DesignTalks 2023 - Peter Veenstra, landslagsarkitekt og einn stofnandi LOLA Landscape Architects
Peter Veenstra, landslagsarkitekt og einn stofnandi LOLA Landscape Architects, kemur fram á DesignTalks 2023 í Hörpu miðvikudaginn 3. maí.
Við verðum að færa okkur í átt að heimi þar sem auðlindir eru sameiginlegar og samnýttar en einfaldleiki og sparnaður leiðarljós einstaklinga
Peter Veenstra er landslagsarkitekt og meðstofnandi stofunnar LOLA Landscape Architects en stofan er með útibú í Rotterdam í Hollandi og Shenzhen í Kína. LOLA er skammstöfun á orðunum Lost Landscape og vísar í áhuga á því ævintýralega sem finna má á jaðrinum, ljóðrænum ónýttum rýmum og sjálfsprottinni náttúru. LOLA hefur tekið að sér stór verkefni á borð við Adidas HQ Campus og Shenzhen Bay Park. Peter vinnur m.a. að sjálfssprottnum hönnunarrannsóknum og sýningarstjórn. Í verkefnum sínum beinir hann sjónum að viðfangsefnum sem hann telur að þurfi meiri athygli innan landslagsarkitektúr og arkitektúrs. Nýlegar rannsóknir hans snúa að landslagi í kjölfar stórslysa, landnotkun sem hefur jákvæð áhrif á kolefnissporið, landgræðslu í skógrækt og hvernig borgarlandslag getur aðlagað sig að loftslaginu. Árið 2013 hlaut hann Rotterdam Maaskant verðlaunin fyrir unga arkitekta og árið 2014 hlaut hann TOPOS verðlaun landslagsarkitekta. Peter Veestra var einn af sýningarstjórum alþjóðlega arkitektatvíæringsins í Rottendam sem haldin var á síðasta ári en þema hans var It’s About Time - The Architecture of Change. LOLA hefur gefið út tvær fræðibækur, Lost landscapes og In Search of Sharawadgi og er Peter meðhöfundur beggja. Seinni bókin, In Search of Sharawadgi, var unnin í samstarfi við hinn virta landslagsarkitekt Piet Oudolf sem hannaði m.a. High Line í New York og Oudolf garðinn í Detroit. Í bókinni kynna LOLA og Piet Oudolf framtíðarsýn sína: alheimsskóg sem vinnur gegn hlýnun jarðar, draum sem hver sem er getur látið rætast í sínum eigin garði, sama hversu stór eða lítill hann er.
DesignTalks 2023 fer fram miðvikudaginn 3. maí í Silfurbergi í Hörpu. Stjórnandi er Hlín Helga Guðlaugsdóttir.
Í ár mun DesignTalks takast á við spurninguna Hvað nú? / What now?, staldra við, fást við áskoranir líðandi stundar, velta upp og kanna mögulegar leiðir - og ef vel tekst til, vekja enn fleiri spurningar!
DesignTalks ráðstefnan varpar ljósi á mikilvægi hönnunar og arkitektúrs í samfélagslegum og hnattrænum breytingum, með erindum um áhrifamikil verkefni og innblásnum samtölum. Hönnuðir, arkitektar og skapandi hugsuðir, erlendir og innlendir veita innsýn í brýn viðfangsefni af öllu hjarta. Ekkert er utan seilingar.