Söguganga um Bankastræti og Laugaveg
Næstkomandi laugardag og sunnudag fer fram söguganga um Bankastræti og Laugaveg í tengslum við nýútkomna bók um byggingar- og verslunarsögu þessarar aðalgötu borgarinnar. Höfundar bókarinnar, Anna Dröfn Ágústsdóttir sagnfræðingur og Guðni Valberg arkitekt, rölta um götuna og leiða áhugasama í allan sannleik um byggingarsögu húsanna og fólkið sem byggði þau.
Í bókinni er fjallað um þróun borgarrýmisins og húsin sem eru, voru og ekki urðu, en þar er að finna fróðleik um fleiri en hundrað húsnúmer á milli Lækjartorgs og Hlemms.
Anna Dröfn er fagstjóri fræða í Hönnunardeild Listaháskóla Íslands og Guðni er einn af eigendum arkitektastofunnar Trípólí. Þau gáfu út bókina Reykjavík sem ekki varð árið 2014.
Lagt verður af stað klukkan 13.00, bæði laugardag og sunnudag, frá Stjórnarráðinu, neðst í Bankastræti.