Horfðu á DesignTalks 2024
Lykilviðburður HönnunarMars, alþjóðlega ráðstefnan DesignTalks, fór fram í Hörpu 24. apríl síðastliðinn. Dagskrá dagsins var fjölbreytt þar sem sirkusandinn sveif yfir og var fjallað um áskoranir samtímans af framúrskarandi fyrirlesurum, sem komu víðsvegar að og notuðu þekkingu sína til að leita lausna.
Fjallað var um hönnun sem stuðlar að jafnrétti og virðingu, hönnun sem snýst um fegurð og framþróun, hönnun sem brýtur niður staðalmyndir og spornar gegn fordómum, hönnun sem leitar tækifæra í efnisnotkun og vönduðum rýmum sem ramma inn gott samfélag. Í fyrirlestrunum birtist fegurð og myndræn frásagnarlist, framúrskarandi verk sem veita innblástur til góðra verka, skapandi hugsunar og nýrrar nálgunar sem valdeflir ofurkraftinn sem felst í sjálfri sköpunargáfunni.
Ráðstefnunni var streymt beint í samstarfi við Dezeen og Íslandsstofu og hér er hægt að horfa daginn í heild sinni.
I Tölum um virðingu og vandvirkni
Um að hanna fyrir virðingu, réttlæti og endurtengingu við jörðina undir fótum okkar
Arkitektinn Alan Ricks er einn af stofnendum og framkvæmdastjórum MASS Design Group, sem telur að arkitektúr hafi mikilvægu hlutverki að gegna við að styðja samfélög til að horfast í augu við söguna og búa til nýja, vera heilandi afl og varpa fram framtíðarrmöguleikum. Alan leggur sjálfur áherslu á að rannsaka, byggja og tala fyrir arkitektúr sem stuðlar að réttlæti og virðingu. Rán Flygenring, einbeitir sér að ritstörfum, myndskreytingum og frásagnarlist. Hún fékk nýlega barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2023.
II Tölum um fegurð og framþróun
Um hönnun sem sér við öfgum og skorti, byggir menningarlegar brýr og hvetur til betrunar
Ervin Latimer, prent- og fatahönnuður, stofnandi vörumerksins Latimmier heldur einnig fyrirlestra um kynþáttafordóma, hinsegin menningu og tísku.Hönnunarstúdíóið Flétta vinnur að fjölbreyttum verkefnum þar sem endurnýting hráefna og staðbundin framleiðsla spila lykilhlutverk. Á yfirborðinu einkennast verk þeirra af leikgleði og léttleika en undir niðri krauma gagnrýnar spurningar. Listræni stjórnandinn Lisa Lapauw og ljósmyndarinn Mous Lambrat skapa verk sem ögra staðalímyndum og fordómum. Listræn nálgun sem sameinar tísku og hönnun með virðingu fyrir og innblástur í arfleifð og minningar. „Sannkallað heilasnakk”.
III Tölum um tilfinningar og töfraheima / IV Tölum um að taka sig ekki of alvarlega
III Um að hanna hreyfingu, breytingu og aðrar víddir
Sigríður Soffía Níelsdóttir, kóreógraf, rithöfundur og leikskáld kannar hreyfingu í allri sinni mynd og fjölbreyttum miðlum. Nú hannar hún með flugelda og flóru. Robert Thiemann, innanhússarkitektinn, fyrrum stofnandi og ritstjóri FRAME tímaritsins og stofnandi hönnunarráðgjafastofunnar BETTERNESS, hefur ástríðu fyrir hinu byggða umhverfi og hvernig hægt sé að bæta það þannig að fólk blómstri en af virðingu fyrir náttúrunni. Rithöfundurinn og sjálfbærnileiðtoginn Hrund Gunnsteinsdóttir höfundur og leiðtogi í sjálfbærni, er talsmanneskja innsæisins og telur að stærsta vonin um bjartari tíma liggi í því að tengja aftur innan frá við aðrar lífverur og náttúruna.“ James Merry er frægur fyrir útsaum og hönnun einstakra andlitsgríma. Hann hefur átt í löngu samstarfi við söngkonuna Björk og haft verulega áhrif á myndheim hennar. Innsýn í verk hans er ferðalag sem grípur hugann og leiðir áhorfandann yfir í hið yfirskilvitlega.
IV Um hönnun sem snertir við okkur og býr til nýja þekkingu
Lonny van Ryswyck, helmingur hönnunartvíeykisins Atelier NL fókuserar á möguleika hönnunar í að tengja samfélög við verðmæti í nærumhverfi sínu. Þannig upphefja þær náið samband fólks við efnivið jarðar. Dagksránni lýkur svo með Harry Parr frá Bompas & Parr, hönnunarstofu sem er leiðandi á sviði upplifunarhönnunar, sérsaklega fjölskynjunarupplifunum, enda kalla þeir sig „Architects of taste; feeding minds and stomachs”. Stofan var stofnuð af Harry Parr og Sam Bompas, sem eru stundum kallaðir „töframennirnir” í London og halda stöðugt áfram að koma á óvart og þenja ímyndunaraflið. Heillandi birtingamyndir sköpunargleðinnar sem hreyfa við öllum skynfærum.
DesignTalks hefur fest sig í sessi sem mikilvægur vettvangur innblásturs og samtals um hönnun og arkitektúr, samtímarýni og framtíðarsýn, innsýn, áskoranir og tækifæri hönnuða, arkitekta og skapandi leiðtoga.
Ráðstefnan hefur verið lykilviðburður HönnunarMars frá árinu 2009 og er einn sá stærsti á sínu sviði hér á landi þar sem skapandi fólk víðs vegar að kemur saman og veitir hvort öðru innblástur.
Stjórnandi DesignTalks er Hlín Helga Guðlaugsdóttir og framleiðandi er Þura Stína Kristleifsdóttir.