„Verðlaunin virkuðu eins og ákveðið spark í rassinn fyrir okkur að halda áfram ótrauð á okkar vegferð“
Genki Instruments unnu Hönnunarverðlaun Íslands árið 2019 fyrir hringinn Wave. Jón Helgi Hólmgeirsson, yfirhönnuður Genki segir verðlaunin vera gífurleg viðurkenning sem hafi gert fyrirtækið þeirra meira áberandi á Íslandi sem og erlendis. Búið er að opna fyrir ábendingar til Hönnunarverðlauna Íslands 2020 hér.
Í niðurstöðu dómnefndar fyrir Hönnunarverðlaunin 2019 kom fram að hringurinn Wave sé „einstakt dæmi um framsækna hugmynd frumkvöðlafyrirtækis, þar sem rannsókn, þróun og prófanir í gegnum allt hönnunarferlið skila algerlega nýrri upplifun til notenda“.
Genki Instruments er framsækið og hönnunardrifið tónlistartæknifyrirtæki þar sem verkfræði, hönnun og tónlist renna saman í hringnum Wave, sem stýrir hljóði með hreyfingu. Teymið á bak við Genki er skipað þeim Ólafi Bogasyni, Haraldi Þóri Hugosyni, Jóni Helga Hólmgeirssyni, Þorleifi Gunnari Gíslasyni og Daníel Grétarssyni.
Nú er búið að opna fyrir ábendingar til Hönnunarverðauna Íslands 2020 og því við hæfi að fara yfir liðið ár, Hönnunarverðlaun og HönnunarMars með Jóni Helga, yfirhönnuði Genki Instruments.
Hvað þýðingu hafa verðlaunin haft og hversu mikilvæg eru þau fyrir hönnunarsamfélagið hér á landi?
Verðlaunin eru gífurleg viðurkenning á vinnu okkar síðastliðin ár en við höfum alltaf lagt upp með að hönnun og verkfræði fái jafnt vægi. Það er því gaman að það skuli komast til skila. Það má segja að verðlaunin hafi virkað eins og ákveðið spark í rassinn fyrir okkur að halda áfram ótrauð á okkar vegferð!
Verðlaunin eru mikilvægur liður í að upphefja hönnun og vekja á henni athygli út fyrir hönnunarsamfélagið sem er tiltölulega lítið á Íslandi. Þrátt fyrir smæð sína er ótrúleg gróska í hönnun hér á landi, en það sést til að mynda á þeim flottu verkefnum sem voru einnig tilnefnd til verðlaunanna - svo þetta er mikill heiður. Hönnunarverðlaunin gera litla fyrirtækið okkar auðvitað meira áberandi út á við en innlendir jafnt sem erlendir fjölmiðlar hafa sýnt okkur athygli í framhaldinu, ekki eingöngu vegna nýstárlegrar tækni, heldur einnig vegna útfærslunnar á tækninni og þeirri hönnunarnálgun sem við notum í okkar vinnu. Það finnst okkur mjög mikilvægt.
Genki Instruments tóku þátt í HönnunarMars í júní núna í sumar með gagnvirkri sýningunni Making Waves í Ásmundasal þar sem gestum gafst tækifæri á að prufa Wave hringinn og fá góða innsýn inn í vinnuna bak við tjöldin og hönnunarferlið í heild sinni.
Við nýttum tækifærið eins og best var á kosið - til að sýna loks almenningi á Íslandi hvað það væri sem við værum nú að sýsla, en við höfum lagt mesta áherslu á að markaðssetja Genki út fyrir landsteinana.
Það var ótrúlega gefandi að geta sett upp 'Making Waves' í Ásmundarsal á Hönnunarmars. Gestir og gangandi fengu þar að kynnast ferlinu á bak við vöruna okkar Wave - en kannski það sem var enn mikilvægara - var að fólk fékk að prófa hringinn okkar og fá innsýn inn í hvaða möguleikar eru fyrir hendi í þeirri tækni sem við erum að þróa. Við erum bæði ótrúlega þakklát fyrir alla þá sem komu og þau góðu viðbrögð sem við fengum, en ekki síður öllu því frábæra fólki sem hjálpaði okkur að gera þessa sýningu að veruleika.
Það eru svo margir aðilar sem hafa hjálpað okkur á vegferð okkar í gegnum tíðina og því finnst okkur eins og verðlaunin sýni að við höfum virkilega nýtt þessa þekkingu og hjálp sem okkur hefur verið veitt. Við hefðum aldrei komist á þennan stað án utanaðkomandi hjálpar og okkur langar að þakka þeim öllum innilega. Sérstakar þakkir fær Halla Helgadóttir, sem minnir okkur reglulega á að "samtal verkfræði og hönnunar er það sem keyrir nýsköpun áfram" - en þetta er eitthvað sem hún sagði við Genki á árdögum fyrirtækisins, sumarið 2015. Við lifum og hrærumst í þessari tilvitnun.
Hönnunarverðlaun Íslands setja ákveðinn gæðastimpil á fyrirtækið okkar og vörurnar sem við þróum og því eru þau mjög kærkomin og mikilvæg fyrir áframhaldandi vinnu.
Hvað er á planinu hjá Genki Instruments þessa dagana og hvaða áhrif hefur ástandið haft á ykkur og ykkar verkefni á þessu ári?
Eðlilega umturnaði ástandið öllum okkar áætlunum fyrir árið og fundum við vissulega fyrir óvissunni í samfélaginu. Snemma á árinu tókum við þá erfiðu ákvörðun að fresta útgáfu á nýjum vörum, og einbeita okkur alfarið að Wave. Það hristi hópinn saman með stefnu í sameiginlega átt.
Wave hefur nú verið á markaði í heilt ár og hefur það verið einstaklega lærdómsríkur tími fyrir okkur sem fyrirtæki. Við höfum lært að Wave er ekki bara hringur, heldur heildstæð vara með ótal snertifleti. Þar ber að nefna markaðsefni og samskipti við notendur, hugbúnað, dreifileiðir og hvernig notendur læra á hringinn til að byrja með. Samanlagt mynda þessir fletir heim sem við höfum skapað og notendur stíga inn í. Við viljum að þessi heimur sé magnaður en til þess þurfum við að skilja notendur okkar, og sífellt bæta upplifun þeirra af Wave.
Þá eru rannsóknir í fullum gangi fyrir næstu vörur. Í sumar unnum við með sex nemum frá HÍ, HR og LHÍ af tilstuðlan Nýsköpunarsjóðs Námsmanna. Þau unnu statt og stöðugt að því að útvíkka notagildi hringsins og skoða aðstæður þar sem smæð hringsins nýtist sem best við stjórn á tækni í kringum okkur. Þau unnu ótrúlega flott verkefni og við erum mjög spennt fyrir komandi misserum - að halda þeirri vinnu áfram með því að byggja ofan á þann grunn sem þau hafa skapað. Framtíðin er svo sannarlega björt.