Listaháskóli Íslands á HönnunarMars 2024
HönnunarMars er rétt handan við hornið en hátíðin fer fram dagana 24. - 28. apríl og fjölbreytt dagskráin breiðir úr sér um alla borg. Listaháskóli Íslands tekur þátt í hátíðinni í ár með fjölbreyttum viðburðum víðsvegar um borgina.
Útópíska prentverkstæðið
Í námi sínu í grafískri hönnun við Listaháskóla Íslands fá nemendur aðgang að margskonar prenttækjum og aðferðum á prentverkstæðunum í Þverholti og Laugarnesi. Á sýningu HönnunarMars 2024 verða sýnd verk sem unnin voru á þessum prentverkstæðum af nemendum á 1. og 2. ári í grafískri hönnun 2023-2024.
Tískusýning útskriftarnema í fatahönnun LHÍ
Sex nemendur í fatahönnun við Listaháskóla Íslands kynna BA-útskriftarverkefni sín á tískusýningu í Hörpu á HönnunarMars. Lokaverkefni nemenda í fatahönnun er einstaklingsverkefni sem samanstendur af frjálsri rannsókn, hönnun og gerð á línu af tískufatnaði undir handleiðslu leiðbeinenda. Tískusýning útskriftarnema í fatahönnun er hluti af viðamikilli dagskrá útskriftarhátíðar Listaháskóla Íslands.
Undan Esju
Nemendur á fyrsta ári í vöruhönnun við LHÍ bjóða í ferðalag um Esjuhlíðar þar sem gestir fá aðra sýn á landslagið í gegnum mismunandi miðla og skynfæri. Verk nemendanna liggja á víð og dreif um fjallshlíðina en um er að ræða innsetningar innblásnar af umhverfi Esjunnar þar sem samband náttúru og manns var skoðað. Verkefnin eru afrakstur tveggja vikna vinnustofu og fjalla um ólík viðfangsefni og mismunandi túlkanir nemenda á umhverfinu.
Þekkir þú fjallið?
Þekkir þú fjallið er samsýning Fatasöfnunar Rauða krossins, Hringrásarklasans og námsbrautar í fatahönnun við Listaháskóla Íslands. Hugmyndin er að varpa ljósi á ofgnótt textíls og mikilvægi þess að fólk og fyrirtæki vinni í sameiningu að því að draga úr sóun og skapa hringrás textíls, náttúrunni og framtíðarkynslóðum til heilla.