Leir-andi, yfirlitssýning Ólafar Erlu Bjarnadóttur
Leir-andi, yfirlitssýning á verkum Ólafar Erlu Bjarnadóttur hefur opnað á Hlöðulofti SÍM á Korpúlfsstöðum. Sýningin er yfirgripsmikil og spannar 40 ára starfsferil listakonunnar. Sýningarstjóri er Brynhildur Pálsdóttir og stendur hún opin til 23. maí.
,,Það mikilvægasta í gerð einstakra nytjahluta er hin daglega notkun og það að hver og einn geti handleikið og upplifað hlutina sem listaverk um leið og þeir eru notaðir.”
Ólöf Erla Bjarnadóttir
Ferill Ólafar Erlu hófst í byrjun níunda áratugarins en þá hafði hún lokið námi í keramiki við Myndlista- og handíðaskóla Íslands. Ferill hennar er mjög fjölbreyttur og lifandi og einkennist af leit og rannsóknum á möguleikum efnisins og mörkum þess. Hún hefur verið í samstarfi við hönnuði og myndlistarmenn þar sem leir kemur við sögu. Í samstarfi við vísindamenn og hönnuði hefur hún einnig stundað rannsóknir á íslenskum leir og jarðefnum og möguleikum þeirra til listsköpunar og framleiðslu.
Ólöf Erla vinnur jöfnum höndum í postulín, steinleir og jarðleir. Efniskenndin er sterk og í verkum hennar er mikil áhersla á vandað handverk. Leirinn sem mótunarefni, hefur alltaf heillað og veitt henni stöðugan innblástur með sína fjölbreyttu möguleika og náttúrulega litróf. Þau áhrif birtast bæði í myndlistarverkum og nytjahlutum.
Ólöf Erla hefur sett fingrafar sitt á sögu leirlistar á Íslandi síðastliðin 40 ár bæði með sinni eigin listsköpun og miðlun þekkingar á keramiki í gegnum kennslu og stýringu náms í keramikdeildum Myndlista- og handíðaskóla Íslands, Listaháskóla Íslands og Myndlistaskólans í Reykjavík, frá árunum 1997 - 2017. Hún hefur verið leiðandi í mótun keramiknáms á Íslandi ásamt samkennurum og verið í miklu samstarfi við erlenda keramikera og skóla víðsvegar um Evrópu.
En það sem ýtti endanlega af stað ákvörðuninni um að halda yfirlitssýningu var að foreldrar Ólafar, Rósa Guðmundsdóttir og Bjarni Bragi Jónsson, höfðu safnað verkum eftir hana frá fyrstu einkasýningu hennar sem haldin var árið 1990 í Reykjavík. Þegar þau svo létust nýlega með stuttu millibili, höfðu þau eftirlátið listakonunni öll verkin og eru þessi verk meginuppistaðan í sýningunni ásamt verkum í opinberri eigu.
Á sýningunni Leir-andi gefur að líta auk þessa safns, nytjahluti, skúlptúra, vatnslitamyndir, ljósmyndir auk samstarfsverkefna og rannsókna en einnig verk sem unnin voru sérstaklega fyrir sýninguna. Sýningarstjóri er hönnuðurinn Brynhildur Pálsdóttir. Verkefnastjóri er Sigurlína Osuala.
Samhliða sýningunni er gefin út bók um feril listakonunnar en hana prýða fjölmargar ljósmyndir af verkum Ólafar Erlu og gefur bókin góða innsýn í tíðaranda, þróun og tækni sem er áhugavert fyrir lesandann að rýna í. Hönnun bókarinnar endurspeglar lifandi feril Ólafar Erlu, hún er handhæg og aðgengileg, textinn er bæði á íslensku og ensku.
Opnunartími sýningar 14-18 alla daga vikunnar