Hefur þú skoðun á byggingarreglugerðinni? Hvað er það sem þú vilt bæta? Breyta? Láta standa óbreytt?
Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, skipaði stýrihóp um breytingar á byggingarreglugerð fyrr í sumar. Stýrihópnum er ætlað að vinna tillögur um gagngerar breytingar á regluverkinu og einfalda umgjörð um byggingariðnað í því skyni að lækka byggingarkostnað og leggja grunn að stöðugleika á húsnæðismarkaði. Til þess að vinna við breytingar á byggingarreglugerð skili sem mestum og bestum árangri er mikilvægt að öll þau sem vinna með reglugerðina dagsdaglega geti komið athugasemdum sínum á framfæri til baklandsins.
Stýrihópnum er ætlað að skila tillögum að úrbótum til ráðherra haustið 2024. Undir stýrihópnum eru ellefu vinnuhópar sem í sitja fjölbreyttur hópur sérfræðinga en lögð er áhersla á að tillögur vinnuhópanna leiði til framfaraskrefa í bygginga- og mannvirkjagerð til framtíðar. Aðalmarkmið vinnunnar er að einfalda stjórnsýslu, auka gæði og neytendavernd og stuðla að aukinni nýsköpun og sjálfbærni. Í vinnunni verða hafðar til hliðsjónar tillögur OECD til úrbóta á lögum og reglum í byggingariðnaði, þ.m.t. að auka sjálfbærni, stafræna stjórnsýslu og gæði.
Vinnuhóparnir eru eftirfarandi. Sumir eru farnir af stað í sinnu vinnu en aðrir hafa ekki hafið störf.
- Hönnunareftirlit
- Framkvæmda- og notkunareftirlit,
- Lífferilsgreiningar (LCA)
- Orkusparnaður og rekstur
- Stafræn þróun
- Hollusta og umhverfi
- Brunavarnir og öryggi í notkun
- Aðkoma, umferðarleiðir og innri rými
- Burðarþol og stöðugleiki
- Hringrásarhagkerfið og byggingarvörur
- Tryggingar
Í ofangreindum vinnuhópum sitja fagaðilar sem vinna daglega með reglugerðina, þeirra á meðal eru arkitektar, landslagsarkitektar, innanhúsarkitektar og byggingarfræðingar.
Arkitektafélag Íslands og SAMARK, hafa myndað hóp, bakland, með þeim hönnuðum og byggingarfræðingum sem sitja í vinnuhópunum til að styrkja vinnu þeirra og skapa umræðu um mál sem annaðhvort koma upp á fundum eða ef þeir vilja annarra álit. Baklandið mun funda reglulega til að taka stöðuna og ræða framvindu verkefnisins. Til þess að vinna við breytingar á byggingarreglugerð skili sem mestum og bestum árangri er mikilvægt að öll þau sem vinna með reglugerðina dagsdaglega geti komið athugasemdum sínum á framfæri til baklandsins. Sendið ykkar tillögur að úrbótum og athugasemdum á netfangið ai@ai.is með ykkar athugasemdum.
Fyrirfram þakkir,
Gerður Jónsdóttir, frkv.stj. AÍ
Halldór Eiríksson, formaður SAMARK