Hönnuðir ÞYKJÓ verða staðarlistamenn í Kópavogi árið 2021

Lista- og menningarráð Kópavogs hefur nú lokið úthlutun úr lista- og menningarsjóði bæjarins en markmið hans er að stuðla að eflingu menningar- og listalífs í Kópavogi. Hæsta framlagið hljóta hönnunarverkefnið ÞYKJÓ og listamannarýmið Midpunkt, eða 4.000.000 kr. hvor, en tilkynnt var um úthlutanir við athöfn í Gerðarsafni fyrir helgi.
Hönnuðir ÞYKJÓ verða staðarlistamenn í Kópavogi árið 2021 og munu á þeim tíma vinna að þverfaglegu rannsóknar- og hönnunarstarfi fyrir börn og fjölskyldur þeirra í samvinnu við Gerðarsafn, Salinn, Náttúrufræðistofu Kópavogs og Bókasafn Kópavogs. ÞYKJÓ sérhæfir sig í búningum, innsetningum og listasmiðjum fyrir börn en innan vébanda hópsins eru barnamenningarhönnuður, textílhönnuður, búninga- og leikmyndahönnuður, arkitekt og klæðskerameistari eins og segir í tilkynningu á heimasíðu menningarhúsanna í Kópavogi.



„Hönnun ÞYKJÓ sprettur upp úr þverfaglegu samtali og hönnuðir í teyminu þrífast á því að grúska og gera tilraunir. Það er því mikill fengur fyrir okkur að komast í starfsumhverfi menningarstofnana í Kópavogi sem snýr einmitt að því að byggja brýr á milli ólíkra listgreina, fræða og vísinda. Fyrsta lína ÞYKJÓ, Ofurhetjurjarðar, er óður til töfra dýraríkisins annarsvegar og leikgleði, ímyndunarafls og sköpunarkrafts barna hinsvegar, sem ákall um að hvort tveggja þurfi að vernda og varðveita,“ segir Sigríður Sunna Reynisdóttir,leikmynda- og búningahönnuður í hönnunarverkefninu ÞYKJÓ í tilkynningu.