HönnunarMars 2024 - Framtíðin er björt
HönnunarMars er rétt handan við hornið en hátíðin fer fram dagana 24. - 28. apríl og fjölbreytt dagskráin breiðir úr sér um alla borg. Í boði eru um 100 sýningar og 200 viðburðir - eitthvað fyrir öll!
Sýningar og viðburðir HönnunarMars veita innsýn í það sem framtíðin ber í skauti sér. Í þessari samantekt eru viðburðir og sýningar sem gefa okkur nasasjón af framtíðinni. Áhersla er lögð á unga upprennandi hönnuði, sem og alls kyns tækni sem gera okkur kleift að sjá hlutina í nýju ljósi.
House of Error - Waning Moon
House of Error er glænýtt stafrænt tískuhús sem mun frumsýna sitt fyrsta “collection”, Dvínandi tungl, á HönnunarMars 2024. Dvínandi tungl heiðrar framlag kvenna til tækni og lista, og gagnrýnir í senn kerfislæga fordóma sem hafa jaðarsett konur í þessum geirum. Dvínandi tungl sækir innblástur í samband kvenna við hringrás tunglsins, framlag kvenna til vísinda, stafrænt handverk og dulspeki. Á sýningunni verður hægt að prófa stafrænar flíkur í viðbótarveruleika.
FLEY - Samsýning upprennandi hönnuða
FLEY er samsýning upprennandi hönnuða sem haldin verður í fyrsta skiptið á HönnunarMars í ár. Sýningin er ætluð sem lendingarpallur fyrir upprennandi hönnuði jafnt sem fley sem flytur þau áfram inn í íslenskt hönnunarlíf. Hönnuðirnir eru einskonar þyrlur, hlaða fleyið góssi og bera svo frá því mikilvægan varning, þekkingu. Þau svífa svo af stað inn í framtíðina.
Young Talents of Fashion Design - Landsbankinn
Landsbankinn í samstarfi við HönnunarMars gefur sjö ungum fatahönnuðum sviðið á hátíðinni. Vel valdar flíkur frá hönnuðunum verða til sýnis í bankanum þar sem gestum gefst tækifæri til að sjá og upplifa handverk þeirra ásamt því að fá innsýn inn í þeirra vinnu og hvert fatahönnuðir framtíðarinnar stefna.
Sirkus Hversdagsleikans
Eyrún Ey býður gestum HönnunarMars í ferðalag inní stafrænan þrívíddarheim þar sem kannað verður hvað gerist ef við byrjum að skoða hversdagslega hluti í nýju ljósi. Hvað hefur heimurinn í kringum okkur að segja ef við hættum að taka honum sem sjálfsögðum hlut? Eyrún er sjálfstætt starfandi þrívíddar listamaður með áratuga reynslu í stafrænni grafík fyrir kvikmyndir, sjónvarp og auglýsingar.
Samhljómur
Sigmundur Páll Freysteinsson og Halldór Eldjárn sýna seríu af textílverkum frá samstarfsverkefninu þeirra Samhljómur. Maðurinn vinnur stöðugt gegn því að vera hluti af náttúrunni. Líf okkar er fullt af tólum og tækjum sem ýta okkur út í að lifa innan veggja stafrænnar tækni. Í staðinn fyrir að berjast gegn tækninni nýta Sigmundur og Halldór hana á nýstárlegan hátt í samblandi við aldagamalt rótgróið japanskt handverk.
Innsýni
Innsýni fagnar upprennandi íslenskum fatahönnuðum með sýningaropnun á HönnunarMars þriðja árið í röð en í ár verða sex íslenskir fatahönnuðir kynntir. Sýningin styður við markmið Innsýnis sem er að efla og styðja við næstu kynslóð íslenskra hönnuða og veita þeim aðstöðu og skapa grundvöll þar sem þau geta sýnt sköpunarverk sín og myndað tengsl við íslenskan jafnt sem erlendan iðnað.
Gagnvirkar Verndarverur
Sýningin ,,Gagnvirkar Verndarverur" frumsýnir nýjustu línu Saga Kakala af silkislæðum í samstarfi við Maríu Guðjohnsen þrívíddarhönnuð. Í þessari röð af þrívíddarmyndum fá gestir að kynnast ásýnd íslenskra kynjaskepna í undarlegu og nútímalegu ljósi. Skepnurnar hafa það ævintýralega verkefni að standa vörð um íslenskar fornleifar, eða steina sem finnast í íslenskri náttúru.
Þín Skapandi Gervigreind
Með verkinu Þín Skapandi Gervigreind eru styrkleikar og veikleikar gervigreindar í sköpunarferlinu rannsakaðir. Hvernig parast tæknin við mannlega eiginleika eins og upplifun á fegurð, virði og skilning á fjölbreytilegu samhengi?
Hagvextir
Verkefnið nýtir hagfræðigögn til að skapa þrívíða skúlptúra. Hér eru gerðar tilraunir til þess að auka skilning á flóknum upplýsingum með hlutbundinni miðlun. Getur þrívíður skúlptúr aðstoðað við að skilja hluti eins og áhrif stýrivaxta á hversdagslífið?
TROUBLE - Data Sculpted Futures
Hönnunarspjall JOYH veitir innsýn í hönnunaraðferðafræði þar sem notuð eru háþróuð reikniverk, vélnám og sandprentun. JOYH er skapandi hönnunarstúdíó með aðsetur í Vínarborg, sem leggur áherslu á efnisrannsóknir og nýtingu reikniverkfæra þar sem kannaðar eru nýstárlegar aðferðir til að endurskilgreina svið byggingarlistar.