HönnunarMars 2024 - Tryggðu þér sæti
HönnunarMars er rétt handan við hornið en hátíðin fer fram dagana 24. - 28. apríl og fjölbreytt dagskráin breiðir úr sér um alla borg. Í boði eru um 100 sýningar og 200 viðburðir - eitthvað fyrir öll!
Til þess að tryggja ánægju hátíðargesta og gæði upplifana krefjast sumir viðburðir skráningar. Því er um að gera að kynna sér þá í tæka tíð og til þess að auðvelda áhugasömum verkið er hér samantekt á þessum viðburðum.
Smelltu á viðburð til að nálgast upplýsingar um skráningu.
Tíu dropar og tal um inngildingu í arkitektúr og skipulagi
Nordic Office of Architecture býður upp á kaffi og með því og tækifæri til að sjá og heyra hvernig nota má hönnun til að stuðla að virkni og tækifærum fyrir alla. Algild hönnun virkjar og styrkir íbúa samfélagsins með því að fjölga tækifærum og stuðla að heilbrigði, vellíðan og félagslegri þátttöku. Tveir arkitektar hjá Nordic Office of Architecture verða með erindi. Jóhanna Helgadóttir fjallar um mannlega nálgun sem útgangspunkt í skipulagi og Camilla Heier Anglero fjallar um Carpe Diem heimilið í Bærum í Noregi.
Samruni
Omnom og Theódóra Alfreðsdóttir skoða hvernig nýta má hýði kakóbauna, eða husk, sem fellur til við umbreytingu baunanna yfir í súkkulaði. Dag hvern hjá Omnom falla til um sex kíló af þessari náttúrulegu aukaafurð. Með samstarfinu renna súkkulaðið, endaafurðin og huskið, aukaafurðin saman í eitt, í súkkulaðimola. Farið verður með fólk í ferðalag í gegnum átta stöðvar þar sem hver moli er innblásinn af íslenskri menningu eða náttúru, allt frá birki og byggi yfir í lakkrísþráhyggju, 10 dropa af kaffi og sjónvarpsköku. Hver og einn moli er handgerður af natni og byggður í kringum form Theodóru.
Fró(u)n
Íslenskur jarðvegur er einstakur og á frekari athygli okkar skilið. Með því að nýta íslenskan leir og postulín við gerð kynlífsleikfanga beina Antonía Berg og Elín Margot ljósi að því hvernig hægt er að beita róttækari leiðum til að endurnýta sjálfbæran jarðveg Íslands. Á HönnunarMars kynna þær Fró(u)n, safn jarðbundinna kynlífstækja sem gerð eru úr postulíni og leir frá Berunesi í Berufirði, heimahögum Antoníu. Þær munu hýsa vinnusmiðju í Reykjavík þar sem öllum er velkomið að koma og handgera sín eigin kynlífstæki úr postulíni og íslenskum jarðefnum.
Fjárfestum í hönnun
Hvers vegna á að fjárfesta í hönnun og hvaða leiðir hafa hönnuðir til að sækja sér fjármagn? Á þessum viðburði HönnunarMars er fjallað um mikilvægi þess að fjárfesta í hönnun. Reynslumiklir einstaklingar úr heimi hönnunar og fjárfestinga deila sinni sýn, svara spurningum og taka þátt í umræðum. Meðal þeirra sem koma fram eru: Erik Rimmer, BO BEDRE editor-in-chief, Martta Louekari, JUNI Communication Director, Ragna Sara Jónsdóttir, FÓLK founder & creative director og Heiðdís Inga Hilmarsdóttir, Krónan, verkefnastjóri sjálfbærnismála.
Borð nr. 1
Fjórir tónlistarmenn taka þátt í gjörningi sem hefst með matarveislu við Borð nr. 1. Í lok hennar eru matarföng fjarlægð og leikendur opna lok á borðinu fyrir framan sig þar sem hljóðfæri birtast fyrir framan hvern og einn. Hefst þá tónlistarflutningur, eða tónlistarveisla, við borðið. Til þess að sýningargestir nái að fylgjast vel með því sem gerist við borðið er myndavél staðsett fyrir ofan það og öllu sem gerist þar varpað á vegg.
Endurtakk x Rauði kross Íslands
Hannaðu þinn eigin taupoka með ENDURTAKK og Rauða krossi Ísland! ENDURTAKK er hönnunarstúdíó sem sérhæfir sig í sjálfbærri tísku. Kynning á vörumerki þess fer fram með gagnvirkri innsetningu. Markmið innsetningarinnar er að gestir sjái og fræðist um listrænt ferli stúdíósins. Fylgst er með ferlinu í stúdíónu þar sem aðaláhersla er lögð á að fylgja meginreglum endurnýtingar og áframvinnslu textílefna í tískubransanum og notuðum textíl er breytt í nýja vöru. Innsetningin líkir eftir saumastofu ENDURTAKK sem staðsett er í miðbænum og hefur allt sem þarf til verksins, meðal annars saumavélar, skurðarborð og úrval af gallaefni.
CODAPENT
Codapent er nýtt lyf á markaðnum sem býður upp á skjótan bata við meðvirkni. Nú eru komnir í framleiðslu heilandi keramikskúlptúrar unnir út frá partavinnu (Part Therapy) en hafa þann eiginleika að vera einnig pilluglös Codapents. Codapent-teymið mun kynna leiðir að bataferli og varpa ljósi á hvernig tilfinningar framkallast í efniviði. Viðburðurinn stendur yfir í u.þ.b. klukkustund í heimahúsi í miðbænum þar sem gestgjafinn Margrét Rut Eddudóttur mun bjóða upp á léttar veitingar.
Kintsugi: Japönsk viðgerðaraðferð
Kintsugi má gróflega þýða sem „samsetning með gulli“ og er aldagömul japönsk viðgerðartækni sem notar japanskt lakk (urushi) þakið með gulldufti eða öðrum dýrmætum efnum til að lagfæra brotin keramikílát. Iku Nishikawa frá Kintsugi Oxford verður með kynningu á kintsugi listinni og merkingu hennar, áður en hann verður með sýnikennslu þar sem hann fer skref fyrir skref yfir það hvernig gestir geta notað kintsugi tæknina heima við, til þess að gera við sína eigin brotnu keramikmuni. Sýnikennslunni verður svo fylgt eftir með námskeiði.
Skapalón - Sjáum íslenska hönnun og arkitektúr
Um er að ræða fræðandi leiðsagnir um sýningar HönnunarMars fyrir skólahópa, sem vekja forvitni og veita innsýn inn í hugarheim ólíkra hönnuða og faggreina. Logi Pedro, vöruhönnuður og tónlistarmaður, hefur umsjón með leiðsögnunum sem byggjast á þáttunum Skapalón. Farið verður um Hafnartorg, einn af sýningarkjörnum hátíðarinnar í ár, þar sem nemendur fá einstaka innsýn í ferli og hugmyndir hönnuða og arkitekta og heyra hvernig þeir nálgast viðfansgefni sín.
DesignTalks
Alþjóðlega ráðstefnan DesignTalks fer fram í Silfurbergi í Hörpu þann 24. apríl 2024. Dagskrá dagsins tekst á við öfgar og ójafnvægi ýmiskonar. Ofgnótt upplýsinga, hráefnisskort, möguleika nærumhverfisins í hnattrænu samhengi, enduruppbyggingu, heimsfjölskylduna og innri ró mun bera á góma. Í þessum tælandi töfraheimi er allt mögulegt en undir yfirborðinu kraumar hið óvænta og stundum hið óþægilega.
Design Diplomacy x Noregur
Cecilie Willoch, sendiherra Noregs á Íslandi, býður Petter Torgersen Myhr (NO) og Maríu Guðjohnsen (IS) til sín í norska sendiherrabústaðinn til að eiga áhugavert og óvænt samtal um hönnun, föstudaginn 26. apríl kl. 13-15. Á viðburðinum gefst tækifæri til að hlusta á hönnuði frá sitthvoru landinu bera saman bækur sínar og ræða um ýmis hönnunartengd málefni yfir sérsniðnum spurningarspjöldum sem er ætlað að kveikja forvitnilegar umræður. Samtalið heldur svo áfram á eftir yfir kaffibolla eða drykk á heimili sendiherrans. Forskráningar er krafist á þennan viðburð.