DesignTalks 2023 - Pavel Vrzheshch, stofnandi og listrænn stjórnandi úkraínsku auglýsingastofunnar Banda

Pavel Vrzheshch, stofnandi og listrænn stjórnandi úkraínsku auglýsingastofunnar Banda, kemur fram á DesignTalks 3. maí í Hörpu.
Við urðum að breytast frá skapandi auglýsingastofu í skapandi her fyrir Úkraínu.
Undir stjórn Pavel Vrzheshch hefur Banda starfað fyrir fjölda alþjóðlegra fyrirtækja og unnið til fjölda verðlauna, nú síðast Silfur ljónið fyrir hönnun á Cannes hátíðinni árið 2022.
Þann 24. febrúar 2022 stoppaði öll dagleg starfsemi Banda í Kyiv. Rússland hafði ráðist inn í Úkraínu og starfsemin gat eðlilega ekki haldið áfram óbreytt. Pavel var sjálfur í Kyiv og eftir að hafa eytt nokkrum dögum í áfalli (og við að hjálpa samstarfsfólki og eigin fjölskyldu að flýja land) tók hann ákvörðun með samstarfsfólki sínu: „Við urðum að breytast frá skapandi auglýsingastofu í skapandi afl fyrir Úkraínu, við munum vinna öll verkefni hér eftir sem skapandi hermenn“. Í kjölfarið hefur stofan unnið að fjölda ólíkra verkefna með það að markmiði að segja sögur Úkraínu í sem víðasta samhengi. Banda vann m.a. að herferðinni Be Brave Like Ukraine en henni er ætlað að vekja athygli á Úkraínu, umfram það að vera land í miðju stríði. „Stríðinu lýkur einn daginn og þá stöndum við frammi fyrir ótrúlegu tækifæri til þess að byggja upp ný tengls og nýjan áhuga á landinu okkar“ sagði Pavel. Herferðin er þess eðlis að hver sem er getur sótt sér efni hennar og birt í því formati sem hentar. Zelenskyy, forseti Úkraínu, vakti athygli á herferðinni og í kjölfarið hefur hún birst í yfir 15 löndum.
Banda var stofnað árið 2011. Hjá stofunni starfa um 80 manns í Kyiv og Los Angeles. Fyrir stríðið vann stofan með fyrirtækjum á borð við Uber, Netflix, Pepsi, Spotify og Listasafni Úkraínu. Pavel var valin á listann Most Creative People in Business af tímaritinu Fast Company árið 2022. Hann er einnig á lista Adweek Creative yfir 100 stjórnendur auglýsingastofa sem móta nýja tíma í skapandi greinum. Tímaritið Focus valdi hann einnig á lista 100 áhrifamesta fólk Úkraínu.




DesignTalks 2023 fer fram miðvikudaginn 3. maí í Silfurbergi í Hörpu. Stjórnandi er Hlín Helga Guðlaugsdóttir.
Í ár mun DesignTalks takast á við spurninguna Hvað nú? / What now?, staldra við, fást við áskoranir líðandi stundar, velta upp og kanna mögulegar leiðir - og ef vel tekst til, vekja enn fleiri spurningar!
DesignTalks ráðstefnan varpar ljósi á mikilvægi hönnunar og arkitektúrs í samfélagslegum og hnattrænum breytingum, með erindum um áhrifamikil verkefni og innblásnum samtölum. Hönnuðir, arkitektar og skapandi hugsuðir, erlendir og innlendir veita innsýn í brýn viðfangsefni af öllu hjarta. Ekkert er utan seilingar.