HönnunarMars 2024 - Fyrir fjölskylduna
HönnunarMars er rétt handan við hornið en hátíðin fer fram dagana 24. - 28. apríl og fjölbreytt dagskráin breiðir úr sér um alla borg. Í boði eru um 100 sýningar og 200 viðburðir - eitthvað fyrir öll!
HönnunarMars er tilvalið tilefni fyrir börn og fjölskyldur til að hrista upp í hvunndeginum. Margir viðburðir höfða sérstaklega til barna eða eru jafnvel búnir til af börnum. Smiðjur, barnabækur og afbyggð leikföng eru meðal þess sem koma við sögu. Skoðaðu viðburðina hér að neðan til að vita meira.
Mannlíf, byggð og bæjarrými
Hvernig glæðum við göturnar mannlífi? Hve mikið af göturýminu fer undir bílastæði og hver borgar fyrir þau? Hvernig getum við tryggt skilvirkar samgöngur í líflegri og þéttri byggð? Á Hönnunarmars 2024 gefst tækifæri til þátttöku í gagnvirkum vinnustofum til að öðlast betri skilning á skipulagi þéttbýlis. Vinnustofan eru fyrir alla aldurshópa og eru börn sérstaklega velkomin.
Vaxtaverkir
Vaxtaverkir er upplifunarsýning með áherslu á gagnvirka fræðslu, ímyndunarafl og leikgleði þar sem gestir fá innsýn í veröld grunnskólabarna í Reykjavík á árabilinu 1898-1974. Sýningin byggir á rannsóknarniðurstöðum Borgarsögusafns og hönnun sýningarinnar er í höndum hönnunarteymisins ÞYKJÓ, í samtali og samstarfi við börn. Allt starf ÞYKJÓ miðar að því að örva ímyndunarafl og kveikja forvitni og sköpunarkraft barna.
Undur hugmynda
Á HönnunarMars býður Elliðaárstöð til nokkurra fjölskylduviðburða sunnudaginn 28. apríl þar sem lögð verður áhersla á nýsköpun, hönnunarhugsun og hugmyndaheim barna. Börn og fjölskyldur þeirra geta tekið þátt í fjölbreyttri dagskrá eða notið samveru í fallegu umhverfi Elliðaárstöðvar. Meðal annars má sækja upplifunarviðburð Á Bístró í samstarfi við VAXA Technologies, skoða raftextílsýningu og taka má þátt í raftextílsmiðju, búa til bát í nýsköpunarsmiðju, fræðast um orku og kaupa hönnunarvörur í pop-up verslun.
Byggingarlist, Breiðholtið og borgin okkar
Tilraunir, rannsóknir og módel af húsum framtíðarinnar, séð með augum tíu ára barna, verða í anddyri Norræna hússins á meðan HönnunarMars stendur yfir. Á sýningunni má sjá verk nemenda Hólabrekkuskóla sem unnin voru í vetur í samstarfi við kennara og fræðslufulltrúa Norræna hússins.
Matti og Maurún - hulinn heimur íslenskra maura
Sýning og útgáfa myndlýstrar barnabókar um íslenska maura, Matti og Maurún - Hulinn heimur íslenskra maura, verður opin gestum HönnunarMars 2024. Á sýningunni má skoða furðuverk mauraríkisins, rýna í myndheiminn sem Laufey Jónsdóttir skapaði fyrir bókina og sjá íslenska maura stíga á stokk í iðandi maurabúi.
Eldblóm, hvernig dans varð að vöruhönnun
Japanska orðið yfir flugelda er hanabi en hana þýðir eldur og bi þýðir blóm. Japanir tala því um eldblóm. Síðastliðin ár hefur Sigga Soffía dansari unnið með þessi hugrenningatengsl í lofti og á láði og hannað flugeldasýningar út frá kóreógrafíu. Þá hefur hún hannað ræktanlega flugeldasýningu blóma, nánar tiltekið blómainnsetningu sem springur út eftir sáningarforskrift. Hönnun Siggu Soffíu má upplifa í Hönnunarsafninu en þar að auki er fjölskyldum boðið þann í skapandi smiðju í Hönnunarsafninu þann 27. apríl, á vegum HönnunarMars og Barnamenningarhátíðar, þar sem rækta má sín eigin þykjó blóm úr silkipappír, ullargarni og fjölbreyttum efnivið. Leiðbeinendur eru Sigga Soffía og Sigga Sunna, eigandi Þykjó.
Eldur, ís og mjúkur mosi
Sýningin Eldur, ís og mjúkur mosi er afrakstur samstarfs Náttúruminjasafns Íslands, Vatnajökulsþjóðgarðs, sex grunn- og leikskóla í nágrenni þjóðgarðsins auk eins á höfuðborgarsvæðinu, og breiðs hóps hönnuða og listafólks í heimabyggð skólanna. Verkefnið miðaði að því að beisla sköpunarkraft barnanna, sem fengu þýðingarmikinn vettvang til að túlka náttúru garðsins, verndargildi hans og sögu með aðstoð hönnuða og listafólks í fremstu röð.
Byggingarnar okkar
Barnabókin Byggingarnar okkar fjallar um þá strauma og stíla sem að einkenna íslenska byggingarlistasögu frá torfhúsum til steinsteyptra húsa á einfaldan hátt með það að markmiði að sem flestir geti lesið um og í byggingarnar í umhverfinu okkar. Í tilefni af HönnunarMars og Barnamenningarhátíð verður rafræn útgáfa af bókinni til sýnis í Borgarsögusafni þar sem gestir geta tryggt sér eintök í forsölu.
Rocky in Nangijala/ This Is Not A Toy!
Marsibil Sól vöruhönnuður sýnir kunnugleg leikföng sem hafa fengið ný hlutverk í Smiðsbúðinni. Sýnd eru tvö verkefni, Rocky In Nangijala og This Is Not A Toy! þar sem þekkt leikföng eru afbyggð til að opna á þær margbrotnu túlkunarleiðir sem leikurinn getur boðið upp á.