Hverjir skipa dómnefnd Hönnunarverðlauna Íslands 2020?
Dómnefnd Hönnunarverðlauna Íslands 2020 hefur þegar hafið störf en hennar hlutverk er að velja handhafa heiðursverðlauna Hönnunarverðlauna Íslands, viðurkenningu fyrir bestu fjárfestingu í hönnun og svo sjálf aðalverðlaunin, Hönnunarverðlaun Íslands. En hverjir skipa dómnefndina?
Dómnefnd Hönnunarverðlauna er skipuð 5 manns. Einn fulltrúi skipaður af Hönnunarsafni Íslands, sá er jafnframt formaður dómnefndar, einn fulltrúi skipaður af Listaháskóla Íslands, þrír fulltrúar skipaðir af stjórn Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs og einn fulltrúi skipaður af Samtökum Iðnaðarins.
Dómnefnd Hönnunarverðlauna Íslands 2020 skipa:
- Sigríður Sigurjónsdóttir, formaður dómnefndar. Hún er forstöðumaður Hönnunarsafns Íslands. Skipuð af Hönnunarsafninu.
- Sigrún Birgisdóttir, arkitekt og prófessor við hönnunar- og arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands. Skipuð af Listaháskóla Íslands.
- Hörður Lárusson, grafískur hönnuður og einn af eigendum hönnunarstofunnar Kolofon. Heiðursfélagi FÍT, sat í stjórn Hönnunarmiðstöðvar Íslands frá 2013 og formaður stjórnar 2016 – 2019. Skipaður af Miðstöð hönnunar og arkitektúrs.
- Sigrún Halla Unnarsdóttir er fatahönnuður, stofnandi og meðlimur í hönnunarteyminu IIIF, stofnandi AD og meðlimur í stjórn LungA skólans. Sigrún er með MA gráðu í fatahönnun. Skipuð af Miðstöð hönnunar og arkitektúrs.
- Paul Bennett, yfirhönnuður og stjórnandi hjá IDEO og deildarforseti hönnunardeildar við Listaháskóla Íslands. Hann er skipaður af Miðstöð hönnunar og arkitektúrs.
- Margrét Kristín Sigurðardóttir, almannatengsla - og samskiptastjóri Samtaka iðnaðarins. Hún er skipuð af Samtökum Iðnaðarins.
Varamenn dómnefndar eru: - Guðrún Lilja Gunnlaugsdóttir, hönnuður með MPM í verkefnastjórnun, stofnandi hönnunarfyrirtækisins Studiobility, situr í fagráði tækniþróunarsjóðs og starfar við innleiðingu hönnunarhugsunar í opinberum geira. Skipuð af Hönnunarsafni Íslands.
- Björn Guðbrandsson, prófessor í arkitektúr við Listaháskóla Íslands. Skipaður af Listaháskóla Íslands.
- Guðmundur Jörundsson fatahönnuður. Skipaður af Miðstöð hönnunar og arkitektúrs.
- Þorleifur Gunnar Gíslason, grafískur hönnuður. Skipaður af Miðstöð hönnunar og arkitektúrs.
Í vinnu sinni þarf dómnefnd að hafa mjög góða þekkingu á hönnunargreinunum og vera fagleg og óhlutdræg. Frestur til að senda inn ábendingar til Hönnunarverðlauna Íslands 2020 rennur út á miðnætti mánudaginn 21. september næstkomandi og mun þá dómnefnd setjast yfir ábendingar og velja 5 verk/verkefni í forval dómnefndar til Hönnunarverðlauna Íslands. Forvalið verður tilkynnt í næsta mánuði.
Allir geta sent inn ábendingu, bæði yfir sín eigin verk og annarra, við hvetjum sem flesta til að senda inn ábendingar yfir það sem hefur skarað fram út á árinu á sviði hönnunar og arkitektúrs. Áætlað er að verðlaunaafhending og málþing þeim tengt fari fram þann 5. nóvember næstkomandi.