HönnunarMars 2024 - Grafík og prent
HönnunarMars er rétt handan við hornið en hátíðin fer fram dagana 24. - 28. apríl og fjölbreytt dagskráin breiðir úr sér um alla borg. Í boði eru um 100 sýningar og 200 viðburðir - eitthvað fyrir öll!
Á HönnunarMars kynnumst við grafískri hönnun og prentverkum á Íslandi í ólíku samhengi. Við fræðumst um sögu hennar, fáum innsýn í áhugaverða vinnu grafískra hönnuða og kíkjum einnig út fyrir landsteinana. Fyrir áhugasama er hér samantekt á viðburðum og sýningum sem snúast um grafík og prent.
Stofnendur FÍT
Rúm 70 ár eru síðan Félag íslenskra teiknara, FÍT, var stofnað. Af því tilefni horfa þau nú til baka og draga fram í dagsljósið verk fyrstu kynslóðar grafískra hönnuða á Íslandi og stofnenda félagsins. Aðalmarkmið FÍT hefur alla tíð verið að efla starfsstéttina og í dag eru félagar þess orðnir um 300 talsins.
Merkileg
Merki gegna veigamiklu hlutverki í okkar daglega lífi. Á hverjum degi sjáum við þau allt í kringum okkur, aftur og síendurtekið en alla jafna gefum við þeim lítinn gaum. Sýningin Merkileg er haldin í tengslum við vinnslu á bókinni Merki Íslands sem mun innihalda samansafn merkja sem hönnuð hafa verið á Íslandi.
Appelsínuvinna
Á sýningunni „Appelsínuvinna“ í Núllinu gallerí verður sjónræn og skrifleg rannsókn sýnd sem endurspeglar grafíska hönnun úr Fríríkinu Kristjaníu og sögu hennar — út frá hugmyndafræði anarkisma og kommúnu.
Samfellur
Samfellur er sýning Pétur Geirs Magnússonar þar sem hann sýnir nýja seríu lágmynda sem unnar voru við Álftavatn. Um er að ræða einskonar leiðangur milli málverks og skúlptúrs, listar og hönnunar, handverks og nútímalegrar tækni. Þema sýningarinnar er samfellur, en með nýju föðurhlutverki hefur Pétur Geir fengist við nýjar áskoranir sem hann upplifir að endurspeglist í lágmyndunum.
Samtöl
Samtöl er sýning á grafískum prentverkum eftir Tinnu Pétursdóttir. Verkin eru sprottin úr hugmyndum Tinnu um hvernig samtöl formast, eru á litinn og í laginu, taktinn þeirra, stemmninguna og mynstrið sem þau mynda í huga hennar. Sýningin er safn samtala hönnuðarins við sjálfa sig og aðra og verða sýnd sem innrömmuð prentverk.
Sæ:flúr
Úr hafinu dregur :Orn Smári fiska og form sem hann skoðar í ýmsu samhengi og kallar Sæ:flúr. Á HönnunarMars sýnir hönnuðurinn tilraunir, skissur og nokkrar vörur með fiskamynstri sem hann hefur unnið að síðustu árin.
Ljáðu mér vængi
Á sýningunni í Loftskeytastöðinni er lögð áhersla á að varpa ljósi á uppvöxt Vigdísar, ævi hennar og störf og þau miklu áhrif sem hún hafði í embætti forseta Íslands og þá miklu athygli sem kjör hennar vakti. Á viðburði HönnunarMars mun fara fram spjall um nálgun höfundar og listamannanna við gerð og hönnun sýningarinnar.
Bergmál: Frumrit og Afrit
Sýningin „Bergmál“ er tilraun þar sem upprunaleg listaverk eiga í samtali við endurgerð sína, en sýningin er samstarfsverkefni PETIT ARTPRINTS og Rammagerðarinnar. PETIT, í samstarfi við Rammagerðina og Varmá, gefur út sérstaka útgáfu af fjölfeldi sem er veggteppi eftir Hönnu Dís Whitehead. Það verður opinberað á opnunarhófi sýningarinnar ásamt nýjum prentverkum en sýningin býður fólki einnig að skoða fjölda frumlegra listaverka samhliða vandlega unnum eftirgerðum þeirra eða margfeldi.