Opið kall - Handverk á HönnunarMars 2023
Félag vöru- og iðnhönnuða hvetur alla til að senda inn hugmyndir fyrir sýninguna Handverk sem verður á HönnunarMars, dagana 3. - 7. maí. Opið er fyrir umsóknir til og með 23. mars.
Sýningin mun fjalla um samband okkar við handverkið. Handverkið getur verið þrívítt eða tvívítt, áþreifanlegt eða stafrænt. Það getur einnig verið hlutur, húsgagn, textíll, tónlist, grafík, bókmenntir, byggingarlist, kvikmynd, gjörningur eða jafnvel matur og komið frá heimilum, vinnustofum, verksmiðjum og skjám. Sýningunni er ætlað að veita áhorfendum innsýn í sköpunarferli listamanna og sýnir rannsóknina, hugmyndafræðina, strúktúrinn og efniskenndina á bak við handverkið.
Þátttakendur skulu skila inn myndum af verki á tveimur A4 blöðum (PDF formi) þar sem greint er frá efniviði, miðli, tækni og stærð ásamt texta sem lýsir verkinu, að hámarki 150 orð.
Umsókn skal senda á netfangið voruhonnun@honnunarmidstod.is þar sem kemur fram nafn á listamanni, símanúmer og netfang. Hægt er að skila verkefninu sem einstaklingur eða teymi.