HönnunarMars 2024 - Skartgripahönnun
HönnunarMars er rétt handan við hornið en hátíðin fer fram dagana 24. - 28. apríl og fjölbreytt dagskráin breiðir úr sér um alla borg. Í boði eru um 100 sýningar og 200 viðburðir - eitthvað fyrir öll!
HönnunarMars býður gestum að kynnast því sem liggur að baki þeirra fögru skartgripa sem við prýðum okkur með, sem við gefum öðrum, sem við erfum frá ástvinum, sem við eigum til æviloka. Gestir fá tækifæri til að skoða og fræðast um skartgripahönnun í táknrænu, aðferðafræðilegu og sögulegu samhengi.
ALVÖR
Aurum frumsýnir á HönnunarMars 2024 myndbandsverk eftir Ásgerði Diljá Karlsdóttur og Melkorku Davíðsdóttur Pitt með skartgripum úr væntanlegri skartgripalínu Guðbjargar Kr. Ingvarsdóttur, Alvör. Verkið verður til sýnis í glugga verslunarinnar í Bankastræti 4.
Gullsmiður í vinnustofudvöl - Marta Staworowska
Marta Staworowska er lærður landslagsarkitekt og gullsmiður. Áður en hún flutti til Íslands, fyrir 6 árum, starfaði hún fyrir pólska herinn og var staðsett í Afganistan. Á HönnunarMars 2024 má sjá skartgripi Mörtu í Hönnunarsafni Íslands. Víravirkið er rauði þráðurinn í verkum hennar en aðferðin er æva gömul. Hana má rekja meðal annars til forn Egypta, Grikkja og Rómverja löngu fyrir Krist en víravirki er einnig hluti af íslenska þjóðbúningnum.
Málað með silfri, litað með perlum
Júlíanna Ósk Hafberg er myndlistarkona og hönnuður sem með verkum sínum leggur áherslu á mýkt, kvenlægni og tilfinningar. Á sýningunni í SPJARA á HönnunarMars sýnir Júlíanna skartgripi sína í samtali við abstrakt verk sín úr hinum ýmsu miðlum. Verkin verða sköpuð samhliða og í samtali við skartgripina og ýta þannig undir þær hugmyndir og tilfinningar sem verkin og skartgripirnir kveikja á.
skart:gripur
Skart hefur fylgt mannkyninu frá örófi alda. Þörfin til að skreyta líkama og klæði með skarti er frumstæð og hefur djúpar rætur í menningarsögu allra þjóða. Skartgripir gegna stöðu tungumáls í menningu okkar og samfélagi. Þeir eru frásögn, tákna stöðu, miðla persónuleika og senda skilaboð. Sýning fjölbreytts hóps gullsmiða, skartgripahönnuða og listamanna í Hafnarborg endurspeglar margbreytileika í efnistökum, aðferðum og nálgun í skartgripagerð hér á landi.
Baráttan um gullið
Á HönnunarMars 2024 mun Listasafn Íslands sýna myndverk og smíðisgripi eftir Finn Jónsson (1892–1993) og Jóhannes Jóhannesson (1921–1998), en báðir lærðu þeir gull- og silfursmíði áður en þeir lögðu myndlistina fyrir sig. Gullsmiðir í Félagi íslenskra gullsmiða munu á sama tíma tefla fram nýrri smíði sem hver og einn gullsmiður tengir listaverki á sýningunni Viðnám í Safnahúsinu við Hverfisgötu.