Hver hlýtur Hönnunarverðlaun Íslands 2020?

19. september 2020

Hönnunarverðlaun Íslands 2020 verða veitt í nóvember en þetta er í sjöunda sinn sem þau verða veitt. Verðlaunin varpa ljósi á mikilvægi og gæðum íslenskrar hönnunar og arkitektúrs. Vinningshafar í gegnum tíðina hafa verið af fjölbreyttum toga og frá ýmsum sviðum hönnunar og arkitektúrs.

Hönnunarverðlaun Íslands beina sjónum að því besta sem gert er á sviði hönnunar og arkitektúrs á íslandi um leið og einstaka hönnuðum eða hópum hönnuða er veitt mikilvæg viðurkenning.

Verðlaunin eru veitt hönnuði, arkitekt, hönnunarteymi eða stofu fyrir framúrskarandi ný verk; einstakan hlut, verkefni eða safn verka. Hönnuðir þurfa að vera félagar í einu af aðildarfélögum Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs eða fagmenn á sínu sviði til að hljóta verðlaunin. Ný verk eru verk sem lokið hefur verið við á síðustu þremur árum fyrir afhendingu verðlaunanna.

Vinningshafar í gegnum tíðina hafa verið af fjölbreyttum toga en hér má rifja upp hverjir hafa hlotið Hönnunarverðlauna Íslands:

 

 • 2019 Wave eftir Genki Instruments. Wave hringurinn er hannaður til að auka upplifun og túlkun í tónlist. Hringurinn er framsækin tæknilausn sem eykur möguleika tónlistamanna til sköpunar á þægilegan og notendavænan hátt.

 • 2018 Basalt Arkitektar fyrir arkitektúr í íslenskri baðmenningu en stofan hefur lagt ríkulega til þróunar baðstaða og baðmenningar á Íslandi. Nýjustu dæmin eru The Retreat við Bláa lónið í samstarfi við Design Group Italia og GeoSea sjóböðin á Húsavík.

 • 2017 Marshall-húsið. Húsið var upphaflega byggt árið 1948 sem síldarbræðsla og er nú nýr vettvangur lista við gömlu höfnina í Reykjavík. Arkitektarnir Ásmundur Hrafn Sturluson og Steinþór Kári Kárason, eigendur Kurt og Pí stofunnar, hafa leitt hönnun verksins í samstarfi við ASK arkitekta.

 • 2016 As We Grow. Íslenskt hönnunarfyrirtæki í eigu Guðrúnar Rögnu Sigurjónsdóttir prjónahönnuðar, Maríu Th. Ólafsdóttur fatahönnuðar og Grétu Hlöðversdóttur framkvæmdastjóra. Með vörulínunni tvinna þær saman fagurfræði, hefðum og nútíma í endingargóðan fatnað sem bæði vex með hverju barni og endist á milli kynslóða.

 • 2015 Eldheimar. Gosminjasýning í Vestmannaeyjum, er verk Axels Hallkells Jóhannesssonar sýningarhönnuðar, Gagarín sem hannaði gagnvirka sýningarhluta, arkitektsins Margrétar Kristínar Gunnarsdóttur og Lilju Kristínar Ólafsdóttur landslagsarkitekts.

 • 2014 Designs from Nowhere. Snýst um að kanna möguleika til smáframleiðslu á Austurlandi, þar sem notast er við staðbundin hráefni og þekkingu. Pete Collard,  listrænn stjórnandi hjá Design Museum í London og Karna Sigurðardóttir vöruhönnuður og kvikmyndaleikstjóri áttu frumkvæði að verkefninu og fengu til liðs við sig hönnuðina  Þórunni Árnadóttur, Gero Grundmann, Max Lamb og Juliu Lohmann til að þróa sjálfstæð verkefni í nánu samstarfi við handverksfólk og fyrirtæki á Austfjörðum.

Hver hlýtur verðlaunin 2020?

Frestur til að senda inn ábendingar til Hönnunarverðlauna Íslands 2020 rennur út á miðnætti mánudaginn 21. september næstkomandi. Allir geta sent inn ábendingu, bæði yfir sín eigin verk og annarra, við hvetjum sem flesta til að senda inn ábendingar yfir það sem hefur skarað fram út á árinu á sviði hönnunar og arkitektúrs sem og eiga skilið viðurkenningu fyrir bestu fjárfestingu í hönnun árið 2020.

Áætlað er að verðlaunaafhending og málþing þeim tengt fari fram þann 5. nóvember næstkomandi.

Dagsetning
19. september 2020
Höfundur
Álfrún Pálsdóttir

Tögg

 • Hönnunarverðlaun Íslands
 • Greinar
 • Hönnun
 • Fatahönnun
 • Vöruhönnun
 • Grafísk hönnun
 • Arkitektúr
 • Leirlist
 • Textíll
 • Innanhússarkitektúr
 • Landslagsarkitektúr