HönnunarMars 2024 - Upplifðu!
HönnunarMars er rétt handan við hornið en hátíðin fer fram dagana 24. - 28. apríl og fjölbreytt dagskráin breiðir úr sér um alla borg. Í boði eru um 100 sýningar og 200 viðburðir - eitthvað fyrir öll!
Upplifðu HönnunarMars 2024! Dagskráin samanstendur af fjölbreyttum viðburðum sem vekja skilningarvitin til lífsins. Bragða má á innsetningu, finna bókailm, kynnast iðrum jarðar og ýmislegt fleira.
Að Náttúru Verður
Í innsetningunni 'Að Náttúru Verður' skapar Maria Ader ætt berg, steina, íshnullunga og annað sem finnst í íslenskum hellum og náttúru. Innsetningin er framsett með litríkri framtíðarsýn og er innblásin af Höfuðstöðinni og Chromo Sapiens eftir Hrafnhildi Arnardóttur / Shoplifter. Gestir fá tækifæri til að gæða sér á innsetningunni. Verkið verður kynnt ásamt hljómflutningi frá raftónlistarmanninum DJ Tapes.
ÓStöðugleiki - Reykjanes rumskar
Fyrir íbúa Reykjanesskaga og höfuðborgarsvæðisins hafa samskipti okkar og skilningur á jarðfræði nærumhverfisins átt tilhneigingu til að takmarkast við jarðskjálfta sem vara nokkrar dramatískar sekúndur, eða þá stórkostlegu sýn þegar ný jörð lítur dagsins ljós. En undanfarnir sex mánuðir hafa breytt sambandi okkar við hamskipti jarðarinnar. Á sýningunni ÓStöðugleiki fá gestir dýpri innsýn inn í það sem gerist neðanjarðar og er boðið að skoða gagnvirkt kort af Reykjanesskaga sem líkir eftir jarðskjálfta á svæðinu og gefur þannig áþreifanlega og sjónræna upplifun af þeim áhrifum sem jarðfræðileg öfl hafa á okkur.
Hljómkassar
Verkefnið „Hljómkassar“ miðar að því að hanna og smíða nýstárlega, stefnuvirka hátalara úr íslenskum efnivið. Lögun hátalaranna hefur áhrif á hvernig hljóðið kastast út í umhverfi sitt og litast hljómurinn af því og gefur því akústískan blæ. Hátalararnir eru hugsaðir fyrir tónlistarfólk þar sem þeir nýtast í hljóðupptökur og lifandi flutning. Verkefnið er unnið í samstarfi við Inorganic Audio sem er íslenskt hljóðtæknifyrirtæki sem sérhæfir sig í hugbúnaði fyrir tónlistarfólk.
Borð nr. 1
Fjórir tónlistarmenn taka þátt í gjörningi sem hefst með matarveislu við Borð nr. 1. Í lok hennar eru matarföng fjarlægð og leikendur opna lok á borðinu fyrir framan sig þar sem hljóðfæri birtast fyrir framan hvern og einn. Hefst þá tónlistarflutningur, eða tónlistarveisla, við borðið. Til þess að sýningargestir nái að fylgjast vel með því sem gerist við borðið er myndavél staðsett fyrir ofan það og öllu sem gerist þar varpað á vegg. Forskráningar er krafist á þennan viðburð.
Miklo x Pastel
Á HönnunarMars 2024 kynna Studio Miklo og Pastel Blómastúdíó skúlptúríska blómavasa úr steinleir með óhefðbundnum og listrænum blómaskreytingum. Andrá hýsir sýninguna sem er innblásin af náttúrunni þar sem lífræn form, lifandi blóm og grófir eiginleikar leirs fá að njóta sín. Áhorfandanum er boðið upp á litríka sjónræna upplifun þar sem list og náttúra renna saman í eitt.
Eldblóm, hvernig dans varð að vöruhönnun
Japanska orðið yfir flugelda er hanabi en hana þýðir eldur og bi þýðir blóm. Japanir tala því um eldblóm. Síðastliðin ár hefur Sigga Soffía dansari unnið með þessi hugrenningatengsl í lofti og á láði og hannað flugeldasýningar út frá kóreógrafíu. Þá hefur hún hannað ræktanlega flugeldasýningu blóma, nánar tiltekið blómainnsetningu sem springur út eftir sáningarforskrift. Nýjasta viðbótin við Eldblómaverkefnið er ilmur, drykkjarföng og matvörur auk fjölbreyttrar vöru- og upplifunarhönnunar. Gestir HönnunarMars 2024 sem leggja leið sína á Hönnunarsafn Íslands fá tækifæri til að upplifa hönnun Siggu Soffíu.
Möl, Steinar & Grjót
Á sýningunni má sjá og upplifa vörur þróaðar sérstaklega fyrir HönnunarMars: mjög takmarkað upplag af nostalgískum bókarilmi og handgerðri bók. Sýningin er samvinna Fischersund og Jóns Alberts. Fischersund gefur út ilm sem er innblásinn af hlýjum faðmi gamalla bóka, söknuði og keðjureykingum. Jón er að gefa út bók sem fjallar um heimþrá, bókabúðina á horninu og liðna tíð og yfir sýningartímann verður hann með gjörninga þar sem hann býr til sínar eigin bækur.
Speglun
Arkitektinn Davíð Georg hannaði sýninguna "Speglun" sérstaklega fyrir nýopnaða flaggskipsverslun Rammagerðarinnar í Kirkjuhúsinu að Laugavegi 31. Til sýnis verða handgerð Ilmker sem er afrakstur ríkulegs samstarfs Rammagerðarinnar, leirkerasmiðsins Aldísar Einarsdóttur, glerblásarans Anders Vange og ilmhússins Fischersund. Með þessari samþættingu ýmissa listrænna miðla og skynjunarþátta, miðar „Speglun“ að því að endurskilgreina hefðbundin sýningarviðmið og bjóða upp á öðruvísi leiðir til að upplifa handverk og ilm í rýmislegu samhengi.
CODAPENT
Codapent er nýtt lyf á markaðnum sem býður upp á skjótan bata við meðvirkni. Nú eru komnir í framleiðslu heilandi keramikskúlptúrar unnir út frá partavinnu (Part Therapy) en hafa þann eiginleika að vera einnig pilluglös Codapents. Codapent-teymið mun kynna leiðir að bataferli og varpa ljósi á hvernig tilfinningar framkallast í efniviði. Viðburðurinn stendur yfir í u.þ.b. klukkustund í heimahúsi í miðbænum þar sem gestgjafinn Margrét Rut Eddudóttur mun bjóða upp á léttar veitingar. Forskráningar er krafist á þennan viðburð.
Dýpi
Í tilefni HönnunarMars hefur VEST boðið danska glerlistamanninum Anders Vange og Shoplifter / Hrafnhildur Arnardóttur, einum af okkar fremstu listamönnum, að sýna ný glerverk í glæsilegum sýningarsal VEST. Titill sýningarinnar, Dýpi / Abyss, er tilvísun í duldar óravíddir þar sem ennþá er verið að uppgötva nýjar verur og plöntur úr dýpstu lífríkjum jarðar. Í myrku djúpi má finna náttúruundur sem líkjast helst þeim myndbirtingum sem við ímyndum okkur af lífi úr fjarlægum geimþokum.
Ilmur & Sjór: Opnunarviðburður náttúrulegrar ilmgerðar
Ilmur & Sjór býður gestum HönnunarMars 2024 að upplifa íslenska náttúru gegnum töfraheim ilmsins. Sýningin er óður til anganar íslenskrar náttúru og gestir fá að upplifa kynnast ilmtríóinu – Grasið 9, Mosinn 33 og Skógurinn 17 og nýjasta sköpunarverkinu, Sedrusambur 16.
Florest
Í FLOREST lítur And Anti Matter til sovéskra leikvalla og brútalískrar byggingarlistar, mið-evrópskrar verkamannastéttar og framtíðartækni. Úr hörkunni spretta plöntur og bláklæddar mynsturverur vökva gróðurinn. Hljóð handa blómum umlykja tvívíðar myndir unnar með týndum tækjum. Um er að ræða innsetningu And Anti Matter sem sett er upp í einstöku gróðurhúsi í nærumhverfi aldraðra íbúa að Lönguhlíð 3 en þar býður &AM gestum að koma og vaxa með sér.
Samruni
Omnom og Theódóra Alfreðsdóttir skoða hvernig nýta má hýði kakóbauna, eða husk, sem fellur til við umbreytingu baunanna yfir í súkkulaði. Dag hvern hjá Omnom falla til um sex kíló af þessari náttúrulegu aukaafurð. Með samstarfinu renna súkkulaðið, endaafurðin og huskið, aukaafurðin saman í eitt, í súkkulaðimola. Farið verður með fólk í ferðalag í gegnum átta stöðvar þar sem hver moli er innblásinn af íslenskri menningu eða náttúru, allt frá birki og byggi yfir í lakkrísþráhyggju, 10 dropa af kaffi og sjónvarpsköku. Hver og einn moli er handgerður af natni og byggður í kringum form Theodóru. Forskráningar er krafist á þennan viðburð.
Hönnunarverðlaun Íslands
Hönnunarverðlaun Íslands varpa ljósi á mikilvægi og gæði hönnunar og arkitektúrs á Íslandi með áherslu á áhrif þeirra á lífsgæði, verðmætasköpun og sjálfbærni fyrir samfélagið allt. Í tilefni af því að rúm 10 ár eru síðan verðlaunin voru fyrst veitt verða framúrskarandi verkefnum og verkum sigurvegara Hönnunarverðlauna Íslands 2023 gerð skil á nýrri sýningu á HönnunarMars 2024.
Feik eða ekta?
Hugverkastofan, Epal og React - alþjóðlegt samstarfsnet fyrirtækja gegn fölsunum, bjóða til sýningar á HönnunarMars dagana 23. - 26. apríl í tilefni af Alþjóðahugverkadeginum 26. apríl. Hægt verður að skoða sýnishorn af fölsuðum vörum og bera saman við ekta fyrirmyndir og taka þátt í getraun um hvaða vörur eru ekta og hverjar ekki. Í verðlaun er ekta hönnunarvara í boði Epal.