Uppruni — Helga Mogensen
Viðurinn ræður ferðinni
Sjávarstraumar reka viðarbút á fjörur norður á Ströndum þar sem skartgripahönnuðurinn Helga Mogensen gengur um í leit að hráefni í verk sín.
Helga hefur vanið komur sínar norður á Strandir frá því í æsku en þar komst hún fyrst í kynni við rekaviðinn sem hefur fylgt henni allar götur síðan. „Ég byrjaði að nota rekaviðinn þegar ég var í B.A.-námi í skartgripa- og silfursmíði við Edinburgh College of Art. Þá var ég alltaf með einn eða tvo rekaviðarbúta hjá mér. Mig langaði að finna þeim tilgang en ég vissi ekki hvar eða hvernig,“ segir Helga og bætir við að það hafi ekki gerst fyrr en hún vann útskriftarverkefni sitt en upp frá því hefur hún teflt rekaviði saman við ólík efni svo sem silfur, stál og roð.
Rekaviður er staðbundið hráefni sem hefur ferðast sjóleiðis frá fjarlægum heimshlutum og rekið á land með sjávarstraumum. Helga segir heillandi að vita ekki sögu hráefnisins, hvaðan tréð komi, hversu stórt það hafi verið eða hve gamalt: „Þannig er ákveðinn leyndardómur tengdur sögu hvers og eins.“ Reynslan hefur sýnt henni að best sé að tína viðarbútana um leið og þá reki á land því þeir séu fljótir að fúna fái þeir að liggja of lengi í fjörunni – og fúi gerir alla vinnslu erfiðari.
Helga bendir á að erfitt sé að gera sér grein fyrir því hvað sé að gerast inni í viðnum við fyrstu kynni því bútarnir séu allir áþekkir í útliti, ýmist hvítir eða gráir: „Þegar smíðin hefst er hið óvænta aldrei langt undan því viðurinn er svo óútreiknanlegur en það er jafnframt sá eiginleiki hans sem ég tengi hvað best við.“ Hún heldur áfram: „Mér hefur reynst best að fylgja flæði þess efniviðar sem ég er með fyrir framan mig hverju sinni. Með náttúruna í fanginu er í raun ekki annað hægt en að fyllast af hugmyndum og andagift.“