Hugmyndasamkeppni um Miðbæjargarð í Mosfellsbæ
Mosfellsbær í samstarfi við Miðstöð hönnunar og arkitektúrs efnir til opinnar hugmyndasamkeppni um nýjan bæjargarð og upplifunar- og áningarstað í miðbæ Mosfellsbæjar. Skilafrestur til 21. mars.
Tilgangur samkeppninnar er að skapa spennandi svæði í miðbænum sem íbúar og gestir eiga greiðan aðgang að. Nýjum miðbæjargarði og upplifunar- og áningarstað er ætlað að breyta hvort tveggja notagildi og ásýnd svæðisins með jákvæðum hætti.
Mosfellsbær er ört stækkandi sveitarfélag og hefur íbúum fjölgað um 30% á síðastliðnum fimm árum en íbúar Mosfellsbæjar eru nú um 13.000. Bærinn hefur verið að breytast og þróast með þéttari og fjölbreyttari uppbyggingu íbúðarhúsnæðis og þjónustu. Miðbær Mosfellsbæjar við Bjarkarholt, Þverholt og Háholt hefur tekið miklum breytingum með aukinni uppbyggingu þjónustu, íbúðarhúsnæðis og nýjum framhaldsskóla Mosfellsbæjar. Mikilvægur hluti þéttrar uppbyggingar er að glæða miðsvæðið lífi og grænni ásýnd enda er Mosfellsbær þekktur fyrir nálægð sína við náttúru og útivist. Fyrir vikið er bærinn jafnan sagður vera „sveit í borg“. Bæjarstjórn Mosfellsbæjar hefur væntingar til að sjá fjölbreytta upplifun og útivistarmöguleika í garðinum. Garðurinn er mikilvæg viðbót við þá uppbyggingu sem þegar hefur átt sér stað, hann verður um hálfur hektari að stærð og mikilvægur hluti miðbæjarins samkvæmt deiliskipulagi.
Markmið
Markmið hugmyndasamkeppninnar um svæðið er að auka jákvæða upplifun íbúa í miðbæ Mosfellsbæjar og er hugmyndafræði hans miðuð út frá framtíðarsýn bæjarins: „Mosfellsbær er fjölskylduvænt, heilsueflandi og framsækið bæjarfélag sem setur umhverfið í öndvegi og hefur þarfir og velferð íbúa að leiðarljósi.“
- Skapa áningarstað í miðbænum sem aðgengilegur er almenningi og kallar á fólk að dvelja þar og eiga góða stund eða upplifun.
- Glæða nýjan miðbæ líflegu mannlífi.
- Færa öllum íbúum stað til þess að dvelja jafnt að sumri sem og vetri.
- Innleiða grænt umhverfi og ásýnd inn í þétta og vandaða uppbyggingu svæðisins.
- Kalla eftir frumlegum og ólíkum hugmyndum um upplifun og tækifærum svæðisins sem alla jafna eru ekki í almennum skrúð- eða listigörðum.
- Í garðinum er gert ráð fyrir byggingingarreit fyrir kaffi- eða veitingahús og flæðir garðurinn þar í kring. Hönnun og útfærsla á kaffihúsi er ekki hluti af samkeppninni.
Áherslur dómnefndar
Dómnefnd metur innsendar tillögur út frá því hvernig tillagan kemur til móts við tilgang samkeppninnar eins og þeim er lýst í markmiðum keppninnar í samkeppnislýsingu þessari og út frá keppnisgögnum sem vísað er til.
Við mat á innsendum tillögum horfir dómnefnd einkum til sterkrar heildarhugmyndar, listræns gildis og praktískrar hagnýtingar tillögu.
- Tillagan er nýstárleg í hönnun og útfærslu grænna svæða skrúð- og listigarða.
- Tillagan kallar með einhverjum hætti á sérkenni og/eða sögu Mosfellsbæjar.
- Tillagan fellur vel að uppbyggingu Bjarkarholts, miðbæjarins og Mosfellsbæjar í heild sinni.
- Tillagan ýtir undir mannlíf og umgang á svæðinu.
- Tillagan leggur áherslu á jákvæða og skemmtilega upplifun og útiveru.
- Tillagan afmarkar greinlega áningarstaði innan garðsins og leitast við að fá fólk til þess að dvelja eða verja tíma sínum á staðnum.
- Tillagan tekur mið af íslenskri veðráttu og árstíðum með þeim hætti að svæðið geti nýst á fjölbreyttum tímum árs.
- Tillagan nær að gefa göturýminu græna ásýnd og að fanga upplifun almenningsrýmis þrátt fyrir þétta uppbyggingu í kring.
- Tillagan hefur að leiðarljósi að efla áhuga á miðbænum og búsetu í nágrenninu.
- Tillagan stuðlar að heildrænni ásýnd miðbæjarins, góðum tengslum við mannvirki staðarins og önnur nálæg útivistarsvæði og eða áningarstaði.
- Tillagan ýtir undir notkun vistvænna lausna í innviðauppbyggingu, svo sem stíga, grænna svæða, ofanvatns eða mannvirkja.
- Útfærslur tillögu eru framkvæmanlegar og taki tillit til hlutverks og ábyrgrar fjármálastjórnunar sveitarfélagsins.
Dómnefnd og ritari dómnefndar
- Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar, formaður dómnefndar
- Guðmundur Hreinsson, byggingafræðingur
- Kristinn Pálsson, arkitekt og skipulagsfulltrúi Mosfellsbæjar
- Katrín Ólína Pétursdóttir, hönnuður, deildarforseti Hönnunardeildar LHÍ
- Lilja Kristín Ólafsdóttir, landslagsarkitekt FÍLA
Ritari dómnefndar og trúnaðarmaður:
- Gerður Jónsdóttir, Miðstöð hönnunar og arkitektúrs
Öllum fyrirspurnum og athugasemdum skal beint til trúnaðarmanns.
Dómnefnd er heimilt að leita eftir áliti utanaðkomandi sérfræðinga um einstök atriði telji hún þess þörf.
Tilhögun samkeppni
Um er að ræða hugmyndasamkeppni sem verkkaupi, Mosfellsbær heldur. Samkeppnin er opin öllum, fagfólki, hönnuðum og arkitektum í samstarfi við aðra fræði- og faghópa og er sérstaklega hvatt til þverfaglegrar nálgunar.
Keppnisgögn
Fyrirspurnir
Frestur til að senda inn fyrirspurnir rennur út á miðnætti 26. janúar 2022. Fyrirspurnum skal beint til ritara á netfangið: samkeppni@honnunarmidstod.is. Ritari mun leggja afrit af þeim fyrir dómnefnd. Gert er ráð fyrir að svör við fyrirspurnum liggi fyrir mánudaginn 31. janúar 2022 og birtist á heimasíðu Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs.
Tungumál
Tungumál samkeppninnar er íslenska. Öllum tillögum skal skilað á íslensku. Dómnefndarálit verður gefið út á íslensku.
Skilaform og afhending
Tillögum skal skilað á pdf-formi í gegn um WeTransfer á netfangið samkeppni@honnunarmidstod.is. Tillöguarkir skulu að minnsta kosti innihalda eftirfarandi:
- Yfirlitsmynd í mælikvarða 1:2000 sem sýnir heildarskipulag svæðis og tengsl við nærliggjandi svæði.
- Útlitsmyndir sem sýna heildarhugmynd tillögunnar.
- Skýringarmyndir, fjarvíddar- og rúmmyndir af svæðinu, sem höfundar telja nauðsynlegar til að skýra hugmyndir sínar.
- Allt að 2000 orða greinargerð.
Í greinargerð skal eftirfarandi koma fram:
- Meginhugmynd tillögunnar, helstu forsendur hennar ásamt markmiðum og áherslum höfunda.
- Lýsing á því með hvaða hætti tillagan ýtir undir eða eykur mannlíf í miðbæ Mosfellsbæjar með heildar samhengi svæðisins í huga.
- Lýsing á því hvernig hönnun dregur fólk að og gerir svæðið að greinilegu almenningsrými.
- Hvernig eða hvort hugmyndin leiti með einhverjum hætti í sögu eða sérstöðu Mosfellsbæjar.
- Hvernig tillagan ýtir undir samveru, upplifun eða útivist með nýstárlegum og frumlegum inngripum í svæðið og umhverfi.
- Hvernig tillagan nýtir vistvænar lausnir í útfærslum á grænum svæðum, stígum eða mannvirkjum.
Tillögum skal skila á pdf-formi eða í rafrænni framsetningu í gegnum vefsíðuna WeTransfer á netfangið samkeppni@honnunarmidstod.is fyrir miðnætti mánudaginn 21. mars 2022.
Tillögur skulu merktar með sex tölustafa auðkennisnúmeri sem þátttakendur velja sjálfir. Með tillögunni skal einnig senda skjal/nafnamiða með sama auðkennisnúmeri sem inniheldur uppplýsingar um þátttakendur ásamt nafni, netfangi og símanúmeri tengiliðar hópsins. Ritari er sá eini sem sér þær upplýsingar. Tillögu er veitt viðtaka berist hún innan tilgreinds skilafrests og nafnleyndar sé gætt.
Þegar farið er inn á WeTransfer er hægt að velja Take me to Free eða Get WeTransfer Pro. Almennt er nóg að velja Take me to Free nema ef sendandi er með Pro aðgang.
- Hlaðið niður skjölunum, ,,+ Add your files”.
- Setjið inn netfang móttakanda: Email to samkeppni@honnunarmidstod.is
- Setjið inn netfang sendanda: Your email xxx@xxx.xx
- Ýtið á ,,Transfer”.
Mosfellsbær áskilur sér rétt til þess að efna til almennrar sýningar á innsendum tillögum að loknum störfum dómnefndar.
Tímalína samkeppni
- Skilafrestur fyrirspurna 26. janúar 2022
- Svör við fyrirspurnum 31. janúar 2022
- Skilafrestur tillagna 21. mars 2022
- Niðurstaða dómnefndar 21. apríl 2022
Úrslit
Dómnefndarstörfum lýkur með dómnefndaráliti og útnefningu vinningstillögu. Veitt verða verðlaun fyrir þrjár bestu tillögurnar.
- Fyrstu verðlaun: kr. 2.500.000.
- Önnur verðlaun: kr. 1.000.000.
- Þriðju verðlaun: kr. 500.000.
Haldin verður sýning á öllum keppnistillögum, sem uppfylla skilyrði keppninnar. Tillögurnar verða sýndar undir höfundarnafni.
Stefnt er að því að semja við vinningshafa um frekari hönnun, útfærslu og framkvæmd tillögunnar. Náist ekki samningar milli Mosfellsbæjar og höfundar vinningstillögu innan sex (6) mánaða frá tilkynningu um niðurstöðu samkeppninnar er verkkaupa heimilt, en ekki skylt, að ganga til samninga við höfunda annarra keppnistillagna um útfærslu og framkvæmd tillagna þeirra.
Hagnýting keppnistillagna
Allar innsendar samkeppnistillögur teljast höfundarvarin verk, og njóta höfundar þeirra verndar og þeirra réttinda sem kveðið er á um í íslenskum höfundalögum nr. 72/1973. Stefnt er að því að semja við höfund fyrstu verðlaunatillögu um hönnun verkefnisins, ef viðunandi samkomulag næst milli hans og Mosfellsbæjar.
Mosfellsbær fær framseldan birtingar- og sýningarrétt þeirra skilagagna sem verða til við vinnslu allra innsendra samkeppnistillaga, í hluta eða heild, þ.m.t. teikninga, mynda, myndbanda, merkja og annarra gagna. Þó skal höfundar getið og sæmdarréttur höfundar virtur. Höfundi samkeppnistillögu er heimilt að nota verkið til kynninga, t.d. er varðar notkun vegna kynningar í ferilskrá og á heimasíðu höfundar, eða öðrum almennum persónulegum eða fræðilegum vettvangi arkitekts eða við fræðistörf innan fagsins framangreint skal þó ávallt vera í samræmi við 14. gr. Höfundalaga, enda sé ofangreind notkun ekki í fjárhagslegum tilgangi. Öll önnur notkun innsendra samkeppnistillagna en þær sem að framan greinir eru óheimilar.
Þeim sem falin er framhaldsvinna eftir samkeppni, er aðeins heimilt að nýta sér hugmyndir úr verðlaunatillögu. Til þess að heimilt sé að nota aðrar tillögur í heild eða að verulegu leyti, þarf samþykki viðkomandi höfunda og greiðslu fyrir höfundarétt á tillögunni.
Aðrar upplýsingar
Gildi Mosfellsbæjar eru Virðing – Jákvæðni – Framsækni – Umhyggja.
Mosfellsbær er opinbert sveitarfélag og markmið þess fyrst og fremst að þjónusta og huga vel að íbúum sínum og rekstri. Sveitarfélagið leggur áherslu á að fara vel með fjármuni og kostnaður við útfærslu á tillögum skal taka mið af því.