HönnunarMars 2024 - Efnistilraunir og Endurnýting
HönnunarMars er rétt handan við hornið en hátíðin fer fram dagana 24. - 28. apríl og fjölbreytt dagskráin breiðir úr sér um alla borg. Í boði eru um 100 sýningar og 200 viðburðir - eitthvað fyrir öll!
Á hátíðinni í ár má sækja margar sýningar þar sem tilraunir eru gerðar með ólík efni, þar sem endurnýting efna og hluta er gjarnan í forgrunni. Tilraunirnar spanna vítt svið hönnunar þar sem óþrjótandi sköpunargáfan ræður ríkjum.
Annarsflokks
Hönnunar- og rannsóknarverkefnið Annarsflokks, sýnir fram á notagildi og gæði annarsflokks æðardúns. Um 90% af æðardúni sem framleiddur er árlega á heimsvísu kemur frá Íslandi og er hér mikil sérþekking til staðar þegar kemur að æðarrækt. Verkefnið er samstarf vöruhönnuðanna og æðarbóndanna Írisar Indriðadóttur og Signýjar Jónsdóttur og Sigmunds Páls Freysteinssonar, fatahönnuðar og textílsérfræðings. Sigmundur býr yfir sérþekkingu í náttúrulegri litun á textíl og hefðbundnu handverki sem nýtist einstaklega vel í verkefninu.
Eiginleikar
Hlutir innan heimilisins hafa ákveðna eiginleika. Séu þeir fjöldaframleiddir eru eiginleikar þeirra búnir takmörkum þeim sem vélarnar sem framleiða þá hafa. Séu þeir handgerðir eru þeir háðir því valdi sem hendur og hugur hafa yfir efninu sem þeir eru búnir til úr. Á sýningu Hönnu Dísar Whitehead mætast ólíkir eiginleikar, handverk og stafræn tækni, list og hönnun, leir og strá, viður og ull.
After Stone
Steinúrgangur sem myndast við rennismíðar verður að fínu dufti sem hægt er að endurnýta sem litarefni til þess að lita keramikglerunga. Venjulega er slíku aukahráefni annaðhvort fargað eða það niðurunnið en með því að endurvinna úrganginn á þennan hátt er efnið nýtt til fulls. Í þessu efnisrannsóknarverkefni er kannað hvernig endurheimta má úrgang úr steiniðnaði og umbreyta í litaduft til framleiðslu á keramikvöru.
Fruitful Futures
Á meðan HönnunarMars stendur yfir hefur Krónan, það hefðbundna rými sem matvöruverslun er, fengið nýtt hlutverk sem sýningarrými. Meðal ávaxta, hveitis og osta má finna fjölbreytt verkefni á borð við vítamín fyrir plöntur, vaxandi flíkur og mjölormakjötsúpu. Sýningin byggir á tveimur samstarfsverkefnum. Annað nefnist Moldamín, ný vara Krónunnar, Meltu og Brandenburg. Hið seinna er samstarf Krónunnar og Listaháskóla Íslands þar sem Krónan var aðalviðfangsefni nema í vöruhönnun.
Calling Card
Matteria kynningin byggir á sýningunni 21. aldar leirmunir frá 2023 en víkkar umfang sitt og sýnir fjölbreytt úrval af hönnunarmunum, allt frá vösum til annarra hluta sem kalla fram lögmál Íslands. Á sýningunni eru nýstárleg verk unnin með verkfærum samtímans eins og þrívíddarprentun, gervigreind og framfarir í efnisvísindum. Hlutirnir, sem eru gerðir úr eldfjallasandi og öðrum íslenskum efnum, innihalda blöndu af endurunnum og óendurunnnum íhlutum, sem sýna meðvitaða viðleitni til sjálfbærni og náttúrulegs áreiðanleika.
1+1+1 / Hugdetta
1+1+1 er tilraunakennd hönnun þriggja hönnunarhúsa – Hugdettu frá Íslandi, Petra Lilju frá Svíþjóð og Aalto+Aalto frá Finnlandi. Saman skoða þau og endurhugsa hluti með þeirri aðferð að hver vinnustofa hannar hlut sem samanstendur af þremur aðskildum pörtum sem síðar púslast saman við hönnun hinna landanna. Hönnunin verður ófyrirsjáanleg og óvanaleg þar sem útkoman kemur bæði hönnuðunum og áhorfandanum á óvart.
Í faðm náttúrunnar
Aska Bio Urns sýnir vistvæn niðurbrjótanleg duftker úr endurunnum pappír. Hönnunin er innblásin af íslensku stuðlabergi. Hér ekki bara verið að minnka kolefnisfótsporið heldur einnig að vernda dýrmæta náttúruna ásamt því að stuðla að grænni framtíð. Aska Bio Urns hefur það markmið að stuðla að og bjóða upp á valkost sem er vistvænn, sjálfbær og umhverfisvænn þegar kemur að því að hlúa að og heiðra minningu ástvina og gæludýra.
ARKITÝPA - arkitýpískir hlutir
Á sýningunni á HönnunarMars 2024 leitast ARKITÝPA við að fullgera hið arkitýpíska form, innan þess tilraunakennda leiksviðs sem hringrásarefnið gefur; að vekja löngun til þess að taka það með sér heim, til áframhaldandi ljóðrænna upplifana í samspili rýmis og efnis. Hversdagslegir hlutir hljóta æðri tilgang þegar endurheimt efni og fljótandi form fléttast saman í ljóðrænan rýmisskúlptúr.
BioPottery
BioPottery er könnun á leiðum til að endurskilgreina vinnu við keramik gegnum hugmyndafræði endurnýtingar, með skapandi viðhorfi gagnvart vannýttu sorpi, þar sem ætlunin er að koma því inn í hringrásarhagkerfið með uppbyggilegum hætti. BioPottery skorar á hólm þá neysluhyggju sem hvetur fólk til að henda neysluvörum, en talar fyrir hugmyndafræði vistkerfa í vinnu við sorp og keramik.
Snúningur
Getur einkennisfatnaður orðið að tösku? Snúningur er samstarfsverkefni Icelandair og vöruhönnuðanna Hrefnu Sigurðardóttur og Birtu Rós Brynjólfsdóttur hjá Stúdíó Fléttu. Verkefnið felur í sér að finna eldri einkennisbúningi Icelandair nýjan farveg en Icelandair tók í notkun nýjan einkennisfatnað á síðasta ári. Stúdíó Flétta leggur sérstaka áherslu á endurnýtingu efna, staðbundna framleiðslu og ábyrga hönnun sem er um leið áhugaverð og lausnamiðuð.
66°Norður x Ýrúrarí - Smá flís
Með samstarfi 66°Norður og Ýrúrarí fá peysur nýtt líf. Textílhönnuðurinn Ýrúrarí hefur undanfarin ár unnið að því að endurbæta og breyta gömlum peysum úr fataflokkunarstöðvum með því að gefa þeim nýjan persónuleika og andlit. Á HönnunarMars 2024 endurlífgar hún gallaðar peysur frá 66°Norður með því að móta bætur úr afskornum efnisbútum úr framleiðslu fyrirtækisins.
TROUBLE - Data Sculpted Futures
Hönnunarspjall JOYH veitir innsýn í hönnunaraðferðafræði þar sem notuð eru háþróuð reikniverk, vélnám og sandprentun. JOYH er skapandi hönnunarstúdíó með aðsetur í Vínarborg, sem leggur áherslu á efnisrannsóknir og nýtingu reikniverkfæra þar sem kannaðar eru nýstárlegar aðferðir til að endurskilgreina svið byggingarlistar.