Viltu hanna HönnunarMars?
HönnunarMars og Miðstöð hönnunar og arkitektúrs leita að hönnunar- og hugmyndateymi til að vinna að hönnun og þróun einkennis, ásýndar, rödd og upplifun kynningarefnis HönnunarMars byggt á grunni núverandi einkennis. Frestur til mánudagsins 16. september.
Um er að ræða valferli án tillagna þar sem áhugasamir senda inn umsókn um þátttöku og valnefnd velur 3–5 teymi úr innsendum umsóknum sem verður boðið að kynna sig og ræða mögulegt samstarf.
Verkefnið
HönnunarMars endurspeglar fjölbreytilega flóru greina hönnunar og arkitektúrs á Íslandi en þar má finna forvitnilegar sýningar, viðburði og samtöl sem veita þátttakendum og gestum innblástur og innsýn í nýjar lausnir og skapandi hugmyndir sem takast á við áskoranir samtímans. HönnunarMars er hátíð hönnunar og arkitektúrs og helsti kynningarvettvangur greinanna hérlendis sem og erlendis.
Verkefnið er að þróa áfram einkenni, ásýnd, rödd og upplifun kynningarefnis HönnunarMars. Útlit, ásýnd og miðlun hátíðarinnar hefur verið í stöðugri þróun frá upphafi enda mikilvægt að skapa henni skýra og sterka umgjörð en um leið endurspegla skapandi og síbreytilegt umhverfi greinanna. Mikilvægt er að einkenni HönnunarMars nái að skapa heildaráhrif sem miðla kjarna hátíðarinnar til breiðs hóps þvert á ólíka miðla.
Leitað er að hönnunar- og hugmyndateymi sem getur komið með hugmyndir að nýrri nálgun á útlit, ásýnd, rödd og upplifun HönnunarMars og DesignTalks. HönnunarMars einkennið birtist í fjölbreytilegum miðlum, einna helst rafrænt en líka í prenti. Ákjósanlegt að hugsa til lengri tíma hvernig hægt er að breyta og þróa einkennið án þessa að umturna því.
Markmið og áherslur
Verkefnið er að halda áfram að þróa ásýnd, einkenni, rödd og upplifun HönnunarMars en byggja á því sem áður hefur verið gert í góðu samstarfi við teymi HönnunarMars.
Markhópar hátíðarinnar
Hönnuðir arkitektar, fyrirtæki, stjórnmálafólk, fjölmiðlar og almenningur.
Áherslur valnefndar
Valnefnd byggir mat sitt á eftirfarandi áherslum:
- Hugmyndafræði, aðferðafræði og nálgun við verkefnið.
- Þekking, reynsla og fyrri verkefni.
- Samsetning hóps og fagleg breidd.
- Gæði umsóknar.
Valnefnd
- Anton Jónas Illugason, grafískur hönnuður og formaður stjórnar HönnunarMars
- Helga Ólafsdóttir, stjórnandi HönnunarMars
- Gísli Arnarson, grafískur hönnuður, stjórn Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs/FÍT
- Hlín Helga Guðlaugsdóttir, stjórnandi DesignTalks
- Halla Helgadóttir, framkvæmdastjóri Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs
Umsóknir
Áhugasöm teymi skulu senda inn umsókn, að hámarki fjórar A4-blaðsíður, þar sem fram koma upplýsingar um teymið, menntun og reynslu, fyrri verkefni, nálgun og hugmyndafræði sem teymið sér fyrir að leggja upp með í verkefninu. Ekki er ætlast til að sýndar séu tillögur vegna verkefnisins í umsókninni.
Umsóknum skal skilað fyrir kl. 15, mánudaginn 16. september á info@honnunarmars.is.
Valnefnd velur 3-5 teymi úr innsendum umsóknum og boðar til fundar til að ræða mögulegt samstarf. Gert er ráð fyrir að velferlinu sé lokið í byrjun október.
Fyrirspurnir
Hægt er að senda inn fyrirspurnir á info@honnunarmidstod.is fyrir kl 12, 9 september. Spurningar og svör verða birt á við fréttina um valferlið.
Ítarlegri upplýsingar
Hér má skoða hvernig einkenni HönnunarMars hefur þróast gegnum árin.
Hér má skoða má yfirlit frá upphafi bæði bæklinga og skýrslur, þar sem ásýnd og einkenni kemur fram auk alls kyns upplýsinga um hátíðina, á þessum slóðum:
HönnunarMars er rekinn af Miðstöð hönnunar og arkitektúrs sem er í eigu félaga hönnuða og arkitekta og er með rekstrar- og þjónustusamning við menningar- og viðskiptaráðuneyti. HönnunarMars er ein af borgarhátíðum Reykjavíkurborgar sem leggur hátíðinni til fjármagn. Samið verður við það teymi sem verður valið en umfang verkefnisins fer eftir nálgun og samsetningu teymisins. Það er mikilvægt að umsækjendur átti sig á að HönnunarMars er þátttökuhátíð sem rekin fyrir takmarkað fjármagn.