Sýningaropnun með opnunarfyrirlestri frá Jan De Vylder - Öll velkomin!
Föstudaginn 24. mars kl. 19.00 munu nemendur í arkitektúrdeild LHÍ og nemendur við arkitektúrdeild tækniháskólans í Zürich halda sýningaropnun á innsetningum úr endurunnu efni. Við opnunina mun belgíski arkitektinn, Jan De Vylder, halda opnunarfyrirlestur en hann hefur verið lengi í fremstu röð belgískra hönnuða með nálgun sína á arkitektúr og mannlíf. Sýningin fer fram í nýju húsnæði Góða hirðisins, Köllunarklettsvegi 1 í Reykjavík.
Jan De Vylder rekur arkitektastofuna Architecten Jan De Vylder Inge Vinck (AJDVIV) í Antwerpen ásamt eiginkonu sinni Inge Vinck. Jan og Inge hafa lengi verið í fremstu víglínu belgískra hönnuða og hafa vakið athygli fyrir óháðtíðlega nálgun á arkitektúr þar sem ófullkomleiki mannlífs og byggðs umhverfis kemur saman. Það má kalla hann kontextúalista vegna áhuga hans á þeim lagskiptu upplýsingum sem felast í borgarumhverfi okkar, en hann hefur engu að síður gaman af að skapa þversagnir og „…small moments of confusion“ eins og hann segir sjálfur um verk þeirra.
Jan hefur jafnframt því að reka stofu sína, verið kennari í meira en tvo áratugi og er núna prófessor við arkitektúrdeild tækniháskólans í Zürich – ETH, sem í allmörg ár hefur verið mjög spennandi kennsluvettvangur, með arkitekta frá ýmsum heimshornum í kennaraliði sínu. Jan hefur lagt áherslu á handteikningu og listrænt sköpunarferli nemenda sinna í kennslu sinni. Það var ákveðið uppgjör við viðteknum hefðum skólans sem hefur verið meira tengdur við fræðimennsku og rannsóknir.
Jan De Vylder verður hér á landi vikuna 20.-24. mars með nemendur sína á ferð um landið. Ferðin er hugsuð sem sköpunarferli og munu nemendurnir vera með teikniblokkir sínar á lofti alveg frá því þau lenda í Keflavík. Jan og aðstoðarkennarar hans munu standa fyrir fyrirlestraröðinni Seven Questions á leið sinni um landið með fyrirlesurum frá ýmsum heimshornum í umsjá Dags Eggerssonar arkitekts. Í lok ferðarinnar mun Dagur einnig standa fyrir verkstæði þar sem nemendur hans og Hjördísar Siguðardóttur á listaháskólanum munu byggja innsetningar úr endurunnu efni ásamt nemendum Jans De Vylder. Verkstæðið mun fara fram föstudaginn 24/03 og sýningaropnun kl. 19.00 þar sem Jan De Vylder mun halda opnunarfyrirlestur.