HönnunarMars 2024 - Tíska og hönnun
HönnunarMars er rétt handan við hornið en hátíðin fer fram dagana 24. - 28. apríl og fjölbreytt dagskráin breiðir úr sér um alla borg. Í boði eru um 100 sýningar og 200 viðburðir - eitthvað fyrir öll!
HönnunarMars í ár býður upp á fjöldann allan af viðburðum og sýningum sem tengjast tísku á einn eða annan hátt. Náttúran, tækni, kvennakraftur, gróskumikið samstarf og margt fleira koma við sögu. Hér má sjá samantekt á þeim viðburðum og sýningum sem fjalla um tísku í sinni fjölbreyttu mynd.
Young Talents of Fashion Design - Landsbankinn
Landsbankinn í samstarfi við HönnunarMars gefur sjö ungum fatahönnuðum sviðið á hátíðinni. Vel valdar flíkur frá hönnuðunum verða til sýnis í bankanum þar sem gestum gefst tækifæri til að sjá og upplifa handverk þeirra ásamt því að fá innsýn inn í þeirra vinnu og hvert fatahönnuðir framtíðarinnar stefna.
Reflections by Hildur Yeoman
Á HönnunarMars 2024 kynnir Yeoman nýja fatalínu, Reflections. Hönnunarteymið sótti innblástur í leik sólar og vatns, glitrandi haf, hita í lofti og veröld sem er full eftirvæntingar og léttleika. Fyrirtæki Hildar Yeoman er rekið af konum og hefur kraftur kvenna verið órjúfanlegur þáttur í hönnun Hildar frá upphafi. Hún hefur verið þess heiðurs aðnjótandi að hafa klætt fjöldann allan af áhugaverðum konum sem standa margar hverjar fremstar meðal jafningja á heimsvísu.
RANRA - Uppskera
RANRA er hönnunarstofa Arnars Más Jónssonar og Luke Stevens í London og Reykjavík sem sérhæfir sig í útivistarfatnaði hönnuðum fyrir náttúruna og borgarumhverfið. Fyrirtækið hefur átt í samstarfi við útivistarmerkið Salomon og nú í vor kom út þriðji hluti samstarfsins og af því tilefni blæs RANRA til veislu og yfirlitssýningar, þar sem sýnt er frá ferlisvinnu, efnisvali og hugmyndafræði samstarfsins.
Innsýni
Innsýni fagnar upprennandi íslenskum fatahönnuðum með sýningaropnun á HönnunarMars þriðja árið í röð en í ár verða sex íslenskir fatahönnuðir kynntir. Sýningin styður við markmið Innsýnis sem er að efla og styðja við næstu kynslóð íslenskra hönnuða og veita þeim aðstöðu og skapa grundvöll þar sem þau geta sýnt sköpunarverk sín og myndað tengsl við íslenskan jafnt sem erlendan iðnað.
ANITA HIRLEKAR // MAGNEA
Fatamerkin ANITA HIRLEKAR & MAGNEA fagna opnun nýrrar verslunar við Hafnartorg á HönnunarMars 2024. ANITA HIRLEKAR er þekkt fyrir handmáluð munstur og djarfa litatóna í kvenlegum sniðum. Hver flík er einstök og hönnuð fyrir konur sem klæða sig upp fyrir sig sjálfar. MAGNEA, stofnað af Magneu Einarsdóttur, er fatamerki þar sem áhersla er lögð á nýstárleg efni, prjón og fleira. Fatalínur hönnuðarins eru byggðar á hugmyndafræði hennar um ferska og sjálfbæra nálgun á prjón og íslenska ull.
Tískusýning útskriftarnema í fatahönnun LHÍ
Sex nemendur í fatahönnun við Listaháskóla Íslands kynna BA-útskriftarverkefni sín á tískusýningu í Hörpu á HönnunarMars. Lokaverkefni nemenda í fatahönnun er einstaklingsverkefni sem samanstendur af frjálsri rannsókn, hönnun og gerð á línu af tískufatnaði undir handleiðslu leiðbeinenda. Tískusýning útskriftarnema í fatahönnun er hluti af viðamikilli dagskrá útskriftarhátíðar Listaháskóla Íslands.
Björn Hugason
Björn Hugason er íslenskur fatahönnuður sem stofnaði samnefnt fatamerki árið 2022. Á HönnunarMars í ár sýnir hann nýja fatalínu fyrir árið 2024 þar sem hönnuðurinn sækir innblástur í fornar íslenskar handverkshefðir en með nýrri túlkun á hefðbundnu handverki, handlitunartækni og í minimalískara formi. Fatnaðurinn er unnin úr náttúrulegum og endurunnum textíl í hæsta gæðaflokki og er hvert eintak handlitað sérstaklega sem gerir hvert eintak einstakt á sinn máta.
House of Error - Waning Woon
House of Error er glænýtt stafrænt tískuhús sem mun frumsýna sitt fyrsta “collection”, Dvínandi tungl, á HönnunarMars 2024. Dvínandi tungl heiðrar framlag kvenna til tækni og lista, og gagnrýnir í senn kerfislæga fordóma sem hafa jaðarsett konur í þessum geirum. Dvínandi tungl sækir innblástur í samband kvenna við hringrás tunglsins, framlag kvenna til vísinda, stafrænt handverk og dulspeki. Á sýningunni verður hægt að prófa stafrænar flíkur í viðbótarveruleika.
Landvættirnir
Á HönnunarMars 2024 má líta við í verslun Kormáks og Skjaldar að Laugavegi 59 og sjá sýnishorn af þeirra helstu vörum, m.a. tweed-vörur, ilmi, skeggolíur og hatta. Í nokkur ár hafa Kormákur og Skjöldur unnið að því að koma á laggirnar vörumerkinu Icelandic Tweed og framleiða undir því tweed-efni ofið alfarið úr íslenskri ull. Þar að auki hafa bæst við flóruna ilmir og skeggolíur, innblásin af íslenskri náttúru. Einnig má kynnast handgerðum höttum sem Sigurður Ernir Þórisson hannar en hann stofnaði nýlega hönnunarfyrirtækið Sigzon Hats.
Anarkist fagurfræði
Samsýningin Anarkist ~ Fagurfræði vinnur með myndlist og hönnun. Listamenn og hönnuðir sýna í Gallerí Fyrirbæri sem er multi komplex skapandi einstaklinga á Ægisgötu 7 í miðbæ Reykjavíkur. Sýningin gengur út á að þenja mörkin á milli myndlistar og hönnunar. Hér er list skoðuð sem skilgreining, nú eða endurskilgreining á þörfum mannsins: list er samfélagsgagnrýni og upplifun. Hvenær verður list hönnun?
Florest
Í FLOREST lítur And Anti Matter til sovéskra leikvalla og brútalískrar byggingarlistar, mið-evrópskrar verkamannastéttar og framtíðartækni. Úr hörkunni spretta plöntur og bláklæddar mynsturverur vökva gróðurinn. Hljóð handa blómum umlykja tvívíðar myndir unnar með týndum tækjum. Um er að ræða innsetningu sem sett er upp í einstöku gróðurhúsi í nærumhverfi aldraðra íbúa að Lönguhlíð 3 en þar býður &AM gestum að koma og vaxa með sér.
AS WE GROW - AGAIN
AS WE GROW - AGAIN er framhaldssaga hönnunarvara AS WE GROW. Stigið er lengra í heildarhugsuninni og hafin endursala á notuðum flíkum í versluninni að Klapparstíg. Koma má með notaðar flíkur vörumerkisins og fá upp í greiðslu á öðrum vörum. Fyrirtækið vill þannig stuðla að framhaldslífi á fatnaði sínum og styðja við markmið fyrirtækisins um að tryggja meðvitaðri framleiðslu og nýtingu.
Gagnvirkar Verndarverur
Sýningin ,,Gagnvirkar Verndarverur" frumsýnir nýjustu línu Saga Kakala af silkislæðum í samstarfi við Maríu Guðjohnsen þrívíddarhönnuð. Í þessari röð af þrívíddarmyndum fá gestir að kynnast ásýnd íslenskra kynjaskepna í undarlegu og nútímalegu ljósi. Skepnurnar hafa það ævintýralega verkefni að standa vörð um íslenskar fornleifar, eða steina sem finnast í íslenskri náttúru.
66°Norður x Rammagerðin - Lopi Fur
Lopi Fur, samstarf 66°Norður og Rammagerðarinnar, verður kynnt á HönnunarMars 2024. Afraksturinn samanstendur af fylgihlutum sem eru unnir úr 100% Lopi fur frá Ístex, sem er ólituð ofin íslensk ull með bómullarundirlagi. Um er að ræða bakpoka, snyrtitösku og loðhúfu og koma vörurnar í takmörkuðu magni.
Postmodern crochet and knit workshop
Á HönnunarMars fer fram vinnustofa þar sem þátttakendur prjóna og hekla verk í frjálsu formi og leika sér með mismunandi garn, áferðir og lykkjur í þeim tilgangi að fá fram sjálfsprottið sýnishorn. Kennari vinnustofunnar er Juha Vehmaanperä, finnskur prjónahönnuður og textíllistamaður. Smiðjan er ætluð öllum, byrjendum jafnt sem reynsluboltum. Hún snýst um að deila þekkingu og njóta þess að skapa handverk saman.