Jólaskraut úr óseljanlegum gömlum lopapeysum
Hönnuðurinn Védís Jónsdóttir hannaði skrautið á jólamarkaðstré Skógræktarsfélags Reykjavíkur í Heiðmörk en undanfarin ár hafa þau leitað til hönnuða í verkið. Skrautið í ár er gert úr óseljanlegum lopapeysum frá fataflokkun Rauða krossins.
Védís segir að henni hafi strax dottið í hug að nota endurunnið náttúrulegt efni þegar hún fékk verkefnið í hendurna.
„Ég sá ekki fram á að hafa tíma til að prjóna skraut en datt strax í hug að nota endurunnið nátturulegt efni sem hæfir staðnum. Fyrst flaug í gegnum hug mér að nota prjónaprufur sem ég á í miklu magni, en þegar ég hanna lopapeysur prjóna ég fleyga af munstrinu. Það hefði orðið mjög hönnunarsögulegt jólatré,“ segir Védís sem starfar sem hönnuður hjá Ístex. Úr varð hinsvegar að fá gamlar ónýtar lopapeysur frá Rauða Krossinum.
Skrautið eru flögg og englalopakjólar, gerðir úr axlastykkjum og heillegir bolir urðu að jólasokkum og barnaermar að óbrjótanlegar jólakúlum.
„Allir jaðrar voru saumaðir en veðrið mun trúlega skapa smá kögur með tímanum. Kjólarnir voru settir á sprekherðatré og flöggin saumum föst á nokkrar snúrur til að auðvelda uppsetningu. Munstrin eru auðvitað mjög ólík að lit og formi og því púsl að raða þeim þannig að úr yrði skemmtilegur hrynjandi.“
Védís segir að það hafi skipt sig miklu máli að skrautið væri gert úr náttúrulegu og endurvinnanlegu efni. „Endurvinnsla er ekkert nýtt, við þurfum bara að gera hana aftur að sjálfsögðum hlut. Ég er alin upp við að fallegur jólapappír var straujaður og notaður aftur næstu jól. Fataviðgerðir og breytingar var eðlilegur hluti þessa að eiga fatnað.“
Í fyrra var það Hanna Dís Whitehead sem sá um að hanna jólaskrautið. Sjá hér.