Minn HönnunarMars - Kristín Soffía Jónsdóttir
Nú er HönnunarMars er að bresta á í allri sinni dýrð. Dagskráin telur um 80 sýningar og 100 viðburði sem breiða úr sér um bæinn og því vel við hæfi að fá smá leiðsögn. Næstu vikuna munum við deila hvaða sýningum vel valdir aðilar ætla ekki að láta framhjá sér fara á HönnunarMars 2020 undir yfirskriftinni Minn HönnunarMars.
Hér eru þær sýningar sem Kristín Soffía ætlar ekki að láta framhjá sér fara
Hljómur Hlemmtorgs
Það er við hæfi að byrja röltið á Hlemmi, húsi sem hefur tekið umbreytingu á seinustu árum og nú fylgir allt svæðið með. Þar mun ég gægjast inn í framtíðina með DLD og Mandaworks.
Rölti síðan niður Laugaveg og kem við í Móa.
Mói, börn hanna sokka
Börnin mín elska þessi föt og ég er spennt að sjá hvort náum ekki að töfra fram einhverja snilld sem ratar vonandi á sokka.
Stefnan tekin upp Frakkarstíg í Ásmundarsal.
Genki instruments
Þessi sýning er efst á listanum, virkilega spennandi og næstum yfirnáttúruleg pæling og ég er viss um að sýningin verður upplifun.
Stoppað á nokkrum stöðum á Skólavörðustíg.
Dýragarðurinn
Eigandi tvö smá börn og verandi sjálf klaufi finnst mér fallegur veltibolli vera eitthvað sem ég verð að kíkja á.
Agustav
Þeirra hönnun hefur alltaf heillað mig og ég held að nú þegar þau eru komin með sýningu í eigin verslun þá sé komið að því að færa þetta samband upp á næsta stig.
Hildur Yeoman
í næstu hurð er svo hægt að kíkja á nýjustu línuna frá Hildi Yeoman, Cheer up, sem ég hef miklar væntingar til.
Franskur lífstíll
Af því að ég elska allt sem er franskt og ég held að þetta gæti verið það næsta sem ég komist Frakklandsferð í lengri tíma.
Beygt niður Vegamótastíg niður á Laugaveg.
Ragna Rok/66°Norður
Ragna Ragnarsdóttir er klárlega ein af okkar allra bestu hönnuðum, hlakka til að sjá þetta samstarf.
Miðgarður – Vistborg
Þétt borg kallar á nýjar lausnir og Miðgarður sýnir nýjar íbúðagerðir sem ég er mjög spennt fyrir.
Borgartunnan
Við hæfi að enda gönguna á Hafnartorgi og losa sig við bæklinga og dót beint í pappírshlutann á þessari nýju flokkunartunnu.