 milljónum til 45 fjölbreyttra verkefna og veitti 25 ferðastyrki 150 þús hver.
Opið er fyrir umsóknir í fyrri úthlutun Hönnununarsjóðs 2025 en umsóknarfrestur er til 29. janúar.
Sköpunarkrafturinn
Vel sóttur og kraftmikill kosningafundur var haldinn í stóra salnum í Grósku um málefni skapandi greina og menningar, þann 6. nóvember. Fulltrúar allra framboða til alþingiskosninga tóku þátt en Ágúst Ólafur Ágústsson hagfræðingur var kynnir og stýrði umræðum. Líflegar umræður sköpuðust með þátttöku áhugasamra gesta.
Anna Hildur Hildbrandsdóttir stjórnarformaður Rannsóknarseturs skapandi greina opnaði samtalið og Bragi Valdimar Skúlason, stjórnarmaður í Samtökum skapandi greina flutti lokaorð og dró saman helstu niðurstöður fundarins.
Fjallað var um fundin víða í fjölmiðlum enda fóru sumir fundarmenn á kostum. Í kjölfar hans hafa verið heilmiklar umræður í samfélaginu um stöðu og tækifærin sem felast í menningu og skapandi greinum og mikilvægi þess að ný ríkisstjórn tryggi stöðu þeirra í þágu samfélags og atvinnuþróunar.
Að fundinum stóðu Rannsóknarsetur í skapandi greinum, Samtök Skapandi greina, Miðstöð íslenskra bókmennta, Miðstöð hönnunar og arkitektúrs, Myndlistamiðstöð, Kvikmyndamiðstöð, Sviðslistamiðstöð, Tónlistarmiðstöð í samstarfi við CCP, Brandenburg, Vísindagarða og Grósku.
Að sigra heiminn
Þátttöku hönnuða, arkitekta, einstaklinga eða fyrirtækja í erlendu samstarfi og markaðssókn er í stöðugri sókn og á árinu 2024 má nefna þessi verkefni;
3daysofdesign;
Fjölmennt og góðmennt var í íslenska sendiráðinu í Kaupmannahöfn þegar sýningarnar Pítsastund, sem var valið verk ársins á Hönnunarverðlaunum Íslands 2023, Hæ/Hi, samstarfsverkefni hönnuða og hönnunarteyma frá Íslandi og Seattle, Snúningur samstarfsverkefni Studió Fléttu og Icelandair frá HönnunarMars 2024 opnuðu en þær voru hluti af dönsku hönnunarhátíðinni 3daysofdesign sem fór fram í júní. Einnig kynnti íslenska fyrirtækið Fólk Reykjavík nýjar vörur á hátíðinni, í eigin sýningarrými í miðborg Kaupmannahafnar.
Málþing um hlutverk hönnunar á tímum náttúruvár;
Málþingið var haldið í september í Scandinavian House í New York þar sem spurningunni: Getum við hannað samband okkar við náttúruna? var velt upp. Málþingið var haldið í samstarfi við Bláa lónið og Parsons School of Design og í tengslum við Taste of Iceland hátíðina þar sem Íslandsstofa heldur utan um.
Hæ/Hi: Welcome;
Einar Þorsteinsson, borgarstjóri opnaði sýninguna Hæ/Hi: Welcome í Seattle sem fór fram í tengslum við Taste of Iceland hátíðina þar í borg í október. Reykjavík og Seattle eru systurborgir og því við hæfi að borgarstjóri opnaði sýninguna sem snýst um vináttu. Hæ/Hi: Welcome er þriðja sýning hópsins en hún var fyrst sýnd á HönnunarMars 2024.
Þetta er einungis brot af því sem var um að vera á árinu 2024 og við hvetjum alla til að kynna sér fjölbreytilegar fréttir hér á heimasíðunni.
Stjórn og starfsfólk Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs óskar öllum gleðilegs árs og farsældar á komandi ári!