HLUTVERK - opið kall í sýningu Félags vöru- og iðnhönnuða á HönnunarMars í maí
Félag vöru- og iðnhönnuða kallar eftir hugmyndum í sýningu félagsins í Ásmundarsal á HönnunarMars í maí. Hlutverk fjallar um hvernig finna má hlutum sem hafa eða eru að missa hlutverk sitt í hversdagsleikanum nýtt hlutverk. Framlengdur frestur til 18. apríl.
Þátttakendur skila inn skissu af hlut á tveimur A4 blöðum þar sem útliti, efnisvali og nýju hlutverki hlutarins er lýst í máli og myndum. Verkefnið má vinna sem einstaklingur eða teymi.
Sýningarnefnd á vegum Félags vöru- og iðnhönnuða mun velja átta til tíu hugmyndir og fá hönnuðir þeirra tækifæri til að þróa hugmynd sína af pappír yfir í frumgerð á fimm vikna tímabili í samtali við sýningastjórn.
Afraksturinn og leiðin að frumgerð hvers hlutar verður til sýnis á Hönnunarmars í Ásmundarsal í maí næstkomandi. Sýning verður haldin undir formerkjum verkefnisins Hlutverks þar sem allar innsendar tillögur verða sýndar ásamt þeim hugmyndum sem valdar voru til vinnslu áfram. Við lok sýningar verður blásið til uppboðs á frumgerðunum í húsakynnum Ásmundarsals, en allur ágóði rennur til hönnuða hugmyndanna.
Helstu dagsetningar Hlutverks:
- Opið kall stendur yfir frá 21. mars til 18. apríl.
- Hugmyndir tilkynntar 23. apríl.
- Hönnunarferli stendur yfir frá 23. apríl til 19. maí.
- Opnun sýningar verður 19. maí.
- Uppboð verður 29. maí
Vinsamlegast skilið inn hugmynd á PDF formi á netfangið voruhonnun@honnunarmidstod.is eða á pappírsformi í Ásmundarsal. Með umsókn skal fylgja nafn, símanúmer, netfang og texti um hugmynd að hámarki 100 orð. Innsendar tillögur eru kynntar nafnlausar fyrir valnefnd.
Með því að skila verkefninu inn gefur þú leyfi fyrir því að hugmynd þín prýði veggi Ásmundarsals í maí 2021. Sýningastjórar eru Íris Indriðadóttir og Signý Jónsdóttir.