Gleðilega hátíð - HönnunarMars í maí hefst í dag
Í dag hefst HönnunarMars þrettánda árið í röð og í þetta sinn í maí. Sýningarstaðir HönnunarMars teygja sig vítt og breitt um höfuðborgarsvæðið, allt frá Hafnartorgi og miðbæ, Granda, Vatnsmýri, Laugaveg, Hverfisgötu, Skeifu, Elliðaárstöð, Kópavog og Garðabæ.
Óformleg opnun HönnunarMars verður á Hafnartorgi milli 18-19 í dag en annars eru opnanir og fjör á öllum sýningum HönnunarMars í dag.
Framtíðin, tækni, sjálfbærni, náttúra, arfleifð og nýsköpun er þátttakendum hugleikin viðfangsefni á hátíðinni í ár sem veitir innblástur inn í nýja tíma. Kynntu þér fjölbreytta dagskrá HönnunarMars í maí sem endurspeglar einstaka grósku íslensks hönnunarsamfélags á þessum umbrotatímum.
Opinberar dagsetningar hátíðarinnar eru 19. - 23. maí en hátíðin breiðir úr sér yfir mánuðinn. Engir stórir og mannmargir viðburðir eru á hátíðinni í ár vegna Covid. Allar sýningar og sýningarstaðir HönnunarMars fylgja gildandi sóttvarnarreglum er varða samkomutakmarkanir og grímuskyldu.
Sjáumst á HönnunarMars í maí!