HönnunarMars fyrir vellíðan
HönnunarMars er rétt handan við hornið en hátíðin fer fram dagana 3. til 7. maí nk. og breiðir úr sér um alla borg. Rúmlega 100 sýningar og 120 viðburðir eru á dagskrá í ár og því ættu öll að finna eitthvað við sitt hæfi.
Í hátíðaramstrinu er mikilvægt að gera sér tíma til þess að staldra við og hlúa að eigin vellíðan. Hér eru nokkrir viðburður sem einblína á að gera vellíðan að hluta af daglegu lífi á ólíkan máta.
Hlaupið um arkitektúr
Arkitektafélag Íslands býður nú í annað sinn upp á hlaupaviðburð á HönnunarMars. Arkitektar munu leiða þig um fjölbreytt og margslungið umhverfi borgarinnar á hlaupum. Hlaupin fara fram helgina 6. og 7. maí. Engin þarf að óttast þótt hlaupaformið sé ekki upp á tíu, þetta er ekki heimsmeistaramót í hlaupi. Allir ættu því að geta notið þess að upplifa borgina á nýjan hátt með örlítið örari hjartslátt en vanalega.
Afgangs auðlind verður að veröld vellíðunar
Töfrar Bláa Lónsins eru sprottnir upp úr náttúrulegri hringrás sjávar og jarðhita. Kraftar hennar skapa einstakt umhverfi þar sem náttúra, hönnun og sjálfbærni sameinast með heillandi hætti. Á sýningunni verður sagt frá því hvernig hönnun er notið til að þróa og skapa vörur og upplifanir sem móta einstaka veröld lónsins. Gestir einnig upplifað veröldina á eigin skinni í Mist, innsetningu listakonunnar Þórdísar Erlu Zoega.
Swimslow
Sundfatamerkið Swimslow kynnir tímaritið „The Swimslow Wellness Guide“ sem er uppfullt af vellíðunarinnblæstri og fangar hugarheim merkisins. Swimslow heldur einnig innflutningspartýi í nýju stúdíói og showroomi á Seljavegi 2, fimmtudaginn 4. maí kl. 19 - 21.
Fró(u)n
Hönnunarrannsókn sem hefur það að markimiði að búa til kynlífsleikföng úr postulíni og íslenskum leir. Antonía Berg og Elín Margot, sem fara fyrir verkefninu, eru alltaf að leita nýrra róttækra leiða til þess að tengjast náttúrunni. Hugtakið vistkynhneigð vísar til þess að líta á jörðina sem elskhuga, frekar en móður. Með því að nota staðbundin leir gerir Fró(u)n tilraun til þess að blætisdýrka íslenska jörð og býður notendum að koma fram við náttúruna af ást.
Athugið, sýningin fer fram á Hafnartorgi.
URÐ x IBA
URÐ í samstarfi við textílhönnuðinn Ingu Björk ,sem starfar undir nafninu IBA, kynnir fylgihlutalínu úr handlituðu silki sem eru follkomnar fyrir þau sem eruð leita að meiri vellíðan í daglegu lífi. Um er að ræða augnhvílur saumaðar úr afskurði af handprentuðum silkibútum sem innihalda íslenskt bygg og lavender og handlituð silkikoddaver. Sýningin fer fram í Epal í Skeifunni.