HönnunarMars fyrir umhverfið
HönnunarMars er rétt handan við hornið en hátíðin fer fram dagana 3. til 7. maí nk. og breiðir úr sér um alla borg. Rúmlega 100 sýningar og 120 viðburðir eru á dagskrá í ár og því ættu öll að finna eitthvað við sitt hæfi.
Hönnun og arkitektúr eru í leiðandi hlutverki þegar kemur að því að gera raunverulegar samfélagslegar og hnattrænar breytingar sem miða að því að hafa jákvæð áhrif á umhverfið. Flest allir hönnuðir nútímans leggja áherslu á sjálfbærni, hringrásahagkerfið og fullnýtingu hráefna. Allir viðburðir HönnunarMars snerta á þessu málefni á beinan eða óbeinan hátt. Hér eru þó nokkrir hlutir sem einblína sérstaklega á hönnun í samtali og sátt við umhverfið.
Aska Bio Urns - Í faðmi náttúrunnar
Aska Bio Urns vill útbúa sjálfbærar og vistvænar lausnir til að minnast ástvina. Duftkerin sem Aska Bio Urns framleiðir eru niðurbrjótanleg, framleidd úr endurunnum pappír, sem dregur úr úrgangi, minnkar kolefnislosun og varðveitir náttúruauðlindir. Fyrirtækið vill stuðla að grænni framtíð og hjálpa til við að vernda og hlúa að umhverfinu fyrir komandi kynslóðir. Duftkerin verða til sýnis í Epal, Skeifunni.
BioBuilding: Framtíð ræktuð fyrir Steinsteypueyjuna
BioBuilding er tilrauna- og þróunarverkefni þar sem þróaðar eru aðferðir við að nota iðnaðarhamp sem ræktaður er á Íslandi sem lífrænt byggingarefni, aðlagað að íslenskum aðstæðum. Sýningin fer fram í Slökkvistöðinni, Gufunesi.
Framhald í næsta poka
Framhald í næsta poka er samstarfsverkefni Krónunnar og Hönnunarmars þar sem taupokar viðskiptavina okkar eignast nýtt og spennandi framhaldslíf. Stúdíó Flétta mun taka við gömlum taupokum og hanna nýja, vandaða og eftirtektarverða taupoka úr þeim. Þannig verða endurunnir pokar að listaverki og hönnunarvöru sem um leið stuðlar að sjálfbærni og endurnýtingu. Pokarnir verða til í Krónunni á Granda á meðan HönnunarMars stendur en heppnir viðskiptavinir Krónunnar gætu einnig fundið þá á pokastöðvum verslana þar sem þeim verður komið fyrir.
Lúpínan í nýju ljósi
Alaskalúpína er vannýtt, sjálfbær auðlind sem vex í stórum breiðum víða á Íslandi. Hún dafnar vel og þarfnast ekki áburðargjafar né innflutnings á fræi. Rannsóknarverkefninu „Lúpína í nýju ljósi, trefjaefni framtíðar“ sem styrkt var af Tækniþróunarsjóði til tveggja ára, er nýlega lokið. Afrakstri þess verður miðlað í gróðurhúsinu við Norræna húsið í máli og myndum, ásamt sýnishornum af trefjaefni úr alaskalúpínu.
Melta: Matur, Mold og Mennska
Melta er ný closed-loop hringrásarlausn fyrir lífrænan heimilis“úrgang“ sveitarfélaga á landsbyggðinni og framleiðsla á gerjuðum lífrænum áburði. Sýningin Matur, Mold og Mennska er innsýn í ferlið og mikilvægi þess að beita bæði þjónustu- og upplifunarhönnun við uppbyggingu á hringrásarsamfélögum framtíðarinnar. Sýningin fer fram í Slökkvistöðinni.
Nærvera
Nærvera er sýning á nýjum peysum textílhönnuðarins Ýrúrarí á Hönnunarsafni Íslands, í sýningarstjórn hönnunarteymisins Stúdíó Fræ. Ferlið við gerð sýninguna byggist á tilraunum með fjölbreyttar textíl-nálganir sem veita ósöluhæfum peysum úr endurvinnslustöðvum sterkari nærveru svo þær haldist í notkun um ókomna tíð. Í anda fyrri verkefna Ýrúrarí eru peysurnar unnar á húmorískan hátt með leikgleði að leiðarljósi. Hönnunarsafn Íslands þjófstartar HönnunarMars með opnun sýningarinnar föstudaginn 28. apríl frá kl. 18 – 20 ásamt opinni smiðju sunnudaginn 30. apríl frá kl. 13 – 15.
REEL – Tobia Zambotti™
„REEL“ er lína af kaffiborðum sem sameinar Polygood™ (endurnýtingu) og förguð kapalhjól (uppvinnsla). Línan sameinar tvö endurvinnsluferli; endurnýtingu og uppvinnslu. Polygood™ platan er nýtt sem efsta yfirborð borðsins á meðan kapalhjólin mynda form þess, og undirstrika með því mikilvægi þess að skapa sjálfbært húsgagn sem áður þjónaði iðnaðartengdum tilgangi. Sýningin fer fram í S/K/E/K/K á Óðinsgötu.
Borgartunnan
Borgartunnan er fyrsta útiflokkunartunnan sem er hönnuð sérstaklega fyrir íslenskar aðstæður og umhverfi með möguleika á snjallvæðingu. Hún er nú fáanleg í þremur gerðum fyrir bæjarfélög og fyrirtæki. Allar þrjár stærðir Borgartunnunar verða til sýnis og í notkun á HönnunarMars í kringum Bæjarins Bestu á horni Tryggvagötu og Pósthússtrætis.
Úthverfa
Úthverfa snýst um að uppvinna gömul púðaver frá Marokkó, þar sem rangan er „nýr“ og spennandi efniviður sem verður að einstökum töskum. Sýningin fer fram í garðskála á Óðinsgötu 8b.