HönnunarMars 2024 - Fyrir heimilið
HönnunarMars er rétt handan við hornið en hátíðin fer fram dagana 24. - 28. apríl og fjölbreytt dagskráin breiðir úr sér um alla borg. Í boði eru um 100 sýningar og 200 viðburðir - eitthvað fyrir öll!
Heimili eru eins ólík og þau eru mörg og öll hugsum við um heimili á hverjum degi. Á HönnunarMars 2024 gefur að líta fjölbreytta hönnun sem snertir heimili. Textíll, keramik, húsgagnahönnun, áhugavert samstarf og fleira koma við sögu. Hér er samantekt um hönnun fyrir heimilið á hátíðinni í ár.
Íslensk hönnun í sinni litríkustu mynd
Verslunin EPAL sýnir úrval af áhugaverðri hönnun eftir fjölbreyttan hóp íslenskra hönnuða sem hafa náð góðum árangri á sínu sviði bæði hérlendis og sumir einnig á erlendri grundu. Epal hefur haft að leiðarljósi frá stofnun árið 1975 að auka skilning og virðingu fyrir hönnun á Íslandi með því að velja hönnun og gæðavörur sem skara fram úr.
Samband/Connection
Í tilefni af HönnunarMars 2024 hefur sýningin Samband/Connection verið sett upp í töskusalnum á Keflavíkurflugvelli. Sýningin sýnir vörur eftir níu íslenska hönnuði sem eiga það sameiginlegt að hafa hannað vörur sem eru þróaðar, framleiddar og seldar í Skandinavíu.
Hæ/Hi: Vol III | Velkomin
Hæ/Hi: Designing Friendship hópurinn, sem er samvinnuverkefni hönnuða og hönnunarteyma frá Íslandi og Seattle, tekur fyrir þá hluti og þær athafnir sem tengjast heimkomu og brottför, móttöku og kveðjustund, á þriðju sýningu sinni, Hæ/Hi: Vol III | Welcome.
BAÐ
Verkefnið BAÐ er samstarfsverkefni fjögurra íslenskra hönnuða fyrir Epal og gengur út á þróun á sígildum og fáguðum vörum sem hafa tengingu við íslenska baðmenningu s.s. sundlaugar, baðlón, heilsulindir, náttúrulaugar o.s.frv. Hönnuðirnir eru Ingibjörg Hanna Bjarnadóttir fyrir vörumerkið IHANNA HOME, Margrét Jónsdóttir leirlistakona, Unnur Valdís Kristjánsdóttir fyrir vörumerkið Flothettu og Sóley Elíasdóttir fyrir vörumerkið SÓLEY.
g(l)azed mirrors
g(l)azed mirrors er hönnunarlína eftir Salóme Hollanders sem samanstendur af þremur gerðum spegla: original g(l)azed mirror, mini g(l)azed mirror og tall g(l)azed mirror. Salóme hannar og framleiðir hvert eintak hér á Íslandi í samstarfi við fagaðila og því fer mikil ást, vandvirkni og tími í gerð hvers spegils.
Heiðanna Ró
Með sinni nýju línu kynnir RÓ meðal annars RÓSEMI legubekk með RÓ futon ullardýnu og RÓ Flóru hugleiðslupúða með innblæstri úr fegurð hráefnanna og litum úr umhverfinu. RÓ byggir hönnun sína á rannsóknum á nýtingu náttúrulegra, staðbundinna og endurnýjanlegra efna.
Ráðlagður dagskammtur
Sýningin samanstendur af vörum úr Huggulegt líf, heimilislínu Lúka þar sem frumsýndar verða nokkrar nýjar afurðir í formi frumgerða og lítilla útgáfa. Lúka vonast til að með því að koma og skoða sýninguna og upplifa rýmið, sem verður m.a. þakið litríkum og mynsturríkum ullartextílum og fallegum formum, fái gestir ráðlagðan dagskammt af hönnun og innblæstri út í daginn.
Bylgjur
Bjarni Sigurðsson sýnir handgerða vasa í mjúkum línum, með skörpum brúnum og grófum, glansandi glerungum. Verk Bjarna einkennast af einföldum, hreinum formum og fjölbreyttum og kröftugum glerungum sem gerir hvert verk einstakt.
Floral Affairs
Samstarfsverkefni á milli listakonunnar Elísabetar Olku og keramikhönnuðarins Arkar Guðmundsdóttur, þar sem listamaður og hönnuður mætast til að vinna við samþættingu myndlistar og hönnunar. Verkin frá Floral Affairs leggja áherslu á sköpun tímalausrar listrænnar hönnunar, frá hagnýtum keramikvösum til svipmikilla veggverka.
Salún á sundi
Salún er íslenskt hönnunarfyrirtæki sem sérhæfir sig í heimilistextíl. Salún leggur áherslu á að upphefja og sameina íslenskan menningararf sem samtvinnast í textíl- og sundlaugamenningu þjóðar. Á HönnunarMars má sjá vörur Salúns en Salún er óður til hins einstaka salúnavefnaðar.
Heima er best
Sýningin Heima er best er vefnaðarsýning Félags íslenskra vefnaðarkennara og vefara. Í tilefni af 50 ára afmæli félagsins er haldin samsýning á verkum félagsmanna í Gallerí Fold. Þema sýningarinnar er "heimilið" í léttum vorlitum og félagsmenn sýna ný og fjölbreytt verk ofin á hefðbundna vefstóla jafnt sem tölvustýrðan vefstól.
Eiginleikar
Hlutir innan heimilisins hafa ákveðna eiginleika. Séu þeir fjöldaframleiddir eru eiginleikar þeirra búnir takmörkum þeim sem vélarnar sem framleiða þá hafa. Séu þeir handgerðir eru þeir háðir því valdi sem hendur og hugur hafa yfir efninu sem þeir eru búnir til úr. Á sýningu Hönnu Dísar Whitehead mætast ólíkir eiginleikar, handverk og stafræn tækni, list og hönnun, leir og strá, viður og ull.