Minn HönnunarMars - Þórdís Björk Þorfinnsdóttir
Hvernig verður HönnunarMarsinn þinn? Þórdís Björk Þorfinnsdóttir, leikkona deilir hvaða sýningum hún ætlar ekki að missa af á HönnunarMars í maí 2021.
Nú er HönnunarMars í maí er að bresta á í allri sinni dýrð. Dagskráin telur um 80 sýningar sem breiða úr sér um bæinn og því vel við hæfi að fá smá leiðsögn í gegnum fjölbreytta dagskrá sem endurspeglar einstaka grósku íslensks hönnunarsamfélags.
Framtíðin, tækni, sjálfbærni, náttúra, arfleifð og nýsköpun er þátttakendum hugleikin viðfangsefni á hátíðinni í ár sem veitir innblástur inn í nýja tíma.
Næstu vikuna munum við deila hvaða sýningum vel valdir aðilar ætla ekki að láta framhjá sér fara á HönnunarMars í maí 2021 undir yfirskriftinni Minn HönnunarMars.
Hér eru þær sýningar sem Þórdís ætlar ekki að missa af í ár
Ástarbréf til Sigvalda Thordarson
Ég held að það sé nokkuð ljóst að ekkert mannsbarn má missa af þessari sýningu. Það er þjóðfélagsleg skylda að sjá hana. Byggingarnar eftir þennan stórbrotna arkitekt eru listaverk og mikilvægur partur af íslenskri byggingarsögu. Svo er bara eitthvað svo ótrúlega sætt við orðið ,,Sigvaldahús”. Það verður farið á rúntinn í rútu þar sem verk Sigvalda, bæði þau þekktu og “minna” þekktu verða skoðuð. Hljómar einsog algjör stemmari. Ef þið eruð ekki að fylgjast með instagram reikningnum sem Loji Höskuldsson heldur úti þá þurfiði að gera það eigi síður en núna.
Dagsson by Eygló
Mjög hrifin af báðum þessum meisturum og það verður forvitnilegt að sjá útkomuna úr þeirra samstarfi. Húmor gefur lífinu lit og ég vona að þetta verði þokkalega óviðeigandi og broslegt. Sýningin er á Grandanum sem er náttúrulega svalasti staður á Reykjavíkursvæðinu.
Eldblóm - ræktaðu flugelda
Þetta er svo fögur hugmynd að ég fyllist hlýju lengst niður í hjartarætur. Virkilega heillandi og eitthvað sem vert er að skoða. Verandi mikill plöntu- og blómakona og með grænar fingur sem ég fékk í vöggugjöf frá henni ömmu minni þá er þetta verk sem ég vil ekki missa af. Flugeldar í sinni upprunalegu mynd, umhverfisvæn og falleg nálgun.
Hráefni fortíðarinnar
Ég elska allt sem er endurnýtt og ég elska húsgagnasmíði. Hér eru á ferðinni handsmíðuð húsgögn úr efnivið sem má m.a. rekja til aldraðra fiskibáta og veðraðra húsþaka. Bara geggjað.
Magamál
Þar sem ég er gríðarlegur fagurkeri (og matargat) heillaði þetta mig strax. Handgerð matarílát, samvinnuverkefni Helgu Hrannar Þorleifsdóttur og Ingibjargar Óskar Þorvaldsdóttur. Þær vinna úr svörtum leir og sækja innblástur úr íslenskri náttúru og veðráttu. Væri alveg til í að eiga hluti frá þeim í eldhúsinu mínu. Ofboðslega fallegt.
Peysa með öllu fyrir alla, uppskeruhátíð
Bara við það eitt að sjá flík eftir Ýr Jóhannsdóttur ferðu ósjálfrátt í gott skap. Ég hef verið aðdáandi hennar lengi og finnst hún svo innilega svöl. Ég meina Erykah Badu hefur sérpantað prjónaverk frá henni. Fólki hefur boðist að taka að sér peysu frá Rauða Krossinum og taka þátt í smiðjum í skapandi fataviðgerðum. Útkoman verður sýnd hér og sömuleiðis verk eftir Ýr. Meiri húmor, gleði og lit í lífið. Það er það sem ég hef alltaf sagt.