Kristín Þorkelsdóttir og Manfreð Vilhjálmsson hljóta heiðurslaun listamanna
Grafíski hönnuðurinn Kristín Þorkelsdóttir og arkitektinn Manfreð Vilhjálmsson bætast í hóp þeirra sem hljóta heiðurlaun listamanna. Er það í fyrsta sinn sem listamaður úr röðum grafískra hönnuða og arkitekta kemst á listann. Bæði hafa þau hlotið heiðursverðlaun Hönnunarverðlauna Íslands.
Til að eiga kost á því að hljóta heiðurslaun listamanna þarf viðkomandi að hafa varið starfsævi sinni eða verulegum hluta til liststarfa, skarað fram úr við listsköpun sína eða náð miklum árangri.
Manfreð Vilhjálmsson arkitekt hlaut, fyrstur manna, heiðursverðlaun Hönnunarverðlauna Íslands árið 2019. Manfreð hefur markað djúp spor í sögu arkitektúrs á Íslandi og spannar einstakur starfsferill hans yfir 60 ár. Manfreð nam arkitektúr við Chalmers Tekniska Högskola í Gautaborg og lauk námi 1954. Eftir heimkomu 1956 var hann meðal brautryðjenda nýrra hugmynda í arkitektúr hér á landi. Í verkum Manfreðs birtast margvíslegar nýjungar í íslenskri húsagerðalist en jafnframt sýna verk hans frá fyrstu tíð næmi á umhverfi og viðleitni við að leysa verkefni í samræmi við tíðaranda og í skýru menningarlegu samhengi.
Kristín Þorkelsdóttir er brautryðjandi á sviði grafískrar hönnunar hér á landi. Verk hennar eru þjóðþekkt enda hannaði hún þá peningaseðla sem notaðir eru hér á landi, útlit íslenska vegabréfsins og ýmis þjóðþekkt merki sem blasað hafa við Íslendingum í áratugi. Kristín er fædd árið 1936 og hönnunarsaga hennar hefst þegar hún er 15 ára gömul og hefur nám í myndlistardeild Myndlista- og handíðaskólans, þaðan sem hún útskrifast árið 1955. Í framhaldinu starfaði Kristín sem grafískur hönnuður og hönnunarstjóri í áratugi.
Verk Kristínar eru áferðarfögur og djúp af fróðleik og það sem einkennir vinnubrögðin er alúð og ástríða. Hún hlaut Heiðursverðlaun Hönnunarverðlauna Íslands 2020.