Genki Instruments stofnar þverfaglegu hönnunarstofuna, Genki Studios

Skapandi tæknifyrirtækið Genki Instruments, sem nýverið vann Hönnunarverðlaun Íslands 2019 fyrir hringinn Wave hefur stofnað þverfaglegu hönnunarstofuna, Genki Studios. 

Þorleifur Gunnar Gíslason er nýr hönnunarstjóri hjá Genki og mun leiða nýja þverfaglega hönnunarstofu undir nafninu Genki Studios ásamt Jóni Helga Hólmgeirssyni, sem hefur verið yfirhönnuður hjá Genki frá upphafi. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Genki.

Þorleifur hefur unnið með Genki sem ráðgjafi og hönnuður í hlutastarfi síðustu þrjú ár en hann útskrifaðist sem grafískur hönnuður frá Listaháskóla Íslands árið 2012, en meðfram námi hóf hann störf hjá Jónsson & Le’macks, sem nú heitir Aton.JL. Meðal fyrirtækja sem Þorleifur hefur unnið fyrir eru Adobe, 66°NORÐUR, Landsvirkjun, Þjóðminjasafnið, Norðursalt, RIFF og Gamma. Þorleifur er margverðlaunaður fyrir verk sín, meðal annars hefur hann hlotið fjölda FÍT verðlauna, ÍMARK lúðra, Hönnunarverðlaun Íslands 2019, tvenn Red Dot verðlaun, One Show verðlaun og tilnefningar til D&AD, ADC*E og Cannes verðlauna. Þá hafa verk Þorleifs birst í fjölda fagtímarita og hönnunarbóka um allan heim og einnig á samsýningum bæði hér heima og erlendis.

Jafnframt hefur Þorleifur gegnt stjórnarsetu í Félagi Íslenskra Teiknara um árabil og situr einnig í ritstjórn HA tímaritsins, sem er fagtímarit um hönnun og arkitektúr sem gefið er út af Hönnunarmiðstöð Íslands. Undanfarin þrjú ár hefur Þorleifur einnig sinnt stundakennslu hluta úr ári í grafískri hönnun við Listaháskóla Íslands.

Hönnuðirnir Þorleifur Gunnar Gíslason og Jón Helgi Hólmgeirsson.

Ráðning Þorleifs er liður í að styrkja Genki ennfremur sem hönnunardrifið fyrirtæki og fylgja eftir þeim góða árangri sem við höfum náð á undanförnum árum. Nú, þegar Genki Instruments voru veitt Hönnunarverðlaun Íslands 2019, fundum við að þetta væri rétti tímapunkturinn til að opna okkur enn frekar útávið með hönnunarstofu sem tekur að sér fjölbreytt verkefni samhliða þverfaglegri vöruþróun Genki.Honum stóðu til boða störf sem listrænn stjórnandi á flottum stofum í New York og Moskvu en valdi frekar að byggja upp Genki Studios með okkur. Fyrsta vara Genki Studios er nú þegar komin í verslanir, en það er dagatal fyrir árið 2020 og fæst í Epal, Akkúrat, Heima Market, Hönnunarsafni Íslands, NLSN, Geysi Heima og á síðu Genki Studio hér.

Saman mynda þeir Jón Helgi frábært þverfaglegt teymi sem getur tekið að sér fjölbreytta flóru verkefna, hvort sem það er vöruhönnun, umbúðahönnun, mörkun fyrirtækja, hönnun ferla eða innanhússhönnun, svo dæmi séu tekin. Við bjóðum hann velkominn til starfa.” segir Ólafur Bjarki Bogason, framkvæmdastjóri Genki Instruments.

Höfundur
Álfrún Pálsdóttir

Tögg

  • Grafísk hönnun