Sigra í hugmyndaleit um framtíðaruppbyggingu í Gufunesi
Jvantspijker & Partners, Andersen & Sigurdsson og Felixx landscape architects (Team G+) sigra hugmyndaleit um framtíðaruppbyggingu og skipulag átta lóða við sjávarsíðuna í Gufunesi. Verðlaunaafhending fór fram í Katrínartúni 29. júní en það var í lok mars sem Fasteignaþróunarfélagið Spilda ehf í samvinnu við Arkitektafélag Íslands auglýsti eftir teymum til þátttöku. Alls voru fimm teymi valin til þátttöku í hugmyndaleitinni að undangengnu forvali.
Teymin fimm sem valin voru til þátttöku:
- TMMN: Tendra Arkitektur, MAD, MUD og NoMad
- Team G +: Jvantspijker & partners, Andersen & Sigurdsson architects og Felix-landscape, architects and planners
- KAMBAR: A2F arkitektar, Landmótun, Ferli verkfræðistofa og Myrra hönnunarstofa
- Arkþing‐Nordic og Landhönnun
- S.ap arkitektar og Lendager
Öll fimm teymi skiluðu inn tillögum sínum þann 14. júní og í kjölfarið kynntu teymin tillögur sínar á fundi með dómnefnd þann 22. júní sl.
HUGMYNDIN
Forsaga málsins er að Spilda festi kaup á tíu sjávarlóðum á Gufunesi árið 2020 og hefur nú þegar fengið samþykkta deiliskipulagsbreytingu á tveimur lóðum, Jöfursbási 5 og 7. Uppbygging þessara lóða hófst nú á vormánuðum. Þá standa eftir átta sjávarlóðir félagsins sem falla undir hugmyndaleit þessa. Með hugmyndaleit um nýja byggð við sjávarsíðu Gufuness var markmiðið að skoða hvernig hægt væri að nýta stórskorið landsvæðið sem best með tilliti til einstakra landgæða, tryggja sjónása frá byggingum og opnum svæðum að náttúru og skapa góðar íbúðir sem auka lífsgæði íbúa. Óskað var eftir að heildarmynd væri á uppbyggingu hverfisins/lóðanna með góðri tengingu við göngu‐ og hjólastígakerfi Reykjavíkurborgar. Reitir þeir sem hugmyndaleit þessi ræðir standa annars vegar í horni á sjávarkambi (A svæði) og hins vegar á plani og tanga austan við kvikmyndaver GN Studios (C svæði).
ÁHERSLUR DÓMNEFNDAR
Að tillagan sýni ákveðið heildaryfirbragð; vönduð og góð byggingarlistsem er aðlöguð að umhverfinu með áherslu á yfirbragð svæðisins og að nýbyggingar uppfylli á hagkvæman hátt kröfur og hugmyndafræði forsagnar. Að tillagan sýni aðlaðandi og lifandi umhverfi með góðri aðlögun og tengingu að aðliggjandi svæðum með skjólgóðum almenningsrýmum og góðum tengingum fyrir gangandi og hjólandi. Að tillagan taki tillit til sérkenna svæðisins og sérstöðu í bæjarmynd Reykjavíkur. Að tillagan leggi áherslu á að útfæra hugmyndir um útlit bygginga og skipulag á svæðum A og C í nánu samhengi við það umhverfi sem er til staðar á svæðinu. Að tillagan hugi að góðum bílastæðalausnum, helst neðanjarðar og að borgarland og lóðarhönnun flæði vel saman og mynda eina heild. bls. 4 af 9 Að tillagan leggi áherslu á góðar tengingar á milli lóða og húsa við fyrirhugaðan göngu‐ og hjólastíg sem Reykjavíkurborg áformar að leggja við strandlengjuna. Að tillagan leggi áherslu á bætta nýtingu lands fyrir uppbyggingu m.a. með mögulega fjölgun íbúða í stað atvinnuhúsnæðis. Að tillagan hugi að góðu innra skipulagi íbúða og að flestar íbúðir verði með tvo eða fleiri gluggafleti.
Í dómnefnd sátu:
- Anna Sigríður Arnardóttir, framkvæmdastjóri útbjóðanda (formaður)
- Björn Ingi Edvardsson, landslagsarkitekt, FÍLA
- Gísli Reynisson, verkfræðingur frá útbjóðanda
- Karl Kvaran, arkitekt, FAÍ
- Kristín Brynja Gunnarsdóttir, arkitekt frá útbjóðanda
Trúnaðarmaður var Helga Guðjónsdóttir, starfsmaður Arkitektafélags Íslands.
DÓMNEFNDARÁLIT
Eins og fyrr sagði sigraði teymið Team G+ en í dómnefndaáliti stendur um vinningstillöguna:
Það er einróma niðurstaða dómnefndar að tillaga 3 frá JVANTSPIJKER& PARTNERS, ANDERSEN & SIGURDSSON og FELIXX LANDSCAPE ARCHITECTS sé verðlauna tillaga í hugmyndaleit þessari. Tillaga þessi hlýtur því kr. 1.500.000 auk vsk. í verðlaun. Tillögurnar fimm eru allar vandaðar og vel unnar með áherslur dómnefndar að leiðarljósi. Þær hafa afar ólíka styrkleika og endurspegla ólíka sýn keppenda á svæðið og nærumhverfi þess. Vinnings tillagan er raunhæf og einstaklega vel framsett. Hún uppfyllir vel áherslur og markmið dómnefndar með einfaldri og skýrri heildarsýn. Uppskipting í lykilsvæði er markviss með góðum tengingum á milli þeirra og í samræmi við grunnmarkmið skipulags fyrir Gufunesið í heild. Mikill fjölbreytileiki í almenningssvæðum, góðir skalar og margar sögur sagðar. Góð flóra af mismundandi byggingum, hús vel staðsett og margir staðir í boði fyrir íbúa hverfisins. Tröppun að bíótorgi og í almenningsrýmum mjög vel leyst, mynda skjólgóð torgrými og sannfærandi dvalarstaði. Græna íbúðabyggðin við sjó er einföld og stílhrein sem virkar vel og skapar góð tengsl milli standsvæðisins og inngarðanna. Lagðar eru fram hógværar breytingar á strandsvæði sem styðja vel við það hvernig íbúar hverfisins geta lifað við hafið. Þá er áhugavert menningartorg vel staðsett milli grænasvæðis og rauða dregils og myndar sannfærandi stað þar sem fólk vill hittast og dvelja. Torg við hvítu ströndina verður einskonar “höfuð” verkefnisins við endann á Rauða dreglinum, lifandi torg við sem hefur alla burði til að verða aðdráttarafl í sjálfu sér og binda saman Gufunessvæðið í heild sinni.