Hátíðarkveðjur frá Arkitektafélagi Íslands
Árið 2021 hefur verið viðburðaríkt og skemmtilegt. Skrifstofa AÍ er loksins komin í húsnæði með langtíma leigusamning sem býður upp á nýja möguleika í viðburðarhaldi og félagsstörfum.
Skrifstofa Arkitektafélags Íslands fluttist í Grósku-hugmyndahús í Vatnsmýri, í janúar á þessu ári. Það er kærkomið að vera loksins komin í húsnæði þar sem hægt er að skipuleggja viðburði og fundi með félagsmönnum. Eins og fyrr deilir Arkitektafélag Íslands húsnæði með Miðstöð hönnunar og arkitektúrs, sem eins og flestir vita er í eigu Arkitektafélags Íslands, Félags húsgagna og innanhússarkitekta, Félags íslenskra landslagsarkitekta, Félags vöru- og iðnhönnuða, Leirlistafélags Íslands, Fatahönnunarfélags Íslands, Textílfélagsins, Félags íslenskra gullsmiða og Félags íslenskra teiknara og er nú með rekstrar- og þjónustusamning við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og mennta- og menningarmálaráðuneytið.
Ný stjórn
Ný stjórn var kosin á aðalfundi félagsins 24. febrúar. Úr stjórn fóru þeir Karl Kvaran, formaður stjórnar og Böðvar Páll Jónsson, gjaldkeri og Sigríður Maack, sem áður hafði gegnt stöðu ritara, var kosin formaður stjórnar. Auk Sigríðar voru kosnar Helga Guðrún Vilmundardóttir sem gjaldkeri stjórnar og Jóhanna Höeg sem ritari stjórnar. Karli Kvaran og Böðvari Páli eru þökkuð góð störf fyrir félagið. Á aðalfundi fékk nýkjörin stjórn áskorun um að einbeita sér að gæðum í manngerðu umhverfi sem stjórn tók fagnandi. Í kjölfarið setti stjórn niður stefnu fyrir starfsárið þar sem Gæði í manngerði umhverfi er í brennidepli. Stjórn fundaði strax með öllum nefndum félagsins þar sem stefna stjórnar var kynnt, ritaði greinar í fjölmiðla og fundaði með opinberum aðilum og aðilum í einkageiranum um efnið.
Heiðurfélagi Arkitektafélags Íslands
Pétur H. Ármansson var kosinn heiðursfélagi Arkitektafélags Íslands á aðalfundi félagsins. Viðurkenninguna hlaut hann fyrir fræðistörf sín um íslenska byggingarlistasögu á miðlun hennar til almennings. Pétur hefur unnið sem arkitekt og sjálfstætt starfandi fræðimaður ásamt því að hafa byggt upp og stýrt Byggingarlistadeild Listasafns Reykjavíkur um árabil. Pétur hefur ritað fjölda bóka og greina og fengist við kennslu um íslenska byggingarlist. Á síðasta ári tók Pétur saman yfirlitsbók um verk Guðjóns Samúelssonar húsameistara ríkisins en bókin var m.a. tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Íslands. Í ár var Pétur sæmdur, af forseta Íslands, heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu.
Pétur hefur í gegnum árin tekið að sér ólík störf fyrir Arkitektafélagið en hann var ritari stjórnar AÍ árið 1991-1992, fulltrúi Arkitektafélags Íslands í Húsafriðunarnefnd ríkisins 2000–2009 og setið sem dómnefndarfulltrúi í arkitektasamkeppnum sem fulltrúi félagsins.
Kveðja frá félagsmönnum Arkitektafélags Íslands til Péturs H. Ármannssonar
Samkeppnismál innan AÍ
Eins og á síðasta ári var unnið að bættum samkeppnismálum hjá AÍ og þann 3. maí var haldinn sérstakur félagsfundur þar sem einblínt var á samkeppnir. Samkeppnisnefnd og stjórn hafa á þessu ári unnið ötullega að því að uppfæra samkeppnisgögnin okkar. Þær breytingar verða kynntar á aðalfundi á nýju ári. Í samkeppnisnefnd AÍ sitja Gunnar Örn Sigurðsson, Laufey Agnarsdóttir og Falk Krüger.
Samkeppnir og valferli
Alls voru 4 samkeppnir og eitt valferli haldið á árinu. Valferli var haldið í fyrsta sinn nú á vormánuðum en fyrirmyndina af því er sótt til Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs sem sækir sína fyrirmynd erlendis frá. Mun fleiri samkeppnir voru þó í undirbúningi og verða þær auglýsingar á nýju ári.
Samkeppnir:
- Leikskóli í Urriðaholti. Framkvæmdasamkeppni í samstarfi við Garðabæ. Sex deilda leikskóli við Holtsveg í Urriðaholti.
Sjá frekar - Viðbygging og endurbætur á Ráðhúsi Akureyrarbæjar. Forvalskeppni í samstarfi við umhverfis-og mannvirkjasvið Akureyrarbæjar.
Sjá frekar - Skipulag í Gufunesi-Ný byggð við sjávarsíðuna. Hugmyndaleit með forvali um skipulag í Gufunesi í samstarfi við Spildu.
Sjá frekar - Þverun, uppbygging og tengingar um Reykjanesbraut og svæðiskjarna í SmáraKópavogur-Reykjanesbraut. Hugmyndasamkeppni í samstarfi við Kópavogsbæ.
Sjá frekar
Valferli
- Óskað eftir arkitektum - Tvær nýjar byggingar á vegum Félagsbústaða. Félagsbústaðir í samstarfi við Arkitektafélag Íslands auglýsti eftir arkitektum til að hanna tvær nýjar byggingar.
Sjá frekar
HönnunarMars
Eins og síðastliðin ár tók Arkitektafélag Íslands þátt í HönnunarMars. Í ár héldum við í samstarfi við FÍLA og FHI málþingið, Er hægt að hanna heilsu? Manngert umhverfi og lífsgæði. Málþingið var vel heppnað og áhugavert en mikill fjöldi horfði á það á visi.is þar sem því var streymt.
Fyrirlesarar og frekari upplýsingar
Kjarasamningar
Kjarasamniningur milli AÍ og SAMARK var uppfærður í ár. Í kjaranefnd AÍ sitja Hlín Finnsdóttir og Sigríður Maack
Uppfærðan samning má nálgast hér.
Minningarsjóður Guðjóns Samúelssonar
Úthlutað var úr Minningarsjóði Guðjóns Samúelssonar í september. En það var þá í fyrsta sinn í 3 ár sem úthlutað hefur verið sjóðnum. Alls bárust 13 umsóknir í sjóðinn en að lokum valdi stjórn sjóðsins verkefnið: Húsnæðiskostur og hýbýlaauður sem styrkþega í ár. Verkefnið hlaut samtals 1.500.000 kr í styrk. Í stjórn sjóðsins sitja: Sigríður Maack, formaður, Sigríður Magnúsdóttir, Sigríður Ólafsdóttir, Garðar Snæbjörnsson og Erling Jóhannesson (fulltrúi BÍL).
Kynningarfundir og þriðjudagsfyrirlestrar
Þó nokkrir kynningarfundir voru haldnir fyrir félagsmenn AÍ á árinu en meðal annars voru kynningarfundur um nýjan kjarasamning, höfundarétt arkitekta, Ask mannvirkjarannsóknarsjóð og Græn hús hjá Reykjavíkurborg.
Frá september skipulagði dagskrárnefnd AÍ fyrirlestur sem haldinn var fyrsta þriðjudag hvers mánaðar. Í dagskrárnefnd AÍ sitja: Hildur Ýr Ottósdóttir, Hlynur Axelsson og Sigursteinn Sigurðsson. Fyrirlestrarnir sem haldnir voru í haust voru:
- Opin fyrirlestur um verndun og þróun iðnaðarsvæða í Kaupmannahöfn og Osló. Fyrirlesari: Vignir Freyr Helgason, arkitekt.
- Húsnæðiskostuur og hýbílaauður-Samtal. Mælendur: Anna María Bogadóttir, arkitekt og menningarfræðingur; Hildur Gunnarsdóttir, arkitekt; Ásgeir Brynjar Torfason, viðskiptafræðingur; Hrefna Björk Þorsteinsdóttir, arkitekt; Hólmfríður Jónsdóttir, arkitekt og Snæfríð Þorsteins, hönnuður. Verkefnið Húsnæðiskostur og hýbílauður fékk styrk úr Minningarsjóði Guðjóns Samúelssonar í ár.
- Notkun timburs í arkitektúr með áherslu á íslenskt efni. Fyrirlesarar: Hlynur Gauti Sigurðsson, landslagsarkitekt og borgarskógræðingur og Sigurður Einarssonar, arkitekt.
- Steypa í arkitektúr. Fyrirlesarar: Steve Christer FAÍ og Ólafur H. Wallevik dr. í byggingarverkfræði
Skrifstofa Arkitektafélags Íslands er lokuð frá 22. desember til og með 3. janúar.
Við óskum ykkur öllum gleðilegrar hátíðar og hlökkum til nýs árs með ykkur!