Hæ/Hi opnar í Seattle
Margt var um manninn þegar Einar Þorsteinsson, borgarstjóri opnaði sýninguna Hæ/Hi: Designing Friendship í Seattle sem fór fram í tengslum við Taste of Iceland hátíðina þar í borg. Reykjavík og Seattle eru systurborgir og því við hæfi að borgarstjóri opnaði sýninguna sem snýst um vináttu.
Um er að ræða þriðja landið sem sýningin opnar í árinu, en hún var fyrst sett upp á HönnunarMars í vor og svo á 3daysofdesign í Kaupmannahöfn í kjölfarið. Sýningin var sett upp í Railspur Gallery í Seattle og lauk með viðburði þar sem hönnuðirnir Emil Ásgrímsson og Gabriel Stromberg spjölluðu saman m.a um hönnunarsenur borganna tveggja en þar var blaðamaðurinn Rachel Gallaher sem stýrði samtalinu.
Hæ/Hi: Designing Friendship er samvinnuverkefni hönnuða og hönnunarteyma frá Íslandi og Seattle sem sýnir saman þriðja árið í röð og tekur í ár fyrir þá hluti og þær athafnir sem tengjast heimkomu og brottför, móttöku og kveðjustund, á sýningunni, Hæ/Hi: Vol III | Welcome.
Þátttakendur voru spurðir hvernig hægt væri að bæta upplifunina við að koma inn á eða fara út af heimili þannig að það vekti með heimilisfólki og gestum notalegheit og ró og væri gert með vináttu og gestrisni að leiðarljósi.
"Every beginning is cheerful: the threshold is the place of expectation." - Goethe
Fátt við hönnun byggingar er jafn mikilvægt og þykir á sama tíma jafn sjálfsagt og inngangur hennar. Inngangurinn er hliðið sem aðskilur það sem er inni frá því sem er úti. Við nánari athugun má þó sjá að inngangurinn er ekki einungis hlið, heldur brú sem umbreytir einu svæði í annað. Millirými sem er hvorki inni né úti en inniheldur samt þætti frá hvorum heimi um sig.
Á sýningunni eru verk eftir Amanda Ringstad (US), Fin (US), fruitsuper (US), Gabriel Stromberg (US), Hann Elias (US), Studio Hanna Dis Whitehead (IS), Hugdetta (IS), John Hogan (US), Jón Helgi Hólmgeirsson (IS), Seisei Studio (IS), Sidona Bradley (US), Theodora Alfredsdottir (IS), Thorunn Arnadottir (IS), Weird Pickle (IS) og Seisei Studio (IS).