HönnunarMars 2024 - Arkitektúr
HönnunarMars er rétt handan við hornið en hátíðin fer fram dagana 24. - 28. apríl og fjölbreytt dagskráin breiðir úr sér um alla borg. Í boði eru um 100 sýningar og 200 viðburðir - eitthvað fyrir öll!
Arkitektúr snertir okkur öll á einn eða annan hátt. Gróskumiklar hugmyndir og frumlegar nálganir hafa verið að malla innan greinarinnar sem gestir HönnunarMars fá tækifæri til að fræðast um á fjölbreyttum viðburðum og sýningum hátíðarinnar.
Wasteland Ísland
Dansk-íslenska nýsköpunar- og arkitektastofan Lendager stendur að baki sýningunni "Wasteland Ísland". Með henni er verið að skoða hvernig lágmarka má myndun úrgangs og umframefna og nýta betur þau verðmætu efni sem falla til hér á landi í staðbundnum verkefnum innan byggingariðnaðarins.
Echo Chamber
Innsetningin “Echo Chamber” gefur innsýn inn í samtal á milli Jökuls (Studio Pluto) og David (Encounters) þar sem þeir rannsaka sambönd arkitektúrs, náttúru og mannlegra samskipta. Með verkefninu er meðal annars verið að endurskoða tengsl okkar við hið byggða umhverfi og hvetja til umræðu um arkitektúr og hvernig hægt er að samræmast náttúrunni.
Híbýlaauður
Á HönnunarMars 2024 býður rannsóknasviðshópurinn Híbýlaauður til skrafs og ráðagerða kringum eldhúseyjuna, nútímaútgáfu eldstæðisins sem hefur fylgt híbýlum manna frá örófi alda. Híbýlaauður spinnst út frá arkitektónískum og hagrænum rannsóknum í samhengi við húsnæðisuppbyggingu á Íslandi.
Mannlíf, byggð og bæjarrými
Hvernig glæðum við göturnar mannlífi? Hve mikið af göturýminu fer undir bílastæði og hver borgar fyrir þau? Hvernig getum við tryggt skilvirkar samgöngur í líflegri og þéttri byggð? Á Hönnunarmars 2024 gefst tækifæri til þátttöku í gagnvirkum vinnustofum til að öðlast betri skilning á skipulagi þéttbýlis. Vinnustofan eru fyrir alla aldurshópa og eru börn sérstaklega velkomin.
Byggjum framtíð
Gestir HönnunarMars 2024 geta fræðst um sjálfbærni í byggingariðnaði og arkitektúr á viðburðinum Byggjum framtíð sem er haldinn í tengslum við sýninguna Wasteland. Viðburðurinn er í formi fræðandi erinda og pallborðsumræða og að þeim loknum fer fram leiðsögn um Wasteland sýninguna sem stendur yfir í Hvelfingu, sýningarsal Norræna hússins.
Tíu dropar og tal um inngildingu í arkitektúr og skipulagi
Nordic Office of Architecture býður upp á kaffi og með því og tækifæri til að sjá og heyra hvernig nota má hönnun til að stuðla að virkni og tækifærum fyrir alla. Algild hönnun virkjar og styrkir íbúa samfélagsins með því að fjölga tækifærum og stuðla að heilbrigði, vellíðan og félagslegri þátttöku. Tveir arkitektar hjá Nordic Office of Architecture verða með erindi. Jóhanna Helgadóttir fjallar um mannlega nálgun sem útgangspunkt í skipulagi og Camilla Heier Anglero fjallar um Carpe Diem heimilið í Bærum í Noregi. Forskráningar er krafist á þennan viðburðinn.
Byggingarnar okkar
Barnabókin Byggingarnar okkar fjallar um þá strauma og stíla sem að einkenna íslenska byggingarlistasögu frá torfhúsum til steinsteyptra húsa á einfaldan hátt með það að markmiði að sem flestir geti lesið um og í byggingarnar í umhverfinu okkar. Í tilefni af HönnunarMars og Barnamenningarhátíð verður rafræn útgáfa af bókinni til sýnis í Borgarsögusafni þar sem gestir geta tryggt sér eintök í forsölu.
Hlaupið um arkitektúr
Arkitektafélag Íslands býður nú í þriðja sinn upp á hlaupaviðburð á HönnunarMars þar sem arkitektar munu leiða þig um fjölbreytt og margslungið umhverfi höfuðborgarsvæðisins á hlaupum. Reimdu á þig hlaupaskóna og vertu með. Engin þarf að óttast þótt hlaupaformið sé ekki upp á tíu, þetta er ekki heimsmeistaramót í hlaupi. Allir ættu því að geta notið þess að upplifa umhverfi sitt á nýjan hátt með örlítið örari hjartslátt en vanalega.