„Hönnun rennur eins og rauður þráður í gegnum stóru viðfangsefni samtímans“
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og Halla Helgadóttir framkvæmdastjóri Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs ræddu mikilvægi hönnunar í samfélaginu, nú og í náinni framtíð í hlaðvarpi HönnunarMars, DesignTalks talks, sem er fyrsta sinnar tegundar á Íslandi.
Hlín Helga Guðlaugsdóttir, hönnuður og stjórnandi DesignTalks sem hefur umsjón með hlaðvarpinu átti stórskemmtilegt samtal þar sem forsætisráðherra var hönnun og heilbrigði ofarlega í huga og var ekki í vafa um mikilvægi greinanna fyrir framtíðaruppbyggingu og framþróun.
„Mér finnst hönnun renna eins og rauður þráður í gegnum stóru viðfangsefni samtímans og inn í framtíðina: loftslagsmál, lýðheilsu og tæknibreytingar,“ sagði Katrín en þátturinn var tekinn upp í Grósku í aðdraganda HönnunarMars í maí, stærstu hönnunarhátíðar landsins og tilefni til að beina kastljósinu að mikilvægi hönnunar í samfélaginu, nú og í náinni framtíð.
Það er ekki hægt að ræða framtíðina án þess að ræða breytingar og í því samhengi telur Katrín það skipti miklu máli að efla samtal vísinda, nýsköpunar og skapandi greina.
Ég hef dálítið horft á þetta sem þríhyrning, að þessir þrír stólpar eigi að tala meira saman, þó að hver og einn njóti sinnar sérstöðu, (...) með þessa þrjá stólpa saman þá færðu rosalegan samfélagslegan kraft til þess að drífa áfram breytingar - og hugsa kannski aðeins öðruvísi um þessar breytingar.
Þær Katrín og Halla ræddu einnig samtal á breiðum grunni og erindi hugmyndafræði hönnunar inn í annað samhengi „Þetta er eitthvað sem við í stjórnkerfinu getum lært mikið af, að velta fyrir okkur hvernig hugmyndafræði hönnunar virkar, því þá leyfir fólk sér svolítið að stíga út úr því sem er og nálgast hlutina bara algjörlega upp á nýtt þegar verið er að leysa úr flóknum viðfangsefnum,“ segir Katrín og bætir við að oft vanti bara skapandi hugsun til leysa viðfangsefni, sem eru kannski ekkert sérstaklega spennandi út frá listrænu sjónarhorni en kalli á þessa hugsun hönnunar.
Hlustaðu á þáttinn hér:
DesignTalks talks er hlaðvarp um hönnun og arkitektúr og fjallar um víðtæk áhrif greinanna í samfélaginu og ástríðuna sem liggur þar að baki. Það er samtalsvettvangur þar sem fjallað er um hönnun og arkitektúr í allkyns samhengi með frábærum gestum. Nýsköpun, tækni, samfélagslegar áskoranir, loftslagsmál og hvað-eina, af því að þannig er hönnun: snertir við öllu og getur verið mikilvægur drifkraftur nýsköpunar og samfélagslegra framfara. Þættirnir eru fimm talsins.
Aðrir viðmælendur þessarar fyrstu seríu hlaðvarpsins eru þau Valdís Steinarsdóttir vöruhönnuður og Halldór Eldjárn, Ragna Fróðadóttir, textílhönnuður, verkefnastjóri hjá Li Edelkoort Inc. og Magnea Einarsdóttir, fatahönnuður, stofnandi og eigandi fatamerkisins MAGNEA, Hörður Lárusson grafískur hönnuður, stofnandi og eigandi hönnunarstofunnar Kolofon og Magga Dóra, stafrænn hönnunarleiðtogi, stofnandi og eigandi Mennsk ráðgjöf, Arnhildur Pálmadóttir arkitekt, stofnandi s.pa.
Hlín Helga Guðlaugsdóttir, hönnuður og stjórnandi DesignTalks hefur umsjón með hlaðvarpinu, sem er framleitt af Studio HönnunarMars og Miðstöð hönnunar og arkitektúrs. Tæknimaður er Þorbjörn G. Kolbrúnarson og Halldór Eldjárn samdi stefið.