Hönnunarhugsun nýtist meðal annars til að eiga samtal, valdefla og takast á við óvissu
Færri komust að en vildu í málstofu sem Háskóli Íslands stóð fyrir í samstarfi við Hönnunarmiðstöð þann 21 júní síðastliðinn þar sem var rýnt í hönnunarhugsun og hvernig þeirri aðferð er beitt innan íslenskra fyrirtækja og stjórnsýslu.
Tilefnið var útgáfa 1 tbl. 16 árg. Tímarits um viðskipti og efnahagsmál en það er grein eftir þau Ingibjörgu Rafnar Pétursdóttur og Magnús Þór Torfason sem ber titilinn Þróun hönnunarhugsunar og beiting hennar innan íslenskra fyrirtækja og stjórnsýslu. Þau héldu bæði stutta kynningu á greininni ásamt því að þau Guðrún Lilja Gunnlaugsdóttir, deildarstjóri Þjónustu- og þróunardeildar hjá Borgarbókasafninu, Karl Guðmundsson, forstöðumaður útflutnings hjá Íslandsstofu
og Halla Helgadóttir, framkvæmdastjóri Hönnunarmiðstöðvar tóku til máls.
Það er greinilegt að áhugi fyrir hönnunarhugsun er mikill enda hefur sú aðferðafræði verið að ryðja sér til rúms innan þróunarverkefna á Íslandi.
Eins og segir í úrdrætti greinarinnar þá hefur „á síðustu árum hefur færst í vöxt að beitt sé aðferðafræði sem kennd er við hönnunarhugsun (e. design thinking) í þróunarverkefnum, bæði á vegum hins opinbera og í einkageiranum. Í þessari grein er kannað hvernig hönnunarhugsun er beitt við mismunandi aðstæður innan íslenskrar stjórnsýslu og fyrirtækja. Fram kemur í viðtölum að hönnunarhugsun er talin styðja við samtal milli mismunandi hagsmunaaðila og valdeflingu þeirra, auk þess sem viðmælendur telja aðferðina gagnlega við að takast á við þá óvissu sem fylgir nýsköpunarverkefnum."
Hægt er að lesa grein þeirra Ingibjargar Rafnar og Magnúsar Þórs HÉR.
Hér eru myndir sem Kristinn Ingvarsson, hirðljósmyndari Háskóla Íslands smellti af á málstofunni sem fór frá í Ingjaldsstofu á Háskólatorgi.