Minn HönnunarMars - Arna Schram
Hvernig verður HönnunarMarsinn þinn? Arna Schram, sviðsstjóri menningar- og ferðamálasviðs Reykjavíkurborgar, deilir hér hvaða sýningum hún ætlar ekki að missa af á HönnunarMars í maí 2021.
Nú er HönnunarMars í maí er að bresta á í allri sinni dýrð. Dagskráin telur um 80 sýningar sem breiða úr sér um bæinn og því vel við hæfi að fá smá leiðsögn í gegnum fjölbreytta dagskrá sem endurspeglar einstaka grósku íslensks hönnunarsamfélags.
Framtíðin, tækni, sjálfbærni, náttúra, arfleifð og nýsköpun er þátttakendum hugleikin viðfangsefni á hátíðinni í ár sem veitir innblástur inn í nýja tíma.
Næstu daga munum við deila hvaða sýningum vel valdir aðilar ætla ekki að láta framhjá sér fara á HönnunarMars í maí 2021 undir yfirskriftinni Minn HönnunarMars.
Hér eru þær sýningar sem Arna ætlar ekki að missa af í ár
Af ásettu ráði
Útskriftarhátíð Listaháskóla Íslands í Listasafni Rreykjavíkur; Hafnarhúsi við Tryggvagötu. Hef ekki látið þessa uppskeruhátíð útskriftarnema frá LHÍ framhjá mér fara undanfarin ár. Þær eru fullar af orku og nýrri hugsun. Stemningin er einstök og mikil gleði, birta og von sem fylgir skapandi listamönnum út í lífið.
Bleika matarhreyfingin
Kynningin á sýningunni kveikir áhuga minn á því að vita meira. Þarna á að pæla í matarsóun í einhverju samhengi en meira veit ég svo sem ekki. Ef ég skil líka rétt kemur upplifunarhönnun einnig þarna við sögu og verð ég því að viðurkenna að ég vil helst fá slíka hönnuði í allt það sem ég er að gera. Þessu má ég ekki missa af.
Dagsson by Eygló
Ég hef óbilandi áhuga á tísku og fatahönnun og hef fylgst með því sem Eygló hefur verið að gera. Hlakka til að sjá hvaða lína kemur út úr þessu samstarfi hennar og Hugleiks Dagssonar. Sýningin verður líka á Grandanum, sem er einn af mínum uppáhaldsstöðum í Reykjavík.
Hlutverk
Fyrir nú utan að ég þekki vel til sýningarstjóranna Írisar og Signýjar, og veit hvað þær eru skapandi og skemmtilegar, þá er alltaf jafn spennandi að fylgjast með því sem ungir vöruhönnuðir eru að pæla og gera. Kaffihúsið í Ásmundarsal er einnig með því notalegra, ekki síst ef hægt er að sitja úti, og því verður hægt að slá tvær flugur í einu höggi. Ég hugsa að ég láti heldur ekki uppboðið á frumgerðunum framhjá mér fara síðar í mánuðinum.
Hönnun í anda Ásmundar
Það vill nú svo vel til að ég hef þegar fengið að sjá einhverjar þær vörur sem þarna verða sýndar og verða í vöruúrvali Ásmundarsafns á næstunni. Þær eru mjög skemmtilegar og hannaðar af innlendum hönnnuðum í anda myndhöggvarans Ásmundar. Umhverfið þarna er líka mjög fjölskylduvænt og hver veit nema ég bjóði Iðunni og Brynjari flottu litlu frændsystkinum mínum að koma með mér.