Hönnunar- og hugmyndasamkeppni um nýjar vörur hannaðar úr íslensku tvídi
Kormákur & Skjöldur í samstarfi við Miðstöð hönnunar og arkitektúrs standa fyrir opinni hugmyndasamkeppni um hönnun nýrra vara, fatnaðar eða nytjahluta úr íslenska tvídinu. Sigurvegari hlýtur 500.000 kr. í verðlaun og verður tilkynntur á HönnunarMars 2023.
Nú þegar nokkur ár eru liðin frá því að íslenska tvídið (Icelandic Tweed) kom á markað vill Kormákur & Skjöldur leita til íslenskra hönnuða eftir nýjum og skapandi hugmyndum. Íslenska tvídið er vandað, meðfærilegt og endingargott efni sem hefur gríðarmikla möguleika. Leitað er eftir hugmyndum að nýrri vöru, flík eða öðrum nytjahlut úr íslensku tvídi sem er nýstárleg en um leið söluvænleg. Dómnefnd mun velja vinningstillögu úr innsendum hugmyndum og tilkynna vinningshafa á HönnunarMars 2023.
Verðlaun
Sigurvegari hlýtur 500.000 kr. í verðlaun, 250.000 kr. frá Kormáki & Skildi og 250.000 kr. frá Ístex sem er styrktaraðili. Efstu þrjár hugmyndirnar munu að auki fá viðurkenningu fyrir framúrskarandi hugmynd ásamt 50.000 kr. gjafabréf í verslun Kormáks & Skjaldar.
Markmið og áherslur
Markmið samkeppninnar er að virkja hugvit hönnuða og leita að nýjum hugmyndum og leiðum til að nýta íslenska tvídið og um leið opna aðgang fleiri að hinu frábæra hráefni sem íslenska tvídið er.
Áherslur dómnefndar
Dómnefnd byggir mat sitt á eftirfarandi áherslum:
- Nýjungagildi og styrkur hugmyndar
- Gagnsemi
- Listrænt gildi
- Raunhæfni við framkvæmd hugmyndar
Markhópar
Leitað er eftir fjölbreytilegum hugmyndum að hönnuðum flíkum eða vörum sem geta höfðað til ólíkra markhópa.
Tímalína
Þátttakendur geta sent inn fyrirspurnir til 30. mars á netfangið samkeppni@honnunarmidstod.is. Þeim verður svarað 31. mars.
Síðasti frestur til að skila inn tillögum er 21. apríl.
Sigurvegari verður kynntur og tillögur sýndar á HönnunarMars
Dómnefnd
- Gunnar Hilmarsson, hönnuður, fulltrúi Kormáks & Skjaldar
- Helga Ólafsdóttir, hönnuður, stjórnandi HönnunarMars, fulltrúi Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs.
- Anna Þórunn Hauksdóttir, vöruhönnuður, fulltrúi Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs.
Fyrirspurnir
1. Ef hannaður er fatnaður, þarf hann að vera karlmannsfatnaður? Eða er það kostur?
Allt frjálst og vegur það sama.
2. Er efnið þannig gert að hægt er að hanna úr honum húsmuni eins og húsgögn sem væri bólstruð? Þ.e.a.s er hann nægilega slitsterkur eða hægt að framleiða hann í þykkri útgáfu td?
Svo sannarlega. Tweedið er afar hentugt fyrir húsgögn og kemur afar vel út úr slitprófunum.
Skilaform og afhending
Tillögur skulu innihalda eftirfarandi:
Myndefni og texta sem sýna og útskýra hugmynd verksins, listrænt gildi og
praktíska hagnýtingu tillögu og áætlun um framkvæmd og mögulegan kostnað. Þátttakendur í keppninni geta komið við í verslun Kormáks og Skjaldar og fengið prufur af tvídefni til að vinna með
Tillögum skal skila á pdf-formi eða í rafrænni framsetningu í gegnum vefsíðuna WeTransfer á netfangið samkeppni@honnunarmidstod.is fyrir kl. 14:00 föstudaginn 21. apríl 2023.
Einnig má skila sýnishornum af hlutum/vörum á skrifstofu Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs í Grósku, Bjargargötu 1, 102 Reykjavík fyrir kl. 14:00 föstudaginn 21. apríl 2023
Nafnleynd ríkir í samkeppninni, þannig að tillögur skulu merktar með sex tölustafa auðkennisnúmeri sem þátttakendur velja sjálfir. Með tillögunni skal einnig senda skjal/nafnamiða með sama auðkennisnúmeri sem inniheldur uppplýsingar um þátttakendur ásamt nafni, netfangi og símanúmeri tengiliðar hópsins. Keppnisritari er sá eini sem sér þær upplýsingar. Tillögu er veitt viðtaka berist hún innan tilgreinds skilafrests og nafnleyndar sé gætt.
Þegar farið er inn á WeTransfer er hægt að velja Take me to Free eða Get WeTransfer Pro. Almennt er nóg að velja Take me to Free nema ef sendandi er með Pro aðgang.
- Hlaðið niður skjölunum, ,,+ Add your files”.
- Setjið inn netfang móttakanda: Email to samkeppni@honnunarmidstod.is
- Setjið inn netfang sendanda: Your email xxx@xxx.xx
- Ýtið á ,,Transfer”.
Kormákur og Skjöldur áskilja sér rétt til að hafa samband við keppendur sem ekki hljóta verðlaun um mögulegt samstarf. Ef dómnefnd telur enga innsenda tillögu koma til greina til nánari útfærslu áskilur hún sér rétt til að hafna öllum tillögum. Niðurstaða dómnefndar er endanleg.
Hagnýting keppnistillagna
Samið verður við sigurvegara um vinningstillögu. Tillöguhöfundar eiga allan höfundarrétt að tillögum sínum, sbr. höfundarlög nr. 73/1972.
Fyrirspurnir
Fyrirspurnir má senda í samkeppni@honnunarmidstod.is fyrir miðnætti 30. mars 2023 en þeim verður svarað á heimasíðu Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs 31. mars 2023.
Ítarlegri upplýsingar
Íslenskt Tweed er nú fáanlegt í fyrsta skipti í tæp fimmtíu ár. Undanfarin ár hafa Kormákur og Skjöldur unnið að því að koma á laggirnar vörumerkinu Icelandic Tweed og framleiða undir því tweed-efni ofið alfarið úr íslenskri ull. Ullin í tweedinu er í grunnlitunum fjórum þ.e. mórauður, hvítur, grár og svartur. Úr þessum fjórum litum hönnum við úrval mynstra og blöndum saman litunum sem síðan mynda heildstæða línu. Ullin kemur frá öllum hornum Íslands, ullarbandið er spunnið af Ístex í Mosfellsbæ en tweedið er svo ofið í einni af bestu ullarmillum Evrópu.