Hættum að tala um verð á fermetra og förum að tala um gæði
,,Neytendavitund skortir á Íslandi þegar kemur að húsnæði.” Þetta er meðal þess sem kom fram á málþinginu, 35.000 íbúðir á 10 árum: Hvernig er best að gera þetta?, sem haldið var á nýliðnum HönnunarMars. Hætta verður að tala um verð á fermetra þegar talað er um húsnæði og tala frekar um gæði húsnæðisins; birtuskilyrði, rýmisnotkun, flæði, efnisnotkun og vandað handverk. Á sama tíma þarf að rýna vel þau hverfi sem þegar hafa risið til að læra betur af því sem vel er gert og öðru sem miður hefur farið.
Það var þétt setinn salur sem hlýddi á erindi og pallborðsumræður síðastliðinn föstudag 5. maí þegar málstofan fór fram í Grósku í Vatnsmýri. Málstofan var haldin af Arkitektafélagi Íslands í samstarfi við Grænni byggð og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og var hluti af dagskrá HönnunarMars í ár.
Tilefni málstofunnar var ný húsnæðisáætlun ríkis og sveitarfélaga að tryggja byggingu 35.000 nýrra íbúða á landinu á næstu 10 árum. Hvernig á að nýta tækifærið til að gera sem allra best og skapa íbúðir og hverfi þar sem fólk og umhverfi er sett í fyrsta sæti.
Það er ljóst að mikill áhugi er á málaflokknum og kom það skýrt fram í pallborðsumræðum að miklu meira samtal þyrfti að eiga sér stað milli allra aðila, hvort sem það er á milli verktaka, arkitekta, hins opinbera eða íbúanna sjálfra. Í umræðunni kom fram að Ísland hefur dregist aftur úr samanborið við Norðurlöndin þegar kemur að gæðum, umhverfismálum og samfélagslegum þáttum í okkar byggða umhverfi. Byrja þarf á að skilgreina og leggja sameiginlegan skilning í orðin sem notuð eru eins og gæði og hagkvæmni og sammælast um hvernig þau eru notuð.
Í bæði erindum og í pallborði kom fram að það er margt sem vel er gert en einmitt nú er tækifæri til að gera enn betur. Á málstofunni kom fram að Ísland getur jafnvel orðið í fararabroddi í umhverfisvænum byggingum. Það væri hægt með því að nýta miklu betur það sem fyrir er og vinna markvisst að rannsóknum og þróun nýrra byggingarefna hér á landi.
Erindi fluttu Anna María Bogadóttir, arkitekt og rithöfundur, Arnhildur Pálmadóttir, arkitekt, og Friðgeir Einarsson, rithöfundur. Inngangur að málstofunni var í höndum Kristján Arnars Kjartanssonar, arkitekts.
Í pallborði sátu Andri Snær Magnason, rithöfundur; Arnhildur Pálmadóttir, arkitekt; Ásdís Hlökk Theodórsdóttir, skipulagsfræðingur; Borghildur Sturludóttir, arkitekt ; Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur; Gylfi Gíslason, framkvæmdastjóri Jáverk; Hermann Jónsson, forstjóri Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS); Jóhannes Þórðarson, arkitektSigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins (SI); Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra; Þráinn Hauksson, landslagsarkitekt
Fundarstjórn var í höndum Brynju Þorgeirsdóttur